Ég vil hefja þessa umfjöllun á varnagla. Ég les ekki mikið af ljóðum og hef lítið við á skáldskap. En eitt af því sem gerir ljóð að jaðarbókmenntagrein í dag er líklega þessi tilfinning sem margir fá þegar þeir lesa ljóð, að þeir hafi nú kannski ekki mikið vit á þessu. Ljóðaótti? Kannast lesendur við ljóðaótta? Jæja, í öllu falli, ég þekki eitt ljóðskáld og hef því af kurteisi og vinsemd í gegnum árin mætt á nokkra ljóðaupplestra. Þá endar maður á að kaupa ljóðabækur af skáldunum til að vera næs og áður en hendi er veifað er maður djúpt sokkinn í fen ljóðanna. Eða þannig. Ég legg ekki öðruvísi mat á ljóð en annað sem ég les, grundvallarspurningin er þrátt fyrir allt hvort mér þyki þetta skemmtilegt eða leiðinlegt.
Ellefti snertur af yfirsýn er það fyrsta sem ég les eftir Ísak Harðarson. Þó er bókin, eins og titillinn gefur til kynna, ellefta ljóðabók hans. Og upp blossar ljóðaóttinn. Er hægt að segja eitthvað af viti um skáld sem á svona stórt höfundarverk að baki, sem maður þekkir ekkert? Mögulega ekki, en ekki lét Lestrarklefinn það trufla sig þegar við fjölluðum um nýjustu bókina hans Arnalds, auk þess sem það er afar ólíklegt að ég lesi tíu ljóðabækur í viðbót á einu bretti, svo ég læt bara vaða.
Kápa bókarinnar er mér mjög að skapi. Á henni er teikning af grænklæddum manni, sposkum á svip, með hökutopp og hatt. Skegg mannsins og klæðnaður minnir mig dálítið á prest frá 19. öld. Undir hattbarði hans er stjörnubjartur himinn og ofan á hattinum er skóglendi og fjöll. Ég væri til í myndskreytta barnabók um þennan mann, í anda Roald Dahl. Þó grunar mig að ef sú barnabók yrði að veruleika þá væri hún meira í anda sunnudagaskóla en Jóa og risaferskjunnar. Því ég hef rökstuddan grun um það að maðurinn á myndinni sé guð.
Ég ætla bara að segja það hreint út að mér fannst bókin ekki mjög skemmtileg. Ég hafði ekki fyrr lokið við að lesa hana en maðurinn minn kveikti á útvarpinu, þar var að byrja þátturinn Orð um bækur, og fyrir helbera tilviljun var verið að tala um Ellefta snert af yfirsýn. Viðmælendurnir í þættinum voru mun hrifnari af bókinni en ég, og sögðu margt sem mér þótti vel á bent. Í kjölfarið hugsaði ég aðeins meira um bókina, og það er alveg margt í henni sem hægt er að pæla í. Í öðru ljóði bókarinnar varar höfundurinn við því að ljóðin muni ekki koma til með að mynda neina samfellu eða heild, en þegar allt kemur til alls var sú viðvörun með öllu óþörf. Það er sterkur heildarsvipur á bókinni og jafnvel þau stöku ljóð sem virka eins og uppbrot, bæði hvað varðar efni og stíl, passa á einhvern undarlegan hátt saman. Eins og bókin sé rúbikskubbur, ef þið skiljið hvað ég á við. Margir fletir á sama efni sem hægt er að velta á ýmsa kanta. Þarna er til dæmis flöskuskeyti, sem er sent fram og til baka í gegnum bókina og heimsendir er skoðaður úr ýmsum áttum, meðal annars af tindi Úlfarsfells. Þetta er eitt af því sem mér finnst skemmtilegt við ljóðabækur, þessar óljósu tengingar sem eru á milli ljóðanna, og hvernig maður heldur áfram að uppgötva þær tengingar eftir að lesturinn er búinn. En samt, ég ítreka það að mér fannst bókin leiðinleg.
Af hverju er það? Tja, mér fannst svo mikill heildarsvipur á ljóðunum að þau væru beinlínis orðin endurtekningarsöm. En kannski liggur grundvallarástæðan á þeirri upplifun í því að mér fannst umfjöllunarefnið leiðinlegt. Eins og fyrr segir þá grunar mig að kallinn á kápunni sé enginn annar en guð, enda er hið kristna almætti eitt af meginstefunum í þessari ljóðabók. Ég er sannfærður trúleysingi og þó ég reyni að halda opnum huga gagnvart hinni trúuðu lífsskoðun, þá ræð ég ekki við það að mér leiðast trúarlegar þenkingar. Heimsendir (stundum í slagtogi við bankahrunið) er annað þema í bókinni, þó hann einkennist frekar af einhverri ásatrúarlegri hringrás frekar en hinum kristna dómsdegi. Almættið og heimsendir fléttast svo saman við alls konar pælingar um stjörnukerfið og hnattkringluna sem vaða uppi í ljóðum (sem mér fannst vera ansi mörg) sem fjalla um gang sólar og árstíðaskipti. Það er vissulega merkilegt fyrirbæri og mjög fallegt, en óneitanlega endurtekningarsamt. Að mínu mati er erfitt að segja eitthvað um árstíðaskipti sem ekki hefur verið sagt áður.
Að einhverju leyti liggur því óánægja mín með bókina í þeim mun sem er á mér og skáldinu í trúarskoðunum, en einnig aldursmun. Ísak minnist á sinn eigin aldur að minnsta kosti einu sinni í bókinni og hann virðist sirka helmingi eldri en ég. Það er einhver kyrrð, íhugun og lágstemmt uppgjör í ljóðunum sem ég tengi lítið við. Ég vil hafa eitthvað kviss og búmm í heimsendi, í þessari ljóðabók skellur á heimsendir og svo er bara flutt upp í Grafarvoginn að honum loknum. Það voru vissulega ljóð í bókinni sem mér fundust nokkuð fín, en ég man miklu betur eftir þeim sem mér fundust skrítin, einhvern veginn óþægileg. Til dæmis þetta á bls. 30: (og ég vil biðja skáldið afsökunar á að slátra réttu línuskiptingunni. Ég kann greinilega ekki nógu vel á þetta bloggformatt og sama hvað ég reyni verður þetta ekkert rétt)
„Jörðin er bláeyg,
augasteinn sólarinnar
-sjónfruma í auga hins síkveikta lífs.
Horfir nývöknuð, ringluð
mót blikandi augum og brosum,
en sér aðeins stjörnur,
sindrandi þokumekki.
Ókei, hugsaði ég þarna ánægð með mér í miðju ljóði, myndlíking um ungbarn, það er nú eitthvað fyrir konu í minni stöðu. En ljóðið heldur áfram:
Grenjar og hikstar,
prumpar eldgosum,
heimtar að fá að drekka,
orgar enn meir….
Sussu sussu, litla jörð.
Gleymdu þessu með Vetrarbrautina:
Freyðandi Sumarbrautin er þér ætluð,
stráð mjólkandi sólarspenum!
Þetta ljóð virkar á mig sem skrítin blanda af dálítilli væmni og svo undarlegum groddahúmor. Hvað skal segja, hispursleysi og skrautyrðum? Ég meina kommon, ungbarn prumpar ekki eldgosum, það er nú greinilega bara kúkur sem er þar á ferð. Farðu bara með þetta alla leið fyrst þú vilt endilega vera að þessu.
Viðmælendurnir í Orð um bækur töluðu um það hvað Ísak væri einlægur höfundur, sem væri óvenjulegt í tíðaranda samtímans. Nú þekktu viðmælendurnir hans höfundarverk en ég ekki, en ég veit ekki alveg hvort ég myndi taka undir það að þetta sé einlæg bók. Einlægni er svo skrítið fyrirbæri. Oftar en ekki fer áberandi einlægni að minna á hæðni. Svona eins og Jón Gnarr. Hver veit nokkru sinni hvort hann er að meina eitthvað eða ekki? Og stundum runnu á mig tvær grímur við lestur þessarar bókar. Ekki síst fyrir þær sakir að hún er öll prentuð í letrinu Comic Sans. Það hefur örugglega verið slagur að fá að gefa ljóðin út í þessu letri sem margir hata út af lífinu, og af hverju? Nú er ég ekki mikill leturfasisti, tek sjaldnast eftir svona smáatriðum þegar ég er að lesa. En jafnvel mér varð ekki um sel við að lesa ljóð sem endar á
HAMINGJAN!
Það er bara eitthvað aðeins of einlægt við angurvær ljóð um sólarlag og árstíðaskipti í þessu letri. Eins og facebook síðan godandaginn.is eða eitthvað. Líklega er maðurinn bara að gera grín að okkur. Eða hvað?