Flæðandi augnablik innrömmuð í ljúfan stíl

Kristín Marja Baldursdóttir hefur lengi verið einn af mínum uppáhalds rithöfundum. Texti hennar er einlægur, myndrænn og fallegur. Ég varð því ekki fyrir vonbrigðum með smásagnasafnið hennar sem ég hreinlega gleypti í mig á einu notarlegu laugardagseftirmiðdegi.

Kvöldljósin eru kveikt kom út árið 2001 en áður hafði Kristín hlotið lof gagnrýnenda fyrir bækur sínar Mávahlátur, Kular af degi og Hús úr húsi. Sjálf á ég eftir að lesa Hús úr húsi en ég hef heyrt að hún sé alveg yndisleg líkt og aðrar bækur hennar.

Smásögurnar eru tólf og allar sýna þær lesanda augnablik í lífi íslensks fólks sem glímir við ýmiskonar tilvistarkrísur. Sögurnar eru stuttar og Kristín sýnir að smásagnaformið, sem stundum getur reynst rithöfundum tæknilega erfitt, leikur í höndunum á henni. Augnabliksformið er svo sterkt; það er nánast eins og lesandinn svífi inn um litla rifu á veruleikanum og lendi sem fluga á vegg í mismunandi aðstæðum, allt frá tilvistarkreppu gamallar konu sem nennir ekki þessu lífi lengur enda farin að slá í tírætt, bróðurs sem hræðist andlegt kukl systur sinnar og einstæðrar móður á sængurkvennadeild. Ég naut hverrar sögu og texti Kristínar færði mér yl í sálina.

Áhugavert fannst mér að allar sögurnar heita nöfnum sem byrja annað hvort á stafnum M eða K; Kukl, Mín kæra, Krossmark, Morgunverkin, Kyntákn, Móða, Minningar, Kinnhestur og svo framvegis. Það fannst mér skemmtileg viðbót við stíl Kristínar. Þá finnst mér það þurfa að koma fram að sögurnar hennar, ef lesandinn vill túlka það þannig, hafa í raun engan endi. Lesandinn flæðir einfaldlega inn og út úr augnablikinu og inn í það næsta. Það sem er hins vegar svo áhugavert að fyrsta sagan og síðasta sagan endurspegla í raun byrjun og endi hins venjubundna sagnaforms. Safnið byrjar á sögu gamallrar konu í tilvistarkreppu sem ákveður að lifa og safnið endar á lífi langömmu sem skipuleggur dauða sinni. Þannig er byrjun safnsins fólgin í lífsákvörðun aðalsöguhetju fyrstu sögunnar og því lýkur með dauða annarrar konu í svipuðum aðstæðum. Þetta fannst mér falleg harmónía.

Ég naut hverrar mínútu safnsins og mæli hiklaust með því í Smásagnafebrúar.

Lestu þetta næst

Stormasamt hjónabandslíf

Stormasamt hjónabandslíf

Gift eftir Tove Ditlevsen er minningarbók sem segir frá hjónabandslífi danska rithöfundarins sem...

Ótrúlegt aðdráttarafl

Ótrúlegt aðdráttarafl

Sú hefð hefur skapast á mínu heimili að enda daginn alltaf á að lesa. Kvöldlestur er hluti af...

Ameríka er líka blekking

Ameríka er líka blekking

Fólk var hneppt í þrældóm frá mismunandi svæðum í Afríku nýlendutímans. Það var flutt í gegnum...

Júlían er fullkominn

Júlían er fullkominn

Aumingja Efia er bara átta ára og stjúpmamma hennar pínir hana til að lesa með sér barnabækur til...