Þá er janúar á enda og við vonum að sem flestir hafi komist í gegnum jólabækurnar enn stóðu ólesnar í desember. Lestrarklefinn lagðist í vinnu í janúar og afraksturinn er þessi þægilegi hlaðvarpsþáttur sem unnin er í samstarfi við Kjarnann.
Í þættinum skoðum við jólabækurnar, veltum fyrir okkur tíma bókarinnar og tökum viðtal við tvo rithöfunda. Anna Margrét spjallaði við Benný Sif Ísleifsdóttur rithöfund og þjóðfræðing, sem sendi frá sér tvær bækur í fyrra; Grímu og Jólasveinarannsóknina, eina skáldsögu og eina barnabók. Anna Margrét Björnsdóttir, úr áhöfn Lestrarklefans, spjallar við Benný Sif um uppruna jólabókaflóðsins og hvernig það er að vera rithöfundur eftir hasar desembermánaðar.
Seinni viðmælandi þáttarins er nýkrýndur handhafi íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fagurbókmennta, Hallgrímur Helgason. Katrín Lilja ræddi við Hallgrím um Sextíu kíló af sólskini, ritstörfin og lestur. Þar kemur meðal annars fram að Hallgrímur hyggst halda áfram með söguna þar sem frá var horfið og mögulega verða Sextíu kíló af sólkini að tríólógíu. Við bíðum spenntar eftir framhaldinu.
Við vonum að lesendur okkar kunni að meta þetta framtak og njóti hlustunarinnar.