Margit Sandemo heimsótti Ísland síðast árið 2007 og áritaði bækur sínar. Ég var því miður í útlöndum.

Þær fréttir bárust í vikunni að norski rithöfundurinn Margit Sandemo hefði orðið bráðkvödd í svefni á heimili sínu, 94 ára að aldri. Friðsælli dauðdaga er varla hægt að hugsa sér og ef einhver á það skilið að kveðja heiminn með svo rólegum hætti er það þessi indæli rithöfundur, sem á sérstakan sess í hjörtum flestra þeirra sem hafa lesið hana. Sandemo er þekktust fyrir bálk sinn um sögu Ísfólksins en það þyrfti fróðari manneskju en mig til að telja upp höfundarverk hennar, því eins og sagði á bakhlið allra bókanna um Ísfólkið þegar það kom fyrst út á íslensku: „Margit Sandemo er þekkt og mikils metin af öllum þeim, sem lesa vikublöð, enda hefur hún skrifað rúmlega fimmtíu framhaldssögur“.

„Vikublöð! Hahahaha en asnalegt!“ hugsaði ég þegar ég rakst fyrst á eintak af þessum umtöluðu bókum. Öfugt við marga var ég orðin nokkuð stálpuð þegar ég las fyrst Ísfólkið, ég var 17 ára kaldhæðinn menntskælingur og hafði skellihlegið að öllum lýsingum vinkvenna minna á þessum bókum. Ég hugsaði mér því aldeilis gott til glóðarinnar að geta loksins kíkt á þessa vitleysu og fundið mikið til mín þegar ég staðfesti fyrir sjálfri mér hvers konar rusl þetta eiginlega væri. (Þið vitið, eins og gaurar sem finna sig knúna til að gagnrýna gæði tónlistarinnar í Eurovision til að sýna hvað þeir hafi góðan tónlistarsmekk.)

Þetta var nokkuð handahófskennt úrval sem ég hafði fundið þarna ofan í einhverjum gömlum handavinnukistli, svo ég byrjaði á bók 2. En fokk hvað þetta var skemmtilegt! Ég bara sogaðist ofan í bókina. Fann mig svo knúna til að byrja á næstu bók í kistlinum, þó hún væri númer fimm og ég missti alveg þráðinn þarna á milli. Síðan tóku við tíðar strætóferðir á Sólheimasafn, sem var næsta bókasafn sem geymdi þennan fjársjóð. Ég varð samt alltaf mjög fegin þegar það var eldri kona að afgreiða en ekki ungur karlmaður, mér fannst kápurnar á bókunum eitthvað vandræðalegar á sínum tíma, þó í dag finnist mér þær ekkert nema stórksotlegar. (Sér í lagi þegar þær eru bornar saman við kápurnar á nýju útgáfunni, sem eru ekkert nema móðgun við almenna fagurfræði. Ég veit að margir aðdáendur elta frekar uppi skannaðar útgáfur með gömlu kápunum á bókamörkuðum, frekar en að kaupa þessar nýju. Síðan er það frekar nýtilkomið að hægt er að hlusta á þær á hljóðbók, og sleppa með öllu við vandræðalegar kápur. En ég veit ekki alveg hvort ég gæti haldið andlitinu á meðan ég hlustaði á upplestur á kynlífslýsingunum.)

Á sama tíma uppgötvaði ég annað fyrirbæri sem flestir kynnast töluvert fyrr á ævinni, ristabrauð með hnetusmjöri. Ég vissi að ég átti að vera að læra, borða ávexti og stunda jóga en í staðinn sat ég og sporðrenndi fimm brauðsneiðum með hnetusmjöri og spændi í mig Ísfólkið. Ég man líka að ég mætti algjörlega ósofin í fyrsta alvöru vinnudaginn minn af því að ég ætlaði bara að klára þessa bók, kannski kíkja á fyrsta kafla í þeirri næstu að því loknu, nú eða klára hana bara líka og byrja á þeirri þarnæstu, klára hana svo einnig þar til klukkan var orðin meira en fimm um morguninn.

Upprunaleg kápan. Þvílík rómantík!

Bækurnar eru vissulega misgóðar, en þegar haft er í huga að þær eru alls 47, þá er ótrúlegt hvað þær héldu lengi þræði. Eftir að hafa klárað Ísfólkið fór ég strax í næstu seríuna hennar, Ríki ljóssins. En ég gafst upp eftir tvær eða þrjár bækur. Sem rithöfundur bjó Sandemo yfir miklum styrkleikum en á móti komu jafn svakalegir veikleikar, ætli það sé við hæfi að kalla hana pulp-höfund? Persónurnar sem hún skapaði voru yndislegar og fjölbreyttar og náðu strax taki á lesandanum en þær öðluðust aldrei mikla dýpt. Sumar persónur Ísfólksins komu fyrir í mörgum bókum, en það bættust alltaf við nýjar þeim til stuðnings. Í Ríki ljóssins voru sömu aðalpersónur bók eftir bók og þær voru einfaldlega búnar með púðrið ansi snemma.

Ég hef ekki lesið allar hennar fimmtíu framhaldssögur úr vikublöðum, fyrir utan Ísfólkið hef ég bara lesið tvær stakar sögur og þær voru mjög skemmtilega. Önnur gerðist í nútímanum og hin í fortíðinni og Ísfólkið hefst einmitt á 16. öld og lýkur á þeirri 20. Að ýmsu leyti mætti flokka Ísfólkið sem sögulegar skáldsögur, en á einhvern hátt eru þær ólíkar öllum öðrum. Eftir að ég lærði sagnfræði fékk ég ákveðið óþol á þeirri ágætu bókmenntagrein. Það er alltof oft sem sögulegar skáldsögur ganga út frá þreyttum klisjum og anakrónisma og staðfesta útjaskaðar ímyndir af fortíðinn frekar en að ögra þeim, þær færa okkur ekkert nýtt. Ísfólkið er algert sér keis þegar kemur að tímaskekkjum og öllum þessum göllum sem ég taldi upp en engu að síður finnst mér þær frábærar. Ég á erfitt með að útskýra af hverju, kannski er það bara af því að Sandemo tekur þetta svo langt að hún endar í einhverju allt öðru bókmenntaformi, fantasíuútgáfu af fortíðinni? Hún snobbar bæði upp á við og niður, persónur hennar eru annaðhvort af aðalsættum eða göfugir öreigar (sem gæti endurspeglað hennar eigin fjölskyldutré miðað við það sem lesa má í æviágripi hennar), nú eða þá millistéttarfólk sem brýst burt úr smásálarlegu uppeldi sínu. Að sama skapi geta þær verið íðilfagrar, forljótar eða ósköp venjulegar, en alltaf finna þær ástina. Og allar eru þær stuðningsmenn kvenréttindahreyfingar 20. aldarinnar, sama hvenær sagan gerist. Og einhvern veginn tekst Sandemo að láta þetta virka.

Nýja útgáfan. Ullabjakk.

Þetta er einfaldlega lífsskoðun og sögusýn sem hrífur mann með sér. Þegar ég verð lasin eða líður af einhverjum ástæðum ekki vel, þá finnst mér gott að eiga dálítið af Ísfólki uppi í skáp. Margit Sandemo er einfaldlega einn skemmtilegasti höfundur sem ég hef lesið. Svo ég vil þakka henni kærlega fyrir, fyrir sitt frábæra ímyndunarafl sem entist henni í fleiri en fimmtíu framhaldssögur, og fyrir að hafa slegið vopnin úr höndunum á tilgerðarlegum unglingi sem hélt að hann væri of klár og kaldhæðinn fyrir ástir og örlög í afdölum Noregs.

Lestu þetta næst

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...