Sorglegasti kaflinn í Sögu þernunnar

29. september 2018

Saga þernunnar eftir Margaret Atwood var önnur bókin sem ég las eftir fæðingu sonar míns. Það var febrúar og það var dimmt. Við lágum uppi í rúmi, hann var ýmist á brjósti eða sofandi upp við brjóstið og ég tyllti bókinni upp á rönd á dýnunni fyrir aftan höfuðið á honum. Ég las þó nokkuð af bókum í fæðingarorlofinu með þessum hætti og uppgötvaði í leiðinni að sviplegur dauði ungra barna og aðskilnaður foreldra frá börnum sínum er töluvert algengara umfjöllunarefni í bókum en ég hafði áður veitt eftirtekt. Ég veit ekki alveg af hverju ég valdi Sögu þernunnar undir þessum kringumstæðum en það var góð ákvörðun, ég lifði mig sterkt inn í bókina. Ég las bókina í nýju íslensku þýðingunni, en áður hafði ég lesið hana þegar ég var fjórtán ára. Fjórtán ára eða þrítug, í unglingavinnunni eða fæðingarorlofi, þetta eru mjög ólík sjónarhorn á þessa merkilegu bók.

Bókin gerist í Bandaríkjunum og hefst um miðjan níunda áratuginn, þar sem samfélagið þróast með öðrum hætti en við þekkjum, því bókstafstrúarmenn ræna völdum og stofna kristna einræðisríkið Gíleað. Þegar bókin kom út fjallaði hún um samtíma sinn, en fólki verður tíðrætt um hve vel hún falli að pólitískri ólgu Bandaríkjanna í dag. Aðalsöguhetjan Affred segir á brotakenndan hátt frá lífi sínu, frá því hún var frjáls, þegar valdaránið fór fram og þeim atburðum sem marka líf hennar í þrældómi í Gíleað. Í bókinni eru ýmsar vísbendingar um það að árið 1985 í bókinni sé þrátt fyrir allt örlítið frábrugðið því sama ári í raunveruleikanum þó allt sé mjög kunnuglegt. Fólksfækkun virðist hafa verið stærra vandamál og mengun meiri, svo mikil að töluverðar líkur eru á að börn skaðist í móðurkviði. Valdaklíkan í Gíleað notar þessi vandamál til að réttlæta það að stjórna lífi kvenna og þar með öllu samfélaginu. Fyrst eru fjárráðin tekin af þeim og þeim bannað að vinna. Síðan eru konur utan hjónabands handteknar og þær settar í þrælkunarvinnu og alltaf þrengist skilgreiningin yfir það hvaða hjónabönd eru lögleg.

Eitt af því sem ég man skýrast frá því ég las bókina þegar ég var fjórtán ára er hvað ég varð reið yfir allri hræsninni í Gíleað. Samfélaginu er snúið á hvolf með handtökum, pyntingum og  aftökum, konur eru klæddar í skósíða kufla og sviptar öllu frjálsu vali, og kjarninn í þessu öllu saman er að koma guðhræddum böndum á kynlíf. Þegar hin fjórtán ára ég kom að kaflanum þar sem kemur í ljós að valdakarlarnir í Gíleað reka risastórt hóruhús fyrir sjálfa sig í gömlu hóteli og útskýra að valdaránið hafi verið nauðsynlegt af því að kynlíf hafi einfaldlega verið orðið of auðfengið og þar með of óspennandi, þá ætlaði ég að springa af reiði. Þrjátíu ára gömul gat ég enn munað eftir þessari miklu reiði og það sorglega er að ég varð eiginlega hálf undrandi á henni. Auðvitað voru þeir með hóruhús. Hvað var svona merkilegt við það? Hélt ég virkilega að þeir meintu eitthvað með öllu þessu kjaftæði?

Hræsnin er alls staðar í Gíleað og þrjátíu ára gömul var ég mun naskari við að koma auga á hana, þó réttlætiskennd mín sé orðin of þreytt til að finna fyrir þeirri heilögu reiði sem ég var fær um fjórtán ára. Gíleað þjáist af fólksfækkun en samt stendur ríkið í endalausum hernaði við uppreisnarmenn og aftökur eru algeng opinber skemmtun, af því að líf ungra karlmanna er stjórnvöldunum einskis virði. Gíleað upphefur móðurhlutverkið til skýjanna en fjölskyldum er kerfisbundið sundrað. Gíleað finnst börn svo dýrmæt að nokkurra vikna gömul fósturlát eru jarðsett með viðhöfn, meðgöngurof og fósturskimanir eru bönnuð, en ef börn fæðast fötluð eru þau að öllum líkindum drepin. Til þess að sporna við fólksfækkun leitar Gíleað allra afsakana til að fjarlægja konur úr líffræðilega frjóum samböndum og gera þær að upphöfnum kynlífsleikföngum fyrir ófrjóa menn úr röðum valdastéttarinnar.

Affred segir þessa sögu á fjarlægan og hlutlausan hátt. Jafnvel þegar hún segir frá því þegar móðir hennar hvarf, vinkona hennar strauk úr fangabúðunum, skotið var á manninn hennar og dóttirin tekin af henni. Þessi fjarlægi tónn er mjög áhrifaríkur. Hann birtir lesandanum ekki bara áfallið sem Affred er enn í heldur líka það hvernig efinn og óvissan mótar líf hennar og allra annarra í Gíleað. Hún veit ekkert um örlög alls þessa fólks sem hún hefur misst. Svörin koma smám saman í ljós eftir því sem líður á bókina en þrúgandi líf Affred í Gíleað heldur áfram sinn gang eins og ekkert hafi í skorist. Það er bara eins og vonin hverfi smám saman.

Eftir allt þetta kemur svo hinn stórkostlegi lokakafli og er eins og högg í magann. (Og hér skaltu hætta að lesa ef þú hefur aldrei lesið bókina). Óræður en greinilega langur tími hefur liðið og fræðimenn á alþjóðlegri ráðstefnu um Gíleaðríkið sitja fyrirlestra, skrá sig í útivistarferðir og hlakka til léttra veitinga. Frásögn Affred, varðveitt á gömlum kasettum, er orðin heimild um löngu liðna tíma. Fjórtán ára gömul átti ég erfitt með að útskýra alveg af hverju mér fannst þessi kafli svona sársaukafullur. Gíleað hafði jú á endanum liðið undir lok, fólk lifði aftur eðlilegu lífi og þó mér þætti erfitt að sjá fræðimennina slá á létta strengi um frásögn Affred þá heldur lífið náttúrulega áfram. Ekki erum við í dag alltaf að hugsa með harmrænni virðingu til Helfararinnar.

Mér fannst þessi kafli enn þá óþægilegri í dag, sextán árum og einu sagnfræðinámi síðar. Ein af ástæðum þess er að það kemur fram að frásögn Affred er frá því sem fræðimennirnir kalla fyrsta skeið Gíleað. Svo kom miðstigið og lokastigið. Andspyrnuhreyfingin sem Affred komst á snoðir um, og veitti manni einhverja von, barðist því til einskis og allt ofbeldið sem lýst er í bókinni er þá bara forsmekkur að því sem koma skal. En það sem truflar mig mest eru sjálfir fræðimennirnir. Í hvernig samfélagi búa þeir eiginlega?

Ég er viss um að fræðimenn sem fara á ráðstefnur um Helförina segja stundum brandara og fara saman í vettvangsferðir og morgunverðarhlaðborð. En fræðimennirnir sem eru að rannsaka frásögn Affred virðast hafa tekið fræðilegt hlutleysi svo langt að þeir neita margoft að taka afstöðu gegn því sem fram fór í Gíleað. Þeir benda á fólksfækkun hvítra Vesturlandabúa sem raunverulegt vandamál sem hafi þurft að leysa og vilja ekki setja sig í dómarasæti yfir aðstæðum sem þeir hafa aldrei þurft að búa við. Þeir neita að greina hræsnina í ríkinu sem þeir eru að rannsaka. Þeir vilja frekar lýsa aðferðum stjórnvalda í Gíleað við að hafa stjórn á samfélaginu og dást jafnvel dálítið að sniðugum lausnum þeirra, eins og að leyfa kúguðum konum að fá útrás fyrir uppsafnaða reiði með því að taka dæmda karlmenn af lífi með berum höndum í múgsefjunarathöfn. Kvenlegt sjónarhorn Affred höfðar ekki til þeirra. Þeir harma það að hún hafi eytt tíma í að lýsa jafn ótrúlega fræðilega áhugaverðum hlutum og kynlífi og barnsfæðingum á tímum Gíleað. Þess í stað hefðu þeir viljað fá nokkrar útprentaðar síður úr tölvu valdakarlsins sem hún bjó hjá. Til að vita meira um það hvað hann var að hugsa og gera allan daginn

Hvað er eiginlega að þessu fólki? Öll mannkynssagan er uppfull af körlum pólitík og ég sjálf myndi gera hvað sem er fyrir heimild af sama tagi og sögu þernunnar. Einhvern veginn tekst þessum fræðimönnum að vera enn óhugnalegri en tímabilið sem þeir eru að rannsaka. Affred beinir orðum sínum til áheyrandans út alla bókina. Hún veit ekki hver er að hlusta, hvort það er nokkur yfirhöfuð, en segir samt frá. Það sem gerir mig svona sorgmædda við lestur síðasta kaflans er að þá vitum við loksins hver það er sem hún var að tala við allan tímann. Og það er einhver sem hlustar en heyrir ekki.

Lestu þetta næst