Fyrsta bókin sem ég las eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur var Yosoy. Hún er eftirminnileg fyrir margar sakir, en fyrir mig ekki síst fyrir það að hún fékk mig til að líta allt lífið öðrum augum. Það sama má segja um Allt með kossi vekur. Þess vegna hafa bækur Guðrúnar Evu alltaf átt sérstakan stað í hjarta mínu. Ég stökk því hæð mína í loft af gleði þegar ég rak augun í það fyrir jólin að hún hefði gefið út smásagnasafn. Smásagnaformið heillaði mig upp úr skónum fyrir ekki svo löngu síðan með sínum stuttu sögum, ef til vill duldu meiningum en fyrst og fremst er dásamlegt að fá að kynnast persónunum í smásögunum. Guðrún Eva hlaut Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir Ástin Texas.
Smásögur eru dásamleg leið til að segja sögu og Guðrún Eva nýtir sér formið á yfirvegaðan og afslappaðan hátt og tæpitingulaust. Sögurnar eru nokkrar og í lengri kantinum. Þær segja allar frá konum og ástinni. Ástin er eitthvað svo ómöguleg í sögunum. Hún er erfið og flókin, en Guðrún Eva segir frá öllu saman mjög hreint út án þess að velta sér mikið upp úr aðstæðum persónanna eða vorkenna þeim á nokkurn hátt. Óhjákvæmilega fer manni að þykja vænt um einhverjar persónur og líka illa við aðrar. Sumar gjörðir sögupersóna voru mér algjörlega óskiljanlegar og ég þoldi þær ekki. Eins og Jóhönnu sem fellur fyrir föðurbróður vinkonu sinnar, furðulegum fýr, en er sjálf gift sómasamlegasta náunga. En einhvern veginn náði Guðrún Eva að lækka í mér rostann og segja mér að hætta að dæma með því að gefa mér örlitla innsýn í framtíð Jóhönnu. Það var hlýr koss að hitta Jóhönnu aftur í svona mýflugumynd í annarri sögu og ég skyldi við bókina með hugann fullan af ró. Það blessast allt að lokum. Við finnum öll okkar ást í einhverju formi.
Smásagnasafn eins og Guðrúnar Evu gefur höfundum tækifæri til að senda lesandanum svona smá flöskuskeyti frá öðrum tíma. Maður sér kannski sumar persónurnar aftur í annarri sögu. Óneitanlega bindst maður persónunum böndum og vill stundum ekki sleppa af þeim höndunum. Eða er ekki tilbúinn að halda áfram að næstu sögu. Sögurnar í Ástin Texas eru nokkuð langar og það er eiginlega það eina sem ég get fundið að þeim. Ég náði ekki að lesa heila sögu án þess að þurfa að standa upp frá lestrinum og það sleit svolítið í sundur töfrana, það tók mig alltaf smá tíma að muna hvaða persónu ég var að lesa um þegar ég settist niður aftur. En að sama skapi, þegar mér gafst tækifæri til langrar setu við lestur, þá nýtti ég mér það. Mér fannst æðislegt að fá eins djúpa innsýn í líf persónanna eins og Guðrún Eva gefur manni, maður fær fortíð og nútíð og í sumum sögunum skilaboð úr framtíðinni.
Allt í allt er Ástin Texas hlý bók full af von og ást, þótt hún sé kannski ekki alltaf í því formi sem maður býst við að hún sé. Ástin bara er.