Enn einu sinni er langt liðið á desember og Stekkjastaur kíkir við í kvöld, og hver hrekkjóttur bróðirinn á eftir öðrum næstu kvöld. Komu þessara bræðra er beðið með eftirvæntingu hér, líkt og á öðrum heimilum geri ég ráð fyrir, og skórnir eru komnir út í glugga þótt annað jólaskraut hangi enn í kössum. Baldur, Hjörtur og Elías, aðalsöguhetjurnar í Jólasveinarannsókninni eftir Benný Sif Ísleifsdóttur, eru sko heldur en ekki spenntir fyrir komu íslensku jólasveinanna. Þeir eru búnir að koma fyrir spjaldtölvum í gluggunum, þær eru kirfilega tengdar í rafmagn og með upptöku í gangi. Þeir ætla sér að taka upp jólasveinana við verknaðinn og leysa þar með hina eilífu spurningu allra krakka sem komnir eru á grunnskólaaldur: Setja jólasveinarnir í skóinn eða foreldrarnir?

Tilraunir þeirra félaga ganga ekki áfallalaust fyrir sig. Þeir strita við lýsingu, rafhlöðuleysi og síðast en ekki síst siðferðilegar spurningar. Þótt jólasveinatrú sé aðal viðfangsefni bókarinnar framan af þá breytist það um miðja bók. Nokkrir kaflar fjalla nær eingöngu um netöryggi og mynddreifingar; málefni sem er virkilega mikil þörf á að ræða með krökkum í dag. En Benný tekst að koma þessum boðskap til skila á ótrúlega nærgætinn hátt, ekki þannig að manni finnist lesið yfir manni.

Benný Sif hefur stórskemmtilegan stíl, gott vald á tungumálinu og frásögnin flæðir öll ótrúlega átakalaust áfram.

Hún er augljóslega áhugakona um sjaldgæf orð, því hún notar tækifærið og laumar inn skrýtnum orðum og útskýringum með þeim. En líkt og með annan boðskap er það ekki í formi skammaryfirlesturs, heldur kemur hún þeim á framfæri í flæðandi texta sem passar fullkomlega við alla söguna. Ég til dæmis lærði orðið gípugangur og er ósköp sæl með að geta farið að slá um mig með því orði í framtíðinni.

Ég hló upphátt yfir bókinni. Baldur er ótrúlega skemmtilegur strákur og félagar hans líka. Benný skapar ótrúlega skemmtilega, einlæga og forvitna stráka sem unun er að fylgjast með uppgötva allt um jólasveinana. Svo virðist sem mamma Baldurs sé mjög lík Benný, því hún veit allt um gamla þjóðhætti og siði. Benný Sif er sjálf þjóðfræðingur.

Eins og með annað fróðlegt í bókinni nær Benný að koma ótrúlega miklum fróðleik að um jólasveinana án þess að maður taki sérstaklega eftir því, sennilega af því Baldur sjálfur er sjaldnast að hlusta á fróðleikinn frá mömmu sinni.

Elín Elísabet myndskreytir bókina listilega vel. Hún nær að fanga einlægni strákanna og gamansemina í texta Bennýjar Sifjar í myndunum sínum, en hún er líklega hvað þekktust fyrir að gera skopmyndir í Grapevine (ja, ég þekki hana þaðan en kannski er ég bara hrikalega ómenningarleg því ég sé að hún er að gera fullt af öðrum góðum hlutum). Hún hefur náð á listann minn yfir skemmtilegustu skopmyndateiknarana í dag.

Næstu kvöld ætlum við synirnir að sitja saman og lesa Jólasveinarannsóknina, einn kafla á dag. Niðurtalningin að jólunum hefst 11. desember, líkt og fyrsti kafli bókarinnar heitir. Næsti kafli heitir 12. desember og svo koll af kolli. Hver kafli er hæfilega langur fyrir góðan kvöldlestur og ég get lofað foreldrum, sem ætla að leggja í það að lesa einn kafla á dag úr Jólasveinarannsókninni, þið verðið ekki fyrir vonbrigðum.

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...