Hið væna og græna

Það er ekkert grín að rækta blóm á Íslandi. Blóm þurfa sól, sem er ekki nóg af á Íslandi, en af einhverri ástæðu taldi ég sjálfri mér trú um að ég gæti storkað náttúrulögmálunum og væri með græna fingur. Ég er ein af þeim sem samsvaraði mér fullkomlega við teiknimyndasögu Elínar Elísabetar sem birtist fyrst í Reykjavík Grapevine. Síðan ég sannfærði mig um getu mína við plönturæktun hef ég sankað að mér ógrynni af pottaplöntum og reynt að sækja mér fróðleik og ráð í ræktun í gegnum internetið, ættingja, nágranna og vini.

Veturinn er  engu að síður búinn að vera harður hjá mér og grænbúunum. Brönugrasið mitt (orkídean) varð undirlagt af því sem ég veit núna að heitir ullarlús. Ullarlúsin kom inn á heimilið með flöskupálma sem ég fann í Krónunni. Ég píndi samt brönugrasið til að klára blómgun, hélt henni í einangrun á stofuborðinu og neyddi sjálfa mig til að njóta blómanna þangað til þau duttu af. Þá henti ég því.Það er víst ekki ráðlegt að halda svona illa sýktum blómum inni á heimilinu. Ég sá á eftir grey grasinu.

Tveir kaktusar hafa látið lífið innan veggja heimilisins í vetur. Annar vegna ofvökvunnar og hinn vegna of lítillar vökvunnar. Askurinn í stofuglugganum heyr dauðastríð í glugganum og berst gegn trekkinum úr glugganum, hitanum af ofinum undir gluggakistunni og dýrkar sjaldgæfa sólargeisla sem berast inn um gluggann. Eina blómið sem virðist algjörlega elska heimilið er bergfléttan, sem vex svo hratt að líklega verður hún ekki á meðal vor mikið lengur. Hættan er að sá eins og hálfs árs nái í lengstu vextina og kippi blóminu einfaldlega niður af hillunni.

Þar sem ég er bara með ljósgræna fingur, eða jafnvel bara brúna, þá varð ég mjög ánægð þegar ég fékk í hendurnar Hagnýtu pottaplöntubókina eftir Fran Bailey og Zia Allaway í íslenskri þýðingu Magneu J. Matthíasdóttur. Þvílíkur hafsjór af fróðleik! Í bókinni er hægt að lesa um 175 tegundir af blómum, þessi algengustu pottablóm sem finnast á Íslandi. Pottaplöntulist er nýtt orð sem ég lærði og hlakka til að reyna að búa til þurrt gróðurhús, með þykkblöðungum. Uppröðun, ræktun og umhirða; það er hægt að finna svo mikinn fróðleik í bókinni.

Fyrir utan að vera mjög falleg, bæði að innan og utan, þá er bókin aðgengileg. Það er mjög auðvelt að fletta upp blómum í bókinni og lesa sér til um þau. Einnig er gott að hafa í huga að blóm þrífast best við vissar aðstæður og þau eru til ýmiss nýtileg. Til dæmis er hægt að raða blómum upp í þeim tilgangi að hreinsa loftið, eða finna góðan stað fyrir plöntur sem þrífast best í raka og myrkri (baðherbergi).

Mögulega verða blómainnkaupin hnitmiðaðari í framtíðinni og uppröðun innan heimilisins líklegri til að vekja lukku nýbúans með hjálp bókarinnar.

Í nokkur ár hef ég sótt í fróðleik um pottaplöntur af Facebook, þar sem örvinglaðir ræktendur leita sér ráða. Eins nytsamir og Facebook-hópar geta verið þá er ég fegin að sjá svona fallega bók um pottaplöntur gefna út. Allt sem fjarlægir okkur frá Facebook hlýtur að vera jákvætt. Oftar en ekki hafa spurningar á síðunni snúið að óværu í pottaplöntum og Hafsteinn Hafliðason garðyrkjumaður svarar af sinni alkunnu snilld. Í Hagnýtu pottaplöntubókinni er sér kafli um þessar algengustu óværur og ráð gegn þeim. Mér finnst eins og allur fróðleikur Hafsteins hafi endað í bókinni og sakna þess örlítið að bókin sé ekki bara skrifuð af honum fyrir nákvæmlega íslenskar aðstæður, því við þurfum að berjast við myrkrið með plöntunum okkar. Sú bók yrði líklega algjörlega aðlöguð að Íslandi. En þangað til Hafsteinn gefur út sína eigin pottaplöntubók þá dugir þessi ágætlega og sómir sér vel í hillunni með blómunum.

Bókin er þægilega uppsett, björt eins og sólin og gefur fyrirheit um græna fingur og gleði.

Lestu þetta næst

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...