Þórunn Rakel Gylfadóttir sendir neglu inn í jólabókaflóðið með bókinni Akam, ég og Annika. Sagan er fyrsta skáldsaga Þórunnar, en sjálf kennir hún ritlist í Hagaskóla og stundar meistaranám í ritlist við Háskóla Íslands. Það er greinilegt að Þórunn þekkir vel til unglinga, en bókin er einmitt unglingabók og kemur út hjá Angústúru.

Sagan segir af hinni fjórtán ára Hrafnhildi sem er, að hennar sögn, þvinguð af móður sinni til að flytja til Þýskalands vegna vinnu stjúpföður hennar. Flutningarnir fela í sér að hún flytur burt frá vinum, ömmu og pabba, sem hún er mjög náin. Hrafnhildur þarf svo að aðlagast nýju landi, sem er ekki einfalt ekki síst þar sem Þjóðverjar eru mun skipulagðari en Íslendingar. Það er erfitt að flytja og enn erfiðara að flytja á milli landa.

Skin og skúrir

En sagan snýst ekki eingöngu um flutninga til nýs lands, heldur er hér margslungin unglingabók á ferðinni. Meðal umræðuefna er réttlæti. Hvað er réttlæti? Hver er réttur barna? Hvað er rétt og hvað er rangt? Er heimurinn svartur og hvítur? Eða er hann bara endalaus litbrigði af gráum? Þórunn fjallar um forréttindi Hrafnhildar og speglar þau í Kúrdanum Akam. Það er fjallað um rasisma. Og allt er þetta skrifað út frá sjónarhorni Hrafnildar á mjög svo sannfærandi hátt. Eins og það sé ekki svo nóg, þá nær hún líka að fjalla um hefndar- og hrelliklám. En þrátt fyrir að í bókinni leynist ótrúlegt magn af umfjöllunarefnum, sem snerta unglinga í dag, þá upplifði ég aldrei að verið væri að messa yfir mér eða að of mikið væri til umfjöllunar. Lífið er stundum yfirþyrmandi og það skiptast á skin og skúrir, rétt eins og í lífi Hrafnhildar.

Bók um nútímaungling

Hrafnhildur er að mínu viti nokkuð venjuleg unglingsstelpa, þótt ég verði að játa að ég þekki ekki marga unglinga. En það er eitt af því sem gerir bókina aðlaðandi. Hrafnhildur er ekki útvalin, fjölskyldan er ekki vellauðug, hún á ekki fullkomna vini eða fullkomið líf og hún er ekki fábær í skóla – þótt hún leyni á sér.

Þórunn skrifar söguna af ótrúlegri næmni fyrir unglingum, þeirra upplifun og heimi. Sjálf gat ég vel speglað mig í Hrafnhildi og dramatíkinni, togstreitunni og mótspyrnunni (sem stundum er bara engin skýring á), eða svona eins langt og ég man mín eigin unglingsár. Tilfinningar eru í uppnámi, að vera hluti af genginu skiptir öllu og svo endalaus rifrildi við móðurina.

Það er virkilega gleðilegt að sjá jafn vandaða unglingabók, sem fjallar um raunverulegt líf unglinga, koma á markaðinn. Það er ansi langt síðan bók um nútímaungling sást í jólabókaflóði og það er skortur á þeim. Þórunni tekst snilldarlega vel til með Akam, ég og Annika.

Lestu þetta næst

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...