Fræðibækur fyrir fróðleiksfúsa krakka

Algengasta spurningin á heimilinu hjá okkur er “af hverju [eitthvað sem er nær ómögulegt að svara nema kunna skammtafræði og vera með doktorsgráðu í geimvísindum]?”. Fyrir svona fimm árum, þegar “af hverju?” spurningarnar byrjuðu, var ég meira en viljug og nægilega fróð til að svara þeim.

“Af hverju er himinninn blár?”

“Jú, minn kæri, hvítt ljós er samsett úr fjölda lita…”

Það sem meira er, því flóknari sem svörin voru því áhugasamari var krakkinn. Hann er eins og svampur á fróðleik og hefur endalausar spurningar. Yfir morgunverðarborði einn daginn var umræða um lúsmý, hvimleiður fjári. Við vorum sammála um það. Þá vissi ungi prófessorinn að verið væri að hanna ófrjóar moskítóflugur með því markmið að útrýma þeim endanlega úr heiminum. Í huganum var hann búinn að þróa gildru fyrir svona óáran og gelda allt liðið.

Það er blessun og bölvun að eiga svona fróðleiksfúsan krakka. Blessun, því það er hægt að eiga djúpar samræður um hreyfla, mótora, túrbínur og ég veit ekki hvað. Blessun, því ég er búin að læra fullt um alls konar hluti af því ég var tilneydd að lesa mér til um það. Bölvun, því þegar maður er þreyttur þá er hrikalega erfitt að svara í stuttu máli hver sé munurinn á bensínvél og díselvél og af hverju í ósköpunum allir séu ekki löngu komnir á rafmagnsbíla. Það er bara ekki hægt að svara þessu í stuttu máli!

Þegar fyrsta Vísindabók Villa, eftir Vilhelm Anton Jónsson, kom út þá vorum við foreldrarnir ekki lengi að næla okkur eintak fyrir fróðleiksþyrstan prófessorinn. Nú eru bækurnar orðnar fjórar: Vísindabók Villa, Vísindabók Villa 2, Vísindabók Villa: Geimurinn og geimferðir þar sem Sævar Helgi Bragason er meðhöfundur og að lokum Vísindabók Villa: Skynjun og skynvillur. Við eigum þær allar og höfum lesið þær spjaldanna á milli. Núna síðast var Geimurinn og geimferðir lesin í örugglega fjórða sinn

Bækurnar eru allar skemmtilegar, þótt mér þyki Skynjun og skynvillur kannski síst. Held það sé bara af því ég verð ringluð á því að horfa á skynvillurnar. Fróðleikurinn í bókunum er ótrúlega skemmtilegur og settur fram á tungumáli sem börn geta auðveldlega skilið. Það er mikill húmor í bæði texta og teikningum sem gerir lestrarstundirnar enn skemmtilegri. Þá eru bækurnar líka uppfullar af skemmtilegum tilraunum. Tilraunirnar eru tilvaldar í smá gæðatíma með börnunum, því oftast er best að einhver fullorðinn sé með í leiknum. Það þarf líka oftast að þrífa eitthvað eftir þær, finna til alla hlutina sem þurfa að vera með og svo framvegis. Stundum svolítið vesen, en ætti alveg að vera þess virði. Hvað gerir maður ekki fyrir börnin? Þess utan þá finnst mér þetta alltaf skemmtilegt þegar undirbúining er lokið og tilraunin er í hámarki (strákunum auðvitað líka ég er bara svo sjálfhverf).

Við mæðginin mælum því með öllum Vísindabókum Villa. Þær eru skemmtilegar og fróðlegar og svala einhverri fróðleiksþörf hjá síspyrjandi ungviði.

“Mér finnst skemmtilegastur allur fróðleikurinn.” -Theodór Leví 8 ára.

“Mér fannst skemmtilegast þegar við bjuggum til slím.” -Nikulás Elí 6 ára.

Lestu þetta næst

Smáar sögur, stór orð

Smáar sögur, stór orð

Smásagan: skáldverk sem hægt er að lesa í einum rykk, við einn kaffibolla, í einni strætóferð, á...

Nútíma Agatha Christie

Nútíma Agatha Christie

Gestalistinn eftir breska spennusagnahöfundinn Lucy Foley kom út í íslenskri þýðingu í apríl 2022....