Það er ekki gaman að vera rithöfundur á Íslandi og deila fornafni með öðrum höfundi. Jafnvel óheppilegra er það þegar þessir tveir höfundar gefa út bók sömu jólin, en það hlýtur að vera þyngra en tárum taki að slysast til að gefa þessum tveimur bókum næstum því sama titil. Lestrarklefinn hefur áður fjallað um bókina Svikarann eftir Lilju Magnúsdóttur en nú er komið að Svikum eftir Lilju Sigurðardóttur. (Ég verð að játa að mér finnst fallbeyging þessara titla líka eitthvað óþjál) Álitsgjafi Lestrarklefans komst að þeirri niðurstöðu um Svikarann að bókin fjallaði um valdalausar konur sem eru alltaf hissa og verða fyrir skrítnum áhrifum í návist fjallmyndarlegra manna. Hið sama er svo sannarlega ekki uppi á teningnum í bókinni Svik, þar sem allar kvenpersónurnar (og karlarnir svo sem líka) eru miklir töffarar.
Bókin er sögð út frá sjónarhóli nokkurra ólíkra persóna, þar sem hver þeirra heldur söguþræðinum í heilum kafla út af fyrir sig, og smám saman fléttast líf þeirra saman í atburðarás sem endar að sjálfsögðu í lífshættulegum aðstæðum. Þetta er ekki óalgeng frásagnaraðferð í glæpasögum og svo vill til að síðasta glæpasaga sem ég las notaði hana líka. Það var kilja frá árinu 1989 sem ég fann á gjafaborði Þjóðarbókhlöðunnar, eftir breska höfundinn P.D. James. Ekki veit ég hversu vel þekkt P.D. James er á Íslandi, en hún skrifar fínar glæpasögur sem eru þó líklega einar þær nöturlegustu sem ég hef á ævinni lesið. Allar persónur hennar þjást af einhverjum skelfilegum breyskleika, margar eru ófríðar á undarlega óviðkunnalegan hátt og flestar þjást þær af samviskubiti yfir því að geta ekki elskað fjölskyldumeðlimi sína, en gallar þeirra og ómerkilegheit eru því miður bara aðeins of augljósir til að það sé hægt. Bækurnar hennar eru mjög spennandi, en gera mig alltaf þunglynda. Í samanburði við P.D. James þá er Lilja Sigurðardóttir hress og glaðlegur glæpasagnahöfundur, en líklega þarf ekki einu sinni þann samanburð til. Svik fjallar um heimilislausa alkóhólista, kynferðisfbeldi, ebólu, áfallastreituröskun, framhjáhald, tilfinningakulda gagnvart börnum og afleiðingar heimilisofbeldis. Sumsé jafnvel meiri eymd en í einni beisikk P.D. James. En þrátt fyrir að allar sögupersónurnar glími við vægast sagt yfirþyrmandi vandamál, þá er auðvelt að láta sér þykja vænt um þær og trúa því að þær spjari sig á endanum.
Aðalsögupersónan er Úrsula Aradóttir, sem heitir ekki bara mjög töff nafni heldur er hún líka skemmtilegur karakter. Eftir að hafa stýrt hjálparstarfi á áfallasvæðum árum saman er hún flutt heim til Íslands til að taka því rólega, en þegar á hólminn er komið finnst henni það sniðugri hugmynd að gerast innanríkisráðherra í eitt ár. Hún hefur göfugar hugmyndir um endurbætur sem hún ætlar að ráðast í innan ráðuneytisins. En áður en hendi er veifað er hún komin með slóð af klikkuðum stjáklurum og þarf að berjast við mótþróaafulla ráðuneytisstarfsmenn, fjölmiðlaleka og drauga fortíðar. Hinar persónurnar sem fá sína eigin rödd í frásögninni eru útigangsmaður sem grunar að Úrsula hafi gengist djöflinum á hönd, massaður en jafnframt zenaður og ljúfur ráðherrabílstjóri, vandræðaunglingurinn Stella sem er í einhvers konar atvinnubótavinnu við skúringar í ráðuneytinu og svo eiginkona lögreglumanns á Selfossi sem hefur verið kærður fyrir nauðgun.
Allar þessar fimm persónur leggja eitthvað af mörkum til fléttunnar sem er áhugaverð og óvænt. Í leiðinni er tekið á ýmsum samfélagsmeinum eins og oft er gert í glæpasögum. Það er sá þáttur glæpasagnaformsins, einkum á Norðurlöndum, sem mér finnst hvað leiðinlegastur. Yfirleitt finnst mér það snúast upp í eitthvað svona „jeddúdamía“, sagt á innsoginu, ásamt góðu dassi af voyeurisma. Þetta er þó ekki raunin í Svikum. Höfundur fjallar um erfið mál af skilningi og án þess að velta sér upp úr eymdinni. Eins og fyrr segir, þá er bara eitthvað hressilegt við bókina. Þessi hressi tónn nær hvað mestum hæðum í sögupersónunni Stellu. Nýlega birtist dómur um bókina í Mogganum, þar sem gagnrýnandinn var á því að betur hefði farið á því að sleppa hennar persónu algjörlega úr bókinni.
Ég skil að vissu leyti af hverju sumum lesendum gæti fundist það. Stella er mjög skrítin persóna og virðist að einhverju leyti tilheyra annarri bók eða jafnvel bókmenntagrein en hinar persónurnar, þó hún leggi sitt af mörkum til ráðgátunnar og lausnar hennar. Engu að síður hefði ég ekki viljað missa Stellu úr bókinni, til þess er hún of skemmtileg. Ég hef ekki lesið þríleikinn sem Lilja skrifaði á undan þessari bók, og þori því ekki að segja til um hvort karakter Stellu sé dæmigerður fyrir hennar ritstíl, eða nýjung. En ég væri alveg til í heila bók um Stellu sem væri ekki endilega glæpasaga, en myndi í staðinn fjalla um galdra, blankheit og lesbíska djammsenu í Reykjavík.