Tinna trítlimús sigrast á hættunum

Tinna trítlimús – Vargur í Votadal  er skrifuð af Aðalsteini Stefánssyni og myndskreytt af Inga Jenssyni. Sagan segir af Tinnu litlu trítlimús sem býr í holu í Heiðmörk. Amma hennar er veik og eina leiðin til að hjálpa henni, eða lækna hana er að finna hjartagras og sjóða úr því mauk. Eini staðurinn þar sem hjartagras vex er í Votadal, en til að komast í Votadal þarf að takast á við ýmsar hættur.

Tinna trítlimús er í Ljósaseríu Bókabeitunnar. Það kom mér skemmtilega á óvart að sjá hve lipurlega bókin er skrifuð. Þrátt fyrir að vera skrifuð fyrir unga lesendur, þá voru orð inn á milli sem öllum krökkum er hollt að læra. Textinn var þó aldrei of þungur. Við ákváðum að lesa bókina saman í heimalestrinum. Málsgreinarnar voru mislangar, þannig að við gerðum samning um að hann læsi eina málsgrein og ég aðra, þótt það hafi oftast endað þannig að ég las lengri málsgreinarnar. Mér finnst ég ekki hafa samið af mér.

Uppákomurnar hjá Tinnu trítlimús voru ótal margar. Hún þarf að flýja frá fálka, ref og krumma og komast í gegnum erfitt landsvæði. Bókin var spennandi og skemmtileg aflestrar. Ungi lestrarhesturinn var mér sammála og væri alveg til í fleiri trítlimúsarbækur.

Þótt bækurnar séu markaðssettar sem léttlestrarbækur eða bækur fyrir yngstu lesendurna, finnst mér ekkert að því að lesa þær fyrir yngri börn sem ekki eru farin að lesa sjálf. Sögurnar eru skemmtilegar og nokkuð skiljanlegar fyrir yngri börn.

Lestu þetta næst

Lygar eða skemmtisögur?

Lygar eða skemmtisögur?

Í seríunni um Bekkinn minn eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur er íslenskur raunveruleiki eins og hann...

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...