Listamannalaun, minningaskáldsaga um partí

Það verður að segjast að ég hafði þónokkra fordóma gagnvart bókinni Listamannalaun áður en ég byrjaði að lesa hana. Í fyrsta lagi er hún titluð „minningaskáldsaga“, en það er vaxandi ósiður að fólk þurfi sérstaklega að afsaka endurminningar sínar með þessum hætti. Eins og það sé ekki bara sjálfsagt að allar minningar séu að einhverju leyti skáldskapur, ekki síst þegar maður fer að rekja þær fyrir öðrum. Svo er það nú baksíðutextinn, sem mér fannst eitthvað tilgerðarlegur og lofaði óborganlegum lýsingum á „ástkonum, skáldum og listamönnum“. Ég sá þessa bók fyrir mér eins og langdregið viðtal í Kiljunni, þar sem höfundur rifjaði fjálglega upp kynni sín af allskonar frægum gaurum, neimdroppandi hægri vinstri, á meðan Egill Helgason kinkaði kolli hugfanginn með glýju í augum.

Ég opnaði því bókina með nokkrum fjandskap, tilbúin til að agnúast út í allt og ekkert. Bókin stóðst þetta próf og uppfyllti ekki fordóma mína. Á hinn bóginn fannst mér hún alls ekki jafn ótrúlega skemmtileg og öðrum lesanda hennar, sem vitnað er í á kápunni, sem fannst bókin æðisleg og grét hlæjandi, þyrstur í næstu blaðsíðu. Líklega skiptir töluvert miklu máli hvort lesandinn þekkir eitthvað til fólksins sem fjallað er um í bókinni, annaðhvort persónulega eða þá til verka þeirra. Það gerði ég ekki.

Mín fyrstu kynni af höfundi Listamannalauna

Höfuðpersónur bókarinnar eru fjórar, höfundurinn sjálfur, Ólafur Gunnarsson, og vinir hans, myndlistarmaðurinn Alfreð Flóki, Dagur Sigurðarson skáld og listamaður, og Steinar Sigurjónsson sem mér skildist á bókini að hefði verið rithöfundur sem enginn las. Mig rámar í að hafa lesið kannski einhver ljóð eftir Dag í íslenskutímum í menntaskóla og það var úr sömu tímum sem ég kannaðist við örfáa aðra listamenn sem koma fyrir í sögunni. Nöfn Alfreðs Flóka og Steinars hringdu bara engum bjöllum hjá mér, og ég hafði aldrei áður lesið bók eftir Ólaf sjálfan. Eða svo hélt ég, allt þar til í síðasta hluta bókarinnar. Þá kemur í ljós að hann er höfundur myndabókarinnar Fallega flughvalarins, en hún átti sinn sess í bókakosti mínum snemma á tíunda áratugnum. Almennt séð er ég bara ekki mjög vel að mér í menningu áratuganna tveggja fyrir mína fæðingu, og lái mér hver sem vill. Ég er þó að vinna í málinu, og horfði til dæmis á báðar fyrstu myndirnar um Tortímandann í síðustu viku.

Það er sumsé alveg hægt að hafa gaman af bókinni þó maður þekki ekki til fólksins sem hún fjallar um, hún er grípandi og ég las hana hratt. Á tímabili var persónugalleríið mikla og litríka engu að síður orðið of fjölmennt fyrir minn smekk. Ég myndi nefna dæmi, nema þetta hefur nú þegar runnið í einn graut í hausnum á mér. En það var til dæmis einhver skólastjóri frá Grundarfirði sem trúði á anda og var skúffaður yfir því að einhver hafði pissað í rúmið hans. Hann var áberandi í einum eða tveimur köflum en hvarf svo bara, og á þeim stað í bókinni var ég orðin dálítið þreytt á öllum þessum drykkfelldu furðufuglum sem urðu bara fleri með hverri blaðsíðunni. En mögulega er einmitt þetta stórskemmtilegt fyrir þá sem betur þekkja til. En það verður að segjast að það skín oft í gegn að höfundur ætlast til fyrri þekkingar á sögusviðinu. Til dæmis þegar Dagur ætlar að fara og hitta „Rósku og Manrico í Róm“. Þessi setning kom tvisvar fyrir, en ekki voru gefin frekari deili á þeim. Lesandinn á bara að vita hvers konar listapartí beið Dags þar.

En svo ég víki nú að því sem mér fannst skemmtilegt við bókina. Hún hefst í Reykjavík, fer í frí til Parísar og flytur sig svo um set til Kaupmannahafnar ásamt höfundi og fjölskyldu hans, og endar svo aftur á Íslandi. Þetta er saga af vináttu, endalausu fylleríi og listsköpun sem lætur standa á sér. Ólafur er alltaf að skrifa, en útkoman er sjaldnast sú sem hann var að vonast eftir. Stór hluti ástæðunnar (fyrir utan fyrrnefnt fyllerí) er tilhneiging hins unga höfundar til að heillast af mikilvirtum rithöfundaköllum, Hemingway, Thomas Wolfe og Cervantes, sem verða honum fyrst innblástur en svo íþyngjandi fyrirmyndir. Það hvarflaði að mér að bókin, sérstaklega fyrri hlutinn, væri ef til vill svona homage til Veislu í farangrinum eftir Hemingway. En því þori ég ekki að lýsa afdráttarlaust yfir, því þó ég hafi lesið hana man ég ekkert eftir henni. En í stað kaffihúsa í París eltum við höfundinn og vini hans um allskonar smurbrauðsstofur í smábænum Reykjavík, og kíkjum kannski í Ríkið. Lýsingar á mat og drykk eru áberandi í bókinni, ekki síst í Kaupmannahöfn, þar sem aðsent lambakjöt frá heimaslóðum og danskar svínasteikur og kæfubrauðsneiðar keppast um hollustu Íslendingakommúnunnar.

Allskonar ömmulegur og misgirnilegur matur vofir yfir anda bókarinnar. Þessi mynd af píanóbrauðtertu tengist þó efni bloggsins ekki beint.

Að mínu mati er svo miklu betri matur í boði í Reykjavík í dag, og líklegast Kaupmannahöfn líka, en engu að síður hafði ég gaman af þessari miklu matarást sem persónur voru helteknar af. Annar krúttlegur munur á Reykjavík þá og nú er hvað listakrakkarnir í upphafi bókarinnar (því þetta voru jú óttalegar gelgjur) eru ófeimnir við að taka sjálfa sig alvarlega. Þó höfundurinn hafi ekki skrifað nema eina litla ljóðabók, þá er hann samt Rithöfundur, í fullu starfi og hana nú. Ég þekki sæmilega marga rithöfunda á mínum aldri, en held að fáir höfundar í dag séu svona vissir í sinni sök. Og þó mörgum Reykvíkingum í bókinni þyki þetta ekki alvöru vinna, þá eru bókmenntir samt teknar svo alvarlega. Stórkostleg gleði grípur aðalsögupersónuna þegar virtur bókarýnir skrifar í löngu máli um fjölritaða smásögu sem hann hafði gefið út. Í dag þykjast margir höfundar heppnir ef nöldrandi bloggari eyðir nokkrum línum í verk sem þeir hafa gefið mörg ár af lífi sínu.

Þetta er sumsé saga af áralöngu fyllerí, eins og ég sagði áður. Í fyrra hluta bókarinnar er stuð og galgopaháttur og gaman. Eftir því sem líður á bókina breytist tónninn. Svona eins og þegar það er langt liðið á nóttina, maður er allt í einu orðinn edrú og þreyttur, en allir í kringum mann pexa og rífast hástöfum, sannfærðir um eigið andríki, en þú fattar skyndilega að þetta eru bara tóm leiðindi. Ekki það að bókin sjálf sé leiðinlegri þegar þarna er komið, persónurnar eru bara orðnar eldri og þetta endalausa útstáelsi er kannski ekki lengur svo sniðugt. Orð falla sem særa og ekki verða tekin aftur, peningar hverfa eins og dögg fyrir sólu og verk komast ekki á blað, svo ekki sé talað um sjónmissi á öðru auga eftir drukkin slagsmál. Bókin er í aðra röndina upphafning á drykkfellda snillingnum, sem kristallast í Alfreð Flóka og bergmálar í hinum aðalsögupersónunum, en lesandanum dylst engu að síður ekki hversu skaðleg þessi snillingadýrkun er.

Listamannalaun er einn heljarinnar brómans. Höfundur lýsir útliti og andlegu atgervi vina sinna með söknuði, enda dóu þeir allir fyrir aldur fram. Stóra ástin í bókinni er óumdeilanlega Alfreð Flóki, og í upphafi vináttunnar gerir höfundur hvað sem er til að gera honum til geðs. Því fannst mér dálítið fyndið hvernig aðalsögupersónan gerir öðru hvoru hlé á frásögninni af djamminu og innblásnum samræðum þeirra vinanna til að skotra augunum yfir á sína traustu eiginkonu, og minnir sjálfan sig á hvað hann sé nú heppinn að eiga hana að. Ekki verður annað en tekið undir það, ekki myndi ég nenna að halda heimili með svona byttu. Sérstaklega þar sem mig grunar að hún hafi oft neyðst til að vera ábyrga og edrú manneskjan í partíinu. Fyndnasti kafli bókarinnar er leikskólaafmælið sem þau hjón halda fyrir yngri son sinn. Partíið er í fullu svingi, lítil börn og mæður þeirra gæða sér glöð í bragði á skúffuköku og sviðakjömmum. Þá bankar upp á Steinar Sigurjónsson, skrítnasti maðurinn í allri bókinni, blindfullur, klæddur í síðan leðurfrakka og haldinn óútskýrðri andúð á rjómatertum. Meira segi ég ekki, en þvílíkt æðruleysi einnar húsmóður!

Líklega hefði ég ekki átt að horfa á Terminator í sömu viku og ég las í bókina, því í huga mér var Steinar dálítið svona þegar hann mætti í afmælið.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...