PAX-Níðstöngin – Hrollvekjandi barnabók

Ég var vöruð við því þegar ég fékk bókina í hendurnar, að líklega væri hún ekki fyrir lesendur yngri en tíu ára. Drengjunum mínum sem eru báðir undir tíu ára var því hlíft við þessari bók. Mér var líka sagt að bókin væri hörkuspennandi. Bókin er nokkuð hrollvekjandi, grafísk og spennandi. Mér virðist sem það hafi bæst mjög í þýðingar á barnabókum frá Norðurlöndunum og PAX-Níðstöngin, skrifuð af Åsu Larsson (sem er líklega þekktari fyrir krimmana sína) og Ingelu Korsell og myndskreytt af Henrik Jonsson er ein af þeim bókum og kemur núna út í stórfínni þýðingu Sigurðar Þórs Salvarssonar.

Alríkur og Viggó eru nýkomnir til nýrra fósturforeldra í smábænum Mariefred. Þeir eru strákar sem eiga auðvelt með að lenda í vandræðum. Í nágrenni þeirra er dularfullt bókasafn sem öldruð systkini, Estrid og Magnar, vernda. Undarlegir atburðir fara að gerast og Estrid og Magnar búast við tveimur stríðsmönnum til að aðstoða sig við að vernda bókasafnið gegn Myrkrinu.

Lesanda er hent inn í hryllinginn strax á fyrstu síðum bókarinnar. Fyrsta blaðsíða byrjar á orðunum “Drepist öll!”, sem verða að teljast nokkuð grípandi fyrstu orð. Hægt er að lesa fyrstu síður bókarinnar á heimasíðu útgefandans Drápu. Bókin er myndskreytt í teiknimyndasagnastíl. Það er ekki mynd á hverri síðu, en nægilega margar til að skapa mjög mikla stemmningu í bókinni. Mér fannst eins og ég væri stundum að sjá glefsur úr kvikmynd. Lýsingarnar eru mjög lifandi og myndrænar og myndirnar taka lýsingarnar og blása þær enn frekar upp, þannig að upplifunin af hryllingnum er enn meiri.

Bræðurnir Alríkur og Viggó eru ekki eingöngu að glíma við myrku öflin, heldur líka við veraldlegar áskoranir eins og eineltishrotta í skólanum, vantrú fullorðins fólks, slæmt orðspor og slæma félagslega stöðu. Í raun eru persónurnar Alríkur og Viggó mjög áhugaverðar.

Bókin hentar ekki viðkvæmum sálum. Dauðinn er alltumlykjandi í bókinni og bræðurnir þurfa að kljást við ansi svakaleg skrímsli og fullorðna undir álögum. Lýsingarnar, atburðirnir og myndirnar eru upplagðar til að skapa myrkfælni og martraðir. Ég þori samt að alhæfa það að fjöldinn allur af krökkum, tólf ára og eldri, eiga eftir að bíða í röðum eftir næstu bók í PAX-seríunni. Mér virðist sem það séu nú þegar komnar út að minnsta kosti níu bækur í Svíþjóð.

Ég bannaði strákunum mínum að lesa bókina, þetta er núna mest spennandi bókin á heimilinu. Forboðni ávöxturinn sem enginn þorir að snerta en allir vilja.

 

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....