Rússneskar og raunsæjar smásögur fyrir svefninn

Kápa smásagnasafnsins er dálítið rómantísk á sama tíma og hún endurspeglar það raunsæi sem býr í sögunum sjálfum.

Ég get ekki sagt að ég hafi skemmt mér drottningarlega yfir rússnesku smásögunum sem ég hef að undanförnu verið að glugga í en þær voru samt sem áður ágæt lesning og áhugaverð sýn inn í rússneskan veruleika 19. aldar. Safnið ber  heitið Sögur frá Rússlandi og inniheldur sögur eftir rússneska meistara á borð við Dostojevskí, Tolstoj, Pushkin og Gogol. Áslaug Agnarsdóttir þýddi og valdi smásögurnar gaumgæfilega. Hér verður að koma fram að Áslaug er afbragðs þýðandi og skilar hún verkinu af sér á fullkominn hátt. Nú er ég ekki mjög kunnug rússneskri bókmenntasögu og steig því inn í þennan heim með opinn huga og frekar spennt.

Sögurnar eru allar skrifaðar fyrir árið 1917,  þ.e. fyrir byltingu, og lýsa vel mismunandi samfélagskimum landsins auk því andrúmslofti sem þar var á 19. öld til byrjun 20. aldar. Sögurnar eru jafn mismunandi og þær eru margar en flestar eiga þær það sameiginlegt að segja fremur heildstætt frá atburðum og oft eru smáatriðin jafnvel í aðalhlutverki. Mennska persónanna er áberandi og deilt er á ýmsa þætti mannlegs eðlis og trúarbragða. Sumar voru fyndnar á meðan aðrar voru hreint út sagt óhuggulegar og sorglegar.

Þetta eru ekki augnablikssögur eins og til að mynda smásögur Kristínar Mörju sem ég fjallaði um hér fyrir stuttu sem allar flæddu úr einu augnabliki yfir í annað. Sagnaformið í þessum rússnesku smásögum er hefðbundnara en það kemur í sjálfu sér ekki á óvart ef miðað er við það tímabil sem þær eru ritaðar á. Raunsæið er áberandi og lifandi lýsingar lita blaðsíðurnar.

Fyrstu tvær smásögurnar fannst mér afar áhugaverðar fyrir þær sakir að þar sveif hið yfirskilvitlega yfir vötnum. Mér var í rauninni ekki sama á tímabili þegar ég las þessar sögur rétt fyrir háttinn og mér mætti norn auk vofa gamallar hertogaynju. En ég jafnaði mig og náði loks að festa svefn. Sumar sögurnar snertu mig meira en aðrar og voru þá helst sögur Dostojevskí sem standa upp úr. Þær voru stuttar en mjög svo áhrifamiklar og minnti ein þeirra mig á sögu H.C. Andersen um litlu stúlkuna með eldspýturnar.

Eins og ég segi, þetta smásagnasafn var fínasta lesning og klárlega þörf viðbót við þann sagnaarf sem býðst hér á landi. Þó sögurnar séu misgóðar og hafi eðlilega mismikil áhrif á lesanda, þá er safnið í heild mjög vel sett saman. Áslaug á því afskaplega mikið og gott hrós skilið fyrir vel unnið verk.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...