Vitneskju minni um þjóðernisátökin, sem áttu sér stað um árabil á Norður-Írlandi, mætti koma fyrir í fingurbjörg. Ég man eftir að hafa heyrt eitthvað um IRA og sprengingar í morgunfréttum í útvarpinu í skólarútunni forðum daga. Ég man líka eftir öllu Kosovo stríðinu úr morgunfréttum í skólarútunni.

Ég varð svolítið spennt þegar bókin Heiður rataði í hendur mínar fyrir stuttu. Bókin er skrifuð af Sólveigu Jónsdóttur, sem einmitt deildi með mér þessari skólarútu. Hún hefur samt eitthvað fylgst betur með fréttaflutningi Brodda því hún endaði á því að mennta sig í stjórnmálafræði, náði sér í meistaragráðu í þjóðernishyggju og þjóðernisátökum með áherslu á átökin á Norður-Írlandi. Í bókinni nýtir hún sér þekkingu sína á átökunum, nýtir sér persónulegar sögur og tengsl við Norður-Írland og gerir það leikandi létt svo úr verður mjög grípandi skáldsaga með alvarlegum undirtón.

Sagan segir af systkinunum Dylan og Heiði, systkinum fæddum á sama árinu (írskir tvíburar) sem eru aðskilin sjö ára gömul. Dylan fer með föður þeirra til Norður-Írlands en Heiður verður eftir hjá mömmu þeirra. Tuttugu og átta árum síðar hefur Dylan samband við systur sína á ný og biður hana um hjálp. Heiður fer til Norður-Írlands til að hjálpa bróður sínum og á sama tíma freista þess að komast að því af hverju pabbi þeirra ákvað að yfirgefa öruggt og hamingjusamt fjölskyldulíf fyrir stríðsástand á Norður-Írlandi.

Fléttan í bókinni er vel spunnin og persónurnar eru áhugaverðar. Ef ég ætti að gagnrýna eitthvað við bókina þá væri það það að stundum hefði nálægðin við Dylan mátt vera meiri. Mig langaði alltaf að vita meira um aðstæður hans eftir sjö ára aldurinn. Bókin byrjar með hvelli á aðstæðum hans en mér fannst ég aldrei fá botn í þær aðstæður. Það gæti auðvitað verið af því ég átti erfitt með að leggja bókina frá mér, las hana kannski of hratt. Ég sprettlas hana því mig langaði alltaf að vita meira! Lesandi fékk aðeins meira að vita um Heiðu, sem er aðalpersónan í bókinni. En það er oft þannig með skáldsögur, að þær ná að sá fræum forvitni og þessi bók gerði það svo sannarlega. Nú þyrstir mig í meiri fróðleik um Norður-Írland!

Sólveigu tekst mjög vel að koma til skila hvernig börn takast á við erfiðleika og átök. Systkinin þurftu að kljást við mjög mismunandi heimilisaðstæður, hvorugar góðar. Þau vinna aftur á móti mjög mismunandi úr sinni lífsreynslu og þar spilar ef til vill inn í mismunandi kröfur samfélagsins til þeirra. Undirtóninn í bókinni var sá að þótt átökunum á Norður-Írlandi virðist vera lokið, þá er alltaf eitthvað sem kraumar undir niðri og gæti sprungið á hverri stundu.

Þetta er önnur bók Sólveigar. Fyrri bókin heitir Korter og kom út árið 2012. Hún hefur einng skrifað leikritið The Sea Between Us sem var sýnt í Skotlandi árið 2013. Korter hlaut mikið lof gagnrýnenda og var þýdd yfir á bæði þýsku og ítölsku.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.