Bréfið sem breytti lífi Tinu

Bréfið Kathryn HughesBréfið, frumraun breska höfundarins Kathryn Hughes, í þýðingu Ingunnar Snædal hefur setið á toppi vinsældalista bókabúða hér á landi í allt sumar. Svipaða sögu er að segja erlendis en bókin náði þar alla leið í fyrsta sæti á metsölulista Amazon og hefur selst í meira en milljón eintökum og verið þýdd á 27 tungumál. Hvers vegna er ég sérstaklega að taka þetta fram? Það er nú vegna þess að Kathryn Hughes þráaðist við og neitaði að gefast upp þrátt fyrir að bókinni væri hafnað hjá fjölmörgum útgefendum og endaði á að gefa bókina út sjálf í formi rafbókar á Amazon. Þökk sé því fengum við lesendurnir að njóta þessarar bókar sem er átakanleg en falleg saga sem indælt er að lesa í sumarfríinu.

Hvernig kynntust þið afi?

Bókin hefst á formála í nútímanum þar sem amma er að leika með litla barnabarninu sem spyr hvernig hún og afi hennar kynntust. Það sem eftir líður bókarinnar er svo flakkað milli upphafs seinni heimsstyrjaldar og áttunda áratugar síðustu aldar. Á áttunda áratugnum er að finna hina tæplega þrítugu Tinu Craig sem vinnur hörðum höndum að því að losna frá ofbeldisfullum eiginmanni sínum. Á virkum dögum vinnur hún á skrifstofu en til þess að forðast að eyða allri helginni með manni sínum er hún auk þess í sjálfboðavinnu í nytjaverslun á laugardögum. Einn daginn finnur hún þar gamalt óopnað bréf í vasanum á notuðum jakkafötum. Tina opnar bréfið og ákveður að koma því í réttar hendur, en sú ákvörðun á eftir að breyta lífi hennar.

Ritari bréfsins er Billy Stirling, ungur maður sem veit upp á sig sök en vonast til að geta bætt fyrir slæma hegðun. Árið 1939 skrifar hann bréfið sem hann vonar að geti breytt framtíð hans. Ferðalag Tinu til að koma bréfinu til réttmæts eiganda þess er langt og leiðir hana á óþekktar slóðir en gefur henni eitthvað til að lifa fyrir á meðan heimilisástandið er vægast sagt skelfilegt.

Söguleg skáldsaga sem er spennandi

Bókina er snúið að flokka. Að vissu leyti er þetta söguleg skáldsaga þar sem margir sögulegir atburðir koma við sögu, en einnig mætti flokka hana sem eins konar spennusögu, þó ekki sem glæpasögu. Maður er fljótur að tengja við þrá Tinu að koma bréfinu á sinn stað, en þessi von eykst bara eftir því sem baksaga Billy kemur í ljós. Þegar á líður í bókinni er ekki erfitt að giska hvert sagan liggur, en þó heldur sagan manni við efnið og maður vill fylgja Tinu eftir til endaloka bókarinnar.

Bréfið er auðlesin bók sem hentugt er að kippa með í fríið en það er ekki þar með sagt að innihald hennar sé léttmeti. Langt því frá. Tina þarf að takast á við mjög erfitt heimilisástand og Hughes er raunsæ í því að Tina sleppur ekki hnökralaust frá sambandinu við eiginmann sinn. Lífið var haldur ekki dans á rósum árið 1939 og er margt ósanngjarnt sem á sér stað í fortíðinni. Engu að síður lýkur bókinni á fallegum nótum sem gerir lestrarupplifunina góða. Bréfið ber sum merki þess að vera fyrsta bók, en söguþráðurinn er skemmtilega margslunginn og er ég persónuleg ánægð með að Hughes barðist svona fyrir útgáfunni!

 

Lestu þetta næst

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...