Einu sinni var í austri: Uppvaxtarsaga

5 stjörnur s

einu-sinni-var-i-austri-uppvaxtarsagaSjálfsævisögur hafa sjaldan heillað mig. Mér finnst þær oft á tíðum uppfullar af löngum lýsingum á högum fólks, umhverfi sem er mér ókunnugt og persónum sem sögumaður þekkir vel en gleymdi kannski að kynna fyrir lesandanum. Þær geta verið svo þurrar.

Þegar ég tók upp bókina Einu sinni var í austri: Uppvaxtarsaga var ég því ekkert of spennt. Ekki nóg með að hún væri sjálfsævisaga, heldur gerðist hún líka í Kína sem mér hefur aldrei þótt of spennandi að lesa um. Austrænar bókmenntir hafa ekki náð að fanga mig og hafa satt að segja haft fælingarmátt. En ég hélt áfram að lesa þessa bók og sé ekki eftir því. Bókin er gefin út af bókaútgáfunni Angústúru og kápan er stílhrein og falleg.

Ástlaus æska

Xiaolu Guo er kvikmyndagerðarkona og rithöfundur sem er alin upp í Kína á árunum eftir menningarbyltinguna. Hún er fædd árið 1973 og strax eftir fæðingu gefin fátækum kotbændum í einangruðu fjallaþorpi. Kotbændurnir, sem sjálfir voru við hungurmörk, höfðu ekki mat til að gefa litlu stúlkunni. Þegar hún er tveggja ára er hún send í fóstur til ömmu sinnar og afa í sjávarþorpinu Shitang við austurströn Kína.  HEimili afa hennar og ömmu er algjörlega þurrið ást. Afinn er ofbeldisfullur og drykkfelldur eftir að hann missti lífsviðurværi sitt sem sjálfstæður fiskimaður með komu kommúnismans sem breytti fiskveiðikerfinu. Hann ber ömmuna nær daglega. Amman er ekki til sem eigin persóna í augum nokkurs, ekki einu sinni sínum eigin. Hún var seld í hjónaband tólf ára gömul, með reirða fætur og er hálf blind. Xiaolu efast samt aldrei um að amma hennar hafi elskað hana, þótt það hafi aldrei verið talað um það berum orðum. Harkan var mikil, fæðið lítið og í raun gekk stúlkan um sjáfala og ólæs til sjö ára aldurs.

Þegar hún er sjö ára koma foreldrar hennar og taka hana með sér í stórborgina Wenling. Þar hefur hún skólagöngu sína, kynnist eldri bróður sínum, og elst upp í kommúnistasamfélagi í ört breytilegu samfélagi Kína við lok tuttugustu aldarinnar. Xiaolu lýkur skólagöngu sinni úr kvikmyndaskóla í Peking og kynnist hinni ströngu ritstýringu sem kommúnistaveldið viðhefur í ríkinu. Hún þráir að losna undað höftum og njóta listrænsfrelsis og er staðráðin í að verða listakona. Í byrjun tuttugustu og fyrstu aldar fær hún skólastyrk til að ganga í kvikmyndaskóla í London. Árið 2002 flytur hún til London þar sem hún uppgötvar Vesturlönd og líka hvernig er að vera mállaus í nýju landi.

Áreynslulaus ferð um Kína í lok tuttugustu aldarinnar

Bókin er listilega þýdd af Ingunni Snædal úr ensku og ég er viss um að bókin tapaði engu í hennar meðförum. Textinn er fallegur og flæðið í frásögninni er stórkostlegt. Áreynslulaus stíll Xiaolu Guo er líka grípandi. Hún segir frá tæpitungulaust, gagnrýnislaust og stingur  að stuttum athugasemdum um sjálfa sig. Staðreyndir sem maður myndi halda að hefðu haft töluverð áhrif á líf hennar eru afgreiddar sem smáræði. En maður nær samt ekki að gleyma því sem lesandi, jafnvel þótt það hafi verið nefnt í framhjáhlaupi. Til dæmis það að hún hafi varla verið sjáandi alla sína æsku. Hún nefnir sjónvandræði sín örstutt í bókinni og að hún hafi ekki fengið gleraugu fyrr en um tvítugt. Sem gleraugnaglámur sjálf get ég ekki ímyndað mér hvernig er að alast upp í þokunni sem fylgir gleraugnaleysinu. Staða kvenna í Kína í fortíð, nútíð og framtíð verður manni líka hugleikin. Hvernig er að alast upp sem stelpa í landi þar sem stúlkubörn eru oftar en ekki óvelkomin?

Fælingarmátturinn sem austurlenskar bókmenntir höfðu á mig hvarf. Xiaolu skrifar reyndar á vestrænan máta í Einu sinni var í austri en hún útskýrir svo vel kínverskt tungumál, táknin og stílinn sem Kínverjar nota til að tjá sig að maður býr yfir allt öðrum skilningi á þessu risastóra landi í austri. Í gegnum æsku Xiaolu kynnist maður líka kommúnismanum í Kína vel og ég stend eftir með allt aðra sýn á Kína í heild eftir lestur bókarinnar. Ég þurfti reglulega að minna mig á að ég væri að lesa um atburði sem áttu sér stað í lok tuttugustu aldarinnar. Stundum hljómuðu lýsingarnar eins og verið væri að lesa um eitthvað sem gerðist fyrir hundrað árum eða lengra síðan.

Bókin er grípandi, ótrúlega falleg, fræðandi og einfaldlega skemmtileg á sinn hátt. Hún fær hiklaust eina eimreið og fjóra vagna í einkunn frá mér og ég mæli með að fólk taki hana með sér inn í páskafríið og gleypi hana í sig með páskaeggjunum.

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...