Kepler62 – Vísindaskáldsaga fyrir börn

Þegar ég var yngri hafði ég brennandi áhuga á furðusögum og vísindaskáldsögum. Mér er enn minnisstætt þegar ég las Tímavélina eftir H.G. Wells. Ég var ekkert mjög gömul og pabbi hafði otað henni að mér, ef ég man rétt. Stuttu síðar horfðum við svo á bíómynd byggða á sögunni. Ég var kolfallin og leitaði eins og ég gat að fleiri góðum vísindaskáldsögum, sem nóg er af. Fljótlega komst ég þó að því að fornfálegt orðafar í gömlum þýðingum af sögum H.G. Wells áttu bara ekki við mig. Þarna var ég farin að stíga mín fyrstu skref inn í unglingsárin og það þótti ekki svalt að hafa góðan orðaforða. Svo ég var allt í einu farin að lesa meira á ensku en íslensku, enda mikið svalara að geta slegið um sig með ensku slettum en góðum íslenskum orðaforða (sagt í fullri kaldhæðni). Það vantaði góðar íslenskar vísindaskáldsögur og furðusögur eða góðar þýðingar á þeim á þessum tíma (eða ég leitaði ekki nógu vel, ég er svona að laumuvona að það hafi verið ástæðan. Endilega sýnið fram á leti mína!).

Nú finnst mér annað uppi á teningnum. Fjöldi góðra furðusagna og vísindaskáldsagna fyrir börn og unglinga eru núna þýddar eða skrifaðar á Íslandi. Svona í fljótu bragði detta mér í hug bækurnar Þriggja heima saga, PAX serían, Óvættaför, Koparborgin, Vetrarfrí og Vetrarhörkur og svo Kepler62.

Nú þegar eru komnar út þrjár bækur á íslensku úr seríunni Kepler62 sem er samstarfsverkefni rithöfundanna Timo Parvela og Bjørns Sortland og myndskreytisins Pasi Pitkänen. Bækurnar eru þýddar af Erlu E. Völudóttur úr norsku og finnsku og finnst mér henni hafa tekist vel til við þýðinguna.

Í fjarlægri framtíð hafa mennirnir gengið duglega á allar auðlindir jarðar. Allt er komið í þrot og mannkynið berst í bökkum og yfir hangir þrúgandi nærvera hinnar sameiginlegu Ríkisstjónar. Tölvuleikur sem á að vera ósigrandi gengur á milli barna. Bræðurnir Ari og Jonni komast yfir leikinn, sigra hann og þá upphefst dularfull atburðarrás sem endar í Area 51 í Bandaríkjunum. Þeir stefna til sólkerfisins Kepler62 ásamt fleiri börnum sem síðasta von mannskyns. Þannig er fyrsta bókin. Kepler62 er fantagóð dystópíu vísindaskáldsaga fyrir börn. Aðalpersónurnar eru börn og fullorðnir eru fáséðir í bókunum. Hetjurnar eru börnin. Fléttan í bókunum er ekkert ólík þeim sem hægt er að finna í vísindaskáldsögum fyrir eldri lesendur, en sett fram á töluvert einfaldari hátt.

Mín fyrstu kynni af Kepler62 voru í gegnum elsta soninn. Hann fékk fyrstu bókina í afmælisgjöf frá félaga sínum, bækur eru góð gjöf. Ég hætti að sjá drenginn langtímum saman, því hann sat fastur í bók og las og las og las og þegar ég spurði hann hvað hann væri að lesa stóð ekki á lýsingunum. Hann var gjörsamlega kolfallinn fyrir vísindaskáldsögunum. Síðan þá hefur hann sóst enn meira í að lesa sjálfur, les sig í svefn á kvöldin og les flóknari bækur. Ég þakka Kepler62 fyrir að hafa ýtt honum yfir þröskuldinn yfir í heim bókanna. Ég er búin að lesa allar þrjár bækurnar. Beið spennt eftir að sonurinn kláraði bækurnar hverja á eftir annarri. „Ég verð að fá næstu bók!“ sagði hann eftir hverja bók. Ég kann ekki að neita bókakaupum…

Minn strákur er heillaður af geimnum og hélt meira að segja fyrirlestur fyrir skólafélaga sína um svarthol og gasrisa og eitthvað fleira. Þess vegna er þema bókaflokksins, óravíddir geimsins og afstæður tími, algjörlega innan hans áhugasviðs. Hann hefur skoðað Vísindabækur Villa í tætlur nokkrum sinnum og í sérstöku uppáhaldi er bókin um geiminn og geimferðir. Núna bíðum við spennt eftir því að fjórða bókin komi út, en á meðan leitum við að nýjum vísindaskáldsögum fyrir börn. Hann á svo sem eftir að vinna sig í gegnum alla seríuna um Óvættaför. Það heldur honum kannski uppteknum fram á vor.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...