Grænmetisætan sem sækir í frið

Grænmetisætan er hluti af Neon bókaflokknum hjá Bjarti. Bókin kom mér ótrúlega á óvart og var alls ekki eins og ég bjóst við að hún yrði. Bókin er skrifuð af Suður-Kóreska rithöfundinum Han Kang og kom fyrst út árið 2007. Bókin hlaut mikla athygli í Suður-Kóreu og var kvikmynduð strax árið 2009. Bókin hlaut Man Booker verðlaunin fyrir enska þýðingu árið 2016 og hefur í raun farið sigurför um heiminn. Bókin er meistaralega þýdd á íslensku af Ingunni Snædal.

Ég legg það ekki í vana minn að lesa um bækur áður en lestur hefst. Mér finnst gott að koma að nýrri sögu með ómengaðan huga um það sem framundan liggur, ósnert af skoðunum annarra á bókinni. Það hafði samt verið mælt með Grænmetisætunni við mig og ýjað að því að þetta væri bók sem væri mjög áhugaverð og vekti upp alls kyns hugsanir og pælingar og ég er algjörlega sammála því.

Yeong-hye er venjuleg húsmóðir í Seúl sem einn daginn fær blóðuga martröð uppfulla af þjáningum, myndum af andlitum í blóðpollum og hræðilegu ofbeldi og ákveður eftir það að gerast grænmetisæta. Sagan er ekki sögð út frá sjónarhorni aðalpersónunnar. Lesandi fær aðeins nokkrar glefsur úr þankagangi hennar í gegnum samtal sem hún á við sjálfa sig í fyrsta hluta hennar.

Bókinni er skipt í þrjá hluta. Fyrsta sjónarhorn á Yeong-hye er í gegnum manninn hennar. Hann er hrokagikkur sem giftist henni eingöngu af þeirri vissu að hún væri svo venjuleg að hún myndi aldrei gera nokkuð sem gæti valdið gárum í óeftirtektarverðu lífi hans. Hjónabandið virðist ástlaust og lesandi fær eingöngu að finna fyrir hneykslun og reiði eiginmannsins yfir ákvörðun konu sinnar. Í öðrum hluta sjáum við Yeong-hye í gegnum augu mágs hennar, listamanni sem er algjörlega heltekinn af mágkonu sinni og þráir ekkert heitar en að nota hana í myndbandsverk. Í þriðja hluta fylgjumst við með systur Yeong-hye og fáum fyrir vikið að vita meira um fortíð hennar. Ég fór strax að velta fyrir mér hvort að bókin væri feminísk og ef til vill er hún það. Kona berst fyrir rétti yfir eigin líkama og lífi. Í viðtali á Vísi við höfundinn segir Han Kang að það sé hægt að lesa femínisma úr bókinni en aðalpersónan sé fyrst og fremst manneskja sem hafnar grimmd. Hún hafnar þeirri grimmd sem felst í því að vera manneskja.

Ég veit eiginlega ekki hvað mér á að finnast eftir lesturinn. Ég hef ekki lesið margar bækur frá Asíu og mér er enn í fersku minni Einu sinni var í austri: Uppvaxtarsaga þar sem talað er tæpitungulaust um alls kyns mál sem við í vestrinu erum of miklar teprur til að segja berum orðum. Grænmetisætan minnti mig á þennan stíl, án þess að ég vilji á nokkurn annan hátt líkja þessum bókum saman. Sumt í bókinni var eins og kjaftshögg, sagt svo berum orðum að ég stóð eftir í hálfgerðu losti. Bókin var dýrsleg, ofbeldisfull og ég velti fyrir mér hvort hægt sé að kalla hana erótíska, en er komin á þá skoðun að það passi ekki við. Hún er bara ofbeldisfull. Það sem bókin inniheldur er alla vega alls ekki það sem ég bjóst við af bók sem ber nafnið Grænmetisætan. Ég dýrka það þegar bækur hreyfa við tilfinningum mínum og koma mér svona duglega á óvart. Þessi bók, vakti upp alls konar tilfinningar; máttleysi, reiði, forvitni og undrun.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...