Anna Margrét Björnsdóttir

Anna Margrét er þýðandi, skúffuskáld og eilífðarstúdent, en hefur lokið grunnnámi í ensku og meistaranámi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Hún býr í Mosfellsbæ, ásamt sambýlismanni sínum Elvari og kanínunni Móra. Þegar hún er ekki í vinnunni, að læra eða að lesa, syngur hún með Söngsveitinni Fílharmóníu eða spilar D&D með vinum sínum.

Sem barn var hún afskaplega mikið fyrir bækur, raunar svo mikið að hátíðlegasti dagur ársins var þegar Bókatíðindi komu í hús fyrir jólin. Þau voru lesin spjaldanna á milli og merkt við allar álitlegustu bækurnar. Þær allra álitlegustu fengu 2-3 hök, í eins konar fyrirfram stjörnugjöf.

Anna Margrét er gefin fyrir dystópískar ungmennasögur, furðusögur, glæpasögur og ástarsögur, en það rata allra bóka kvikindi inn í bókahillurnar hennar. Sem fullorðinn bókaormur hefur hún sætt sig við þá lykilstaðreynd lífsins að öll húsgögn eru fyrst og fremst geymslustaðir fyrir stafla af bókum sem stendur til að lesa.