Grátbrosleg sýning um móðurhlutverkið

Sunnudagskvöldið 5. september gekk ég inn á sýninguna Mæður á litla sviðinu í Borgarleikhúsinu. Salurinn var troðfullur af grímuklæddum konum, tveimur værum ungabörnum og þessum eina karli á fremsta bekk. Litríkt sviðið blasti við þar sem sjá mátti mannhæðarháa útgáfu af leikkubbum, á þeim efsta voru augu og þeim næstefsta skeifa, fýlukarlinn sjálfur. Ég fékk mér sæti og athugaði strax hvort ég væri búin að fá skilaboð frá unnusta mínum sem var heima að sjá um ungabarnið okkar sem vill ekki sjá að taka pela. Ég er semsagt klárlega í miðju markhóps sýningarinnar, móðir í orlofi. Mæður er byggt á dönsku verki og eru höfundarnir Christina Sederqvist, Julia Lahme, Mette Marie Lei Lange, Anna Bro og Íslenski leikhópurinn.

Staðalímyndir mæðra

Leikkonurnar fjórar stíga á sviðið í sameiningu, það eru þær Aðalbjörg Árndóttir, Kristín Pétursdóttir, Lilja Nótt Þórarinsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir sem allar eru klæddar í einkenningsbúning mæðra, jogging-galla í mismunandi litum. Upphefst þá gamansýning í styttri kantinum, klukkutíma og tíu mínútur, sem fékk mig til að hlæja upphátt ótal sinnum. Þar sem ég er einmitt í orlofi var efnið einstaklega nálægt mér og gat ég því auðveldlega tengt við allt sem kom fram. Rammi verksins eru hittingar hjá mömmuhóp þar sem fjórar töluvert ólíkar mæður koma saman en allar eru þær staðalímynd af ákveðinni tegund af móður. Við ættum mörg að þekkja þessar týpur, þessa sem googlar bókstaflega allt, þessa sem þykist vera með allt á hreinu, þessa sem fær alls engan svefn og þessa sem vill ekki nefna barnið sitt því það er of mikilvæg ákvörðun sem barnið ætti sjálft að taka í framtíðinni (þið vonandi greinið háðið).

Svefnklám og einlægni

Sýningin samanstendur af brotum úr lífi þessara fjögurra kvennanna og annarra mæðra. Senuskiptingar er tíðar þar sem einræðum, samtölum og stuttum senum er blandað saman sem mynda skemmtilega heild. Svo ég nefni örfá atriði sem komu mér til að hlæja, þá er það til dæmis þegar þær töluðu um hvaða aðferðir þær notuðu til að halda börnunum sofandi á nóttunni og það pípti í einni þeirra: „Mín aðferð er að lifa af!“, þegar ein lýsti nætursvefni eins og senu úr klámmynd og hinar stundu fyrir aftan, þegar þær tóku allar sprellikarla á sviðinu þangað til þær annað hvort pissuðu í sig eða meiddu sig í grindinni. Svo voru það einlægu augnablikin sem dýpkuðu sýninguna, þegar flutt er einræða um ófrjósemi og hræðsluna við að fá kannski aldrei að verða móðir og þegar ein opnar sig um einmanaleikann sem fylgir orlofinu. Einræða Kristínar um það hvernig hún myndi vilja vera „gamaldags pabbi“ sem vinnur alla daga, kemur svo heim og sest í sófann og reykir vindil og á aðeins fá, en mjög innihaldsrík, samtöl við börnin sem þau munu aldrei gleyma. Nema hún þekkir engar svoleiðis mæður.

Mismunandi hliðar móðurhlutverksins

Upplifunin var mjög góð og var þetta létt og skemmtileg kvöldstund. Hljóðmyndin var frekar mínimalísk og bætti ekki miklu við, en einnig heyrðust lætin í Bubba söngleiknum úr næsta sal sem truflaði mig stöku sinnum. Leikmyndin fannst mér ekki heldur gera neitt mikið nema að lífga upp á sviðið með litríkum borðum sem héngu úr stórum bogum og barnateppum sem dreift var um sviðið. Leikkonurnar fjórar stóðu sig með prýði og voru allar stórfyndnar og tímasettu sínar línur virkilega vel þannig það var í raun lítil þörf á stórri hljóð- og leikmynd.

Í lok verksins er leikmyndinni endurraðað og leikkubbarnir stóru sýna nú broskall, allt er gott sem endar vel. Leikkonurnar fjórar þakka sínum mæðrum fyrir allt sem þær hafa gert og þetta einstaklega fallegur lokahnykkur á sýningunni. Nú verð ég því miður að færa ykkur, kæru lesendur, þær sorgarfréttir að ég sé ekki betur en að þetta hafi verið síðasta sýningin! En ef þær verða fleiri mæli ég eindregið með að fara á Mæður til að skellihlæja yfir bæði gleði- og skuggahliðum móðurhlutverksins.

 

[hr gap=“30″]

 

  • Höfundar: Christina Sederqvist, Julia Lahme, Mette Marie Lei Lange Anna Bro og Íslenski leikhópurinn
  • Leikarar: Aðalbjörg Árndóttir, Kristín Pétursdóttir, Lilja Nótt Þórarinsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir
  • Leikstjórn: Álfrún Örnólfsdóttir
  • Leikmynd og búningar: Hildur Selma Sigbertsdóttir
  • Tónlist og hljóð: Steinunn Jónsdóttir, Þormóður Dagsson
  • Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason

Lestu þetta næst

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...