Veturinn er langur á Íslandi. Þegar mars gengur í garð er ég oftar en ekki komin með mikið meira en nóg af slyddu, vindi, rigningu og öðru leiðinda veðri sem vill fylgja hinu hægfara vori. Ég er farin að bíða vorsins með óþreyju. Stundum hef ég staðið mig að því að hlæja upp í vindinn og fruss rigninguna, örlítið örvæntingafullum hlátri sem helst minnir á vitfirring. Oftast gerist þetta þegar örlítið vonarfræ hafði sáð sér í sálina; von um vor sem kom svo ekki þá.

Af því að sumir eru orðnir svona tæpir á geði vegna vorskorts í mars þá ætlum við að einbeita okkur að geðveikum bókum. Fjölmargir rithöfundar hafa valið að láta söguhetjur sínar vera tæpar á geði, sumar vita það berlega, aðrar hafa ekki hugmynd um hve klikkaðar þær eru. En það eru kannski gamansögur af geðveilu. Svo höfum við sögurnar með þunglyndi, kvíða og jafnvel ofbeldi (því hvað er það annað er hálfgerð geðveiki að beita aðra ofbeldi?). Inni í þessu eru sjálfshjálparbækur eða fræðibækur um geðveiki og geðveilu. Í raun og veru er þetta mjög opinn mánuður, því það er hægt að finna geðveikina hvar sem er. Við erum öll klikkuð á okkar hátt.

Ef þú vilt lesa geðveikar bækur með okkur í mars taggaðu okkur á samfélagsmiðlum með #lestrarklefinn eða #geggjaðurmars.

 

Lestu þetta næst