Húgó og Alex kljást við fleiri skrímsli

Í fyrra kom út fyrsta bókin í bókaflokknum Ferðin á heimsenda eftir Sigrúnu Elíasdóttur. Sú fyrri bar nafnið Leitin að vorinu og byrjar með hvelli á ævintýri Húgó og Alex frá Norðurheimi. Saman þurfa þau að koma jafnvægi á heimshlutana fjóra, Norðuheim, Suðurheim, Vesturheim og Austurheim. Til að ná því þurfa þau að safna fjórum styttum, sem eru vel varðar af skrímslum og forynjum í mismunandi heimshornum.

Ríkuleg skrímslaflóra

Í Ferðin á heimsenda – Týnda barnið byrjar bókin þar sem sú fyrri sleppti. Án efa eru margir lesendur sem hafa beðið eftir framhaldinu. Húgó og Alex stefndu til Vesturheims en um leið og þau stíga á land, lenda þau í hremmingum. Og hremmingunum linnir ekki þar! Líkt og í fyrri bókinni ganga þau fram á hvert skrímslið á eftir öðru, kynnast furðuverum við hvert fótmál (til dæmis öldruðum unglingi og skýjum sem komast fyrir í poka). Kynni þeirra af skrímslum og forynjum eru stundum ógnvænleg, hætturnar  hrikalegar en að sama skapi þá getur lesandinn verið viss um að allt fer vel að lokum. Skrímslaflóran í bókum Sigrúnar er mögnuð og þar koma fram ímynduð og uppdiktuð skrímsli í bland við önnur þekktari. Sigrún er sagnfræðingur að mennt og hefur án efa sótt þekkingu um skrímslin í gamlar skræður og bækur.

Bækurnar eru skrifaðar fyrir aldurshópinn 8-13 ára og myndlýstar meistaralega af Sigmundi Breiðfjörð. Sigmundur hefur greinilega sérstakt dálæti af skrímslum og það sést vel á teikningunum. Þær eru þó bara hæfilega hræðilegar, enda gætu of hroðalegar myndir hrætt væntanlega lesenda frá. Í bók sem þessari hefði verið skemmtileg að hafa einhverjar smærri myndir inn á hverri síðu. Eitthvað sem heldur athygli lesandans við lesturinn og dýpkar lestrarupplifunina.

Hraður söguþráður og spennandi

Stíll Sigrúnar er mjög hreinn og beinn og knappur. Mest púður fer í skrímslin sem eru á hverju strái, en hún gefur sér þó tíma til að lýsa umhverfi og reynir að dýpka aðalpersónurnar. Söguþráðurinn er mjög hraður og hver kafli endar á spennandi atburði. Hver kafli er að sama skapi notaður til að sigrast á einu skrímsli og komast í kynni við það næsta. Þess má líka geta að Húgó og Alex borðuðu mikið af framandi ávöxtum inn á milli hasarsins. Mér fannst þau borða aðeins of oft, enda fannst mér ekkert spennandi að lesa um bragð og form á ávexti þegar ég vissi að það væri annað skrímsli handan við hornið. Húgó og Alex afgreiða bæði Vesturheim og Suðurheim í bókinni, allt er gert á miklum hraða. Þótt fyrri bók hafi verið hröð, þá er þessi bók enn hraðari og mér fannst jaðra við snubbótt. Ekki síst þegar litið er til þess að Sigrún hefur greinilega viljað dýpka persónurnar. Ef til vill hefði verið betra að gefa hverjum heimi sína eigin bók og þannig gefa persónunum andrými til að þroskast saman. Það skal þó haft í huga að ég las bókina hraðar en markhópurinn sem hún er miðuð að, og því gæti skynjun mín á söguþræðinum verið allt önnur en hjá börnum sem lesa bókina.

Björgun heimsins

Það er svolítill loftslagsboðskapur í bókinni. Heimurinn er á skjön og loftslag og veður er úr lagi í öllum fjórum heimshlutunum. Það er talað um breytt veðurfar, heitara loftslag og breyttar lífsvenjur. Lausnin í bókunum virðist þó vera auðveldari en hjá okkur, ef Húgó og Alex komast á heimsenda til að leysa vandamálið.

Heilt yfir er bókin fyndin og spennandi. Húgó er álappalegur, huglaus sláni sem auðvelt er að hlæja að. Svolítið eins og Guffi, bara með minni eyru. Alex er andstæðan: ung kona með stefnu, dug og þor. Það verður forvitnilegt að sjá hvað Sigrún hefur uppi í erminni fyrir næstu bók – þegar Húgó og Alex hafa náð að safna saman öllum styttunum og sameina krafta þeirra til að bjarga heiminum frá glötun.

Lestu þetta næst

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...