Yfirgefnu bækurnar

Bókabrennur hafa mjög slæmt orð á sér.

 

Mér hefur alltaf þótt hrikalega erfitt að losa mig við bækur. Ég bara fæ mig ekki til að henda bók eða setja hana í pappírsendurvinnsluna eða eitthvað þaðan af verra. Bókabrennur hafa aldrei átt upp á borð hjá mér. Frá unga aldri hefur það verið barið í mig að bækur séu verðmætar og þær beri að virða. Af þessum ástæðum sit ég uppi með fullar bókahillur af misgóðum bókum, þótt vissulega séu þær flestar alveg prýðilegar. Ég er nefnilega ekki manneskjan sem fer á bókasafn og fæ bækur að láni. Nei, ég elska að kaupa bækur. Hvort sem það eru rafbækur eða pappírsbækur. Rafbækurnar taka þó óneitanlega minna pláss, en það er ekki eins mikill sjarmi yfir því að lesa rafbók eins og að lesa alvöru bók.

Hvernig á að losa sig við bækur?

Stundum þarf að taka til í bókahillunni. Laga, færa, endurraða og svo jafnvel kemur fyrir að ein og ein bók dettur í kassa merktur „Gefa“. Fyrir ekki svo löngu lagði ég í svona tiltekt. Ég fjarlægði nokkrar bækur úr hillunni og hugsaði mér gott til glóðarinnar, ég gæti ef til vill selt einhverjar þeirra á einhverja hundraðkalla á netinu. En nei. Svo fór ekki. Það vildi enginn kaupa bækurnar, hvað þá fá þær gefins. Ég sat því uppi með kassa af bókum sem ég vildi ekki eiga. Þær enduðu í nytjagámnum. Ég vona að þær hafi fengið nýtt heimili hjá ástríkum bókaunnanda.

Í síðustu viku var ég í sumarbústað. Sumarbústaðir eru sérstakir staðir. Maður ákveður að búa á öðrum stað í einhvern tíma og þótt maður hafi eiginlega allt sem maður er vanur að hafa heima hjá sér, er allt einhvern veginn öðruvísi. Til dæmis les ég hvergi meira en í sumarbústöðum. Kyrrðin í náttúrunni, potturinn sem passar börnin (ég sit alltaf og les við pottinn, engar áhyggjur), afslöppuð grillmáltíð með lítilli fyrirhöfn í kvöldmatinn. Allt er svo rólegt og afslappað. Ferðin í síðustu viku var engin undantekning frá þessu, nema ég kláraði bókina of snemma. Og þá næstu líka.

Gæska eða grimmd?

Ég efast um að ég sé sú eina sem hef fundið bækur í sumarbústöðum. Þær sitja þarna í tómlegri bókahillu, innan um sjúskuð borðspil, loftlausan bolta og haus af krokketkylfu.  Þetta eru alls konar bækur. Endurminningar í sjálfsútgáfu frá 1983, eldheitar ástarsögur, léttur krimmi, útjaskaðar barnabækur og sitthvað fleira.

Þar sem ég stóð og handlék þessar bækur í sumarbústaðnum, staðráðin í að halda afslappelsinu áfram með bók í hönd, fór ég að velta fyrir mér hvaðan þessar bækur hafi komið. Mér finnst ólíklegt að starfsmannafélagið hafi komið þeim þarna fyrir svo fyrri gestir hljóta að hafa skilið þær eftir. Mér finnst bækur alltaf svolítið yfirgefnar þegar þær enda í sumarbústað.

Einu sinni var einhver sem keypti bókina, (sem einhver annar lagði vinnu í að skrifa og einhver annar lagði vinnu í að gefa út) og las hana, en hirti svo ekki um hana og skildi hana eftir í sumarbústað. Það er kannski góðverk? Næstu gestir geta þá gripið í bókina ef þá langar til. Kannski var fyrri gestur svo hrifinn af bókinni að hann vildi að fleiri fengju tækifæri til að lesa hana!

Það sem þó virðist sameiginlegt með bókunum sem enda í bústaðarbókahillu er sú staðreynd að þær eru ekki verðlaunabækur. Þær eru í flestum tilvikum fjöldaframleiddar, klisjukenndar afþreyingabókmenntir sem eru hraðlesnar, nema maður gefi sér of mikinn tíma í að býsnast yfir slæmu málfari, stafsetningavillum, slæmri prentun og ótrúverðugum söguþræði.

En eitt veit ég: Næst þegar ég fer í sumarbústað þá ætla ég að taka með mér kassann sem er merktur „Gefa“ og skilja bækurnar eftir þar. Það er ágætis framhaldslíf fyrir bækurnar.

 

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...