Dvergflóðhestur frá Líberíu

 

Veisla-i-greninuHvernig er að vera barn eiturlyfjabaróns í Mexíkó? Ekkert rosalega skemmtilegt, er niðurstaða mín eftir lesturinn á bókinni Veisla í greninu eftir mexíkóska rithöfundinn Juan Pablo Villalobos. Tochtli er á óræðum aldri, en ungur. Hann telur sig vera gáfaðan og bráðþroska, sem hann er ef til vill. Hann elst upp í “höllinni”, glæsivillu föður síns á afskekktum stað í fjöllum Mexíkó, sem hann fer sjaldan út fyrir. Allt sem hann óskar sér fær hann í hendurnar, sama hve erfitt eða dýrt það er að komast yfir það. Hann óskar sér dvergflóðhests frá Líberíu og bókin snýst eiginlega um það, þótt maður sjái allt annað í gegnum textann. Það er alltaf sama fólkið í kringum hann, kennarinn hans, lífverðir, þjónar. Sumir tala ekki. Sumum kynnist hann bara stutt því svo breytast þeir í lík. Heimsýn hans er takmörkuð við það sem faðir hans og kennari segja honum og það sem hann sér í sjónvarpinu. Hann er þjakaður af magaverkjum, þráhyggjum og aðstæðum sínum.

Skilningurinn seitlaðist inn

Villalobos tekst að segja frá lífi Tochtli á sannfærandi hátt í gegnum augu barns. Bókin er gríðarlega stutt og fljótlesin. Ég las hana á handahlaupum, átti erfitt með að rífa mig frá henni. En um leið og ég var búin með hana sat ég eftir örlítið tóm. Mér fannst þetta hafa verið tímaeyðsla og ég lagði bókina frá mér. Skildi ekki hvað var svona merkilegt við hana, en hún heftur nú þegar verið þýdd á sautján tungumálum og fengið mikið lof gagnrýnenda um allan heim.

jpv

Nokkrum vikum síðar stóð ég mig að því að hugsa enn um bókina og ég fattaði hver snilldin við bókina er. Hún situr í manni langt fram eftir öllu og ég náði eiginlega ekki að losna við hana úr hausnum fyrr en ég náði að ræða hana í góðra kvenna hópi á bókaklúbbskvöldi. Villalobos tekst að gefa lesandanum sýn inn í heim eiturlyfjabaróns í gegnum augu barns. Barns sem elst upp við daglegt ofbeldi, sem er verið að móta til að taka við arfleifð föður síns, veit hvar á að skjóta til að drepa, hve mörg högg þarf til að drepa og þar fram eftir götum. Og eftir því sem ég hugsaði meira um bókina, því meira af heildarmyndinni sá ég. Svolítið eins og þegar maður komst á snoðir um eitthvað fullorðins leyndarmál æsku, skildi það ekki þá, en sér svo heildarmyndina á fullorðinsárum.

Ferskur andvari í bókaútgáfu

Villalobos nær að koma sjónarhorni barns listilega til skila. Æðabunugangurinn í textanum er stundum ruglingslegur, en ekkert ruglingslegri en þegar maður er að hlusta á barn segja langa sögu. Stundum er farið hratt yfir sögu þar sem maður hefði viljað vita meira og á öðrum tímum er rætt um smáatriði sem skipta kannski engu máli, eins og hattasafnið. Allt er háð áhugamálum og hugsunum Tochtli.

Bókin er gefin út af bókaútgáfunni Angústúru sem ég hef gjörsamlega kolfallið fyrir og bíð eftir þriðju bókinni sem er hluti af áskriftarbókaflokknum þeirra. Veisla í greninu er fyrsta bókin í röð fjögurra bóka sem hægt er að fá í áskrift. Önnur bókin er Einu sinni var í austri: Uppvaxtarsaga. Það er hressandi að fá eins framandi bækur og þessar inn um póstlúguna hjá sér af og til. Mæli hiklaust með því.

Lestu þetta næst

Lending á Ísafirði

Lending á Ísafirði

Kareem er á leiðinni á Ísafjörð eftir að hafa verið á flótta mjög lengi. Hann og fjölskyldan hans...

Litskrúðug gleðisprengja

Litskrúðug gleðisprengja

Söngleikurinn Fíasól gefst aldrei upp var frumsýndur laugardaginn 2 desember í Borgarleikhúsinu....