Eddi Glæsibrók og illi keisarinn

Við sem lesum mikið, við erum yfirleitt dugleg að koma á framfæri því sem við lesum, sumar bækur eru þess eðlis að okkur finnst að allir þurfi að lesa á meðan aðrar bækur eru þrautinni þyngri að klára og rykfalla þar á eftir uppi í hillu öllum til ama. Það er hægt að finna ógrynni að bókadómum um hinar og þessar bækur en þessir bókadómar eiga flestir það sameiginlegt að fullorðnir fjalla um, vega og meta bækurnar og segja frá þeim frá sínu sjónarhóli. Og fullorðnir eru duglegir að segja börnum hvað séu góðar barnabækur, hvað þeim á að finnast skemmtilegt og oft er ekkert tekið með í reikninginn að sjónarhorn barnanna á þeirra lestrarefni er allt annað en okkar fullorðna fólksins. Ég hef því oft spurt mig hvernig standi á því að þau séu svona lítið spurð, af hverju þau fái ekki meira vægi í allri bókaumfjöllun um barnabækur. Nú er ég sjálf farin að skrifa um barnabækurnar sem ég les og ég hef undanfarið skrifað frá mínu sjónarhorni og finnst það pínu skrýtið, einhvern veginn eins og að ég sé að ráðast inn á annarra manna verksvið. Þannig að í þetta sinn ákvað ég að fylgja minni betri vitund og fá til liðs við mig ungan mann sem hefur skoðanir á því sem hann les og veit meira en ég um hvað krakkar vilja hafa í bókunum þeirra.

Haukur Orri Bergmann Heiðarsson er átta ára strákur í Grundarfirði og er því í 3. bekk.  Þegar ég hóf störf á skólabókasafninu í Grundó, eins við köllum yfirleitt bæinn okkar, vakti þessi skemmtilegi strákur fljótlega athygli mína þar sem hann var tíður gestur á bókasafninu og óvenjulega áhugasamur um  bækur og bókalestur.  Ég bað hann um að taka að sér hlutverk gestabloggara Lestrarklefans,  lesa bók og segja sína skoðun, hreinskilnislega. Fyrir valinu varð nýútkomin bók eftir Andy Riley, bókin um Edda glæsibrók og illa keisarann.

Við Haukur settumst svo niður á bókakaffihúsinu í Grundó og fórum í gegnum bókina saman. En hvað skyldi það vera sem gerir barnabók góða? Jú að hans mati þarf góðan brandara, fyndni og hnyttinn texta. Svo skemmir ekki fyrir ef það eru flottar myndir, þó myndir séu svosem ekki nauðsynlegar.

En þá að bókinni. Hún fjallar um kónginn Edda Glæsibrók í Eddalandi, sem gefur alltaf þegnunum sínum súkkulaði á hverjum föstudagi. En svo kemur að því að peningurinn hans Edda klárast og fara þegnar Edda að hafa áhyggjur af súkkulaðileysinu og Edda sjálfum. Þá kemur til sögunnar Núbbison, hinni illi keisari en hann á Núbbaland og hann reynir að taka yfir Eddaland. En Jóna ráðherra og Magga hirðfífl fara með Edda í Núbbaland til að stöðva Núbbison. Viðurnefnið Glæsibrók fær Eddi þegar Núbbason uppnefnir hann en Eddi snýr því sér í hag með því að finnast þetta hið skemmtilegasta viðurnefni og fer sjálfur að kalla sig Edda Glæsibrók.

„Það er nefnilega þannig með stríðni að ef maður ákveður að finnast hún bara fyndin og skemmtileg þá er ekkert gaman lengur að stríða manni“ vill Haukur meina og kemst einmitt þarna að mjög athyglisverðri niðurstöðu, hvernig hægt sé að slá vopnin úr höndum þess sem vill gera lítið úr einhverjum og stríða. „Bókin um Edda er nýjasta uppáhaldsbókin mín og ég hlakka til að lesa framhaldið en það stendur í endinum að það verði framhald“ heldur Haukur áfram og telur jafnframt að það þurfi ekki óbærilega spennu eða einhvern svakalegan glæp svo að bók teljist góð. Glæpalausar sögur geti nefnilega líka verið spennandi, glæpir í bókum séu stórlega ofmetnir og þar erum við bæði algjörlega á sömu blaðsíðu. Við erum líka sérlega spennt fyrir þeirri tilhugsun að jafnvel verði gerð mynd eða þættir úr þessari bók.

Hauki finnst bókin um Edda Glæsibrók þægileg, stafirnir séu mátulega stórir, myndirnar vel gerðar og bæti helling við söguna, persónusköpunin lifandi og hann hreinlega hafi stundum séð Edda fyrir sér skoppa upp af síðunum.  Höfundur bókarinnar er líka sá sem teiknar myndirnar og þetta er afar vel gert. Bókin er að Hauks mati dæmigerð saga um baráttu góðs og ills þar sem hið góða fer með sigur úr býtum. Haukur les í klukkutíma á dag, alla daga. Ekki af því að mamma hans segi honum að gera það, heldur af því að honum finnst það bara rosalega gaman. Fyrst átti hann að lesa í lágmark hálftíma en hann bætti við tímann og lengdi um helming þar sem hálftími var ekki nóg að hans mati. Þegar engin bók er á náttborðinu þá grípur hann í bókina um Norrænu goðin sem kom út fyrir síðustu jól og var í einum jólapakkanum hans. Og Haukur Orri elskar að fá bækur í jólagjöf og Norrænu goðin er núna í mestu uppáhaldi.  En það er sjaldan sem Haukur er uppiskroppa með bækur, núna t.d. er hann rúmlega hálfnaður með Silfurlykilinn eftir Sigrúnu Eldjárn en sú bók fékk einmitt Íslensku bókmenntaverðlaunin 2018. Haukur mælir með þeirri bók en segist þó eiga eftir að lesa endinn.

Að lokum vill Haukur koma því á framfæri að það sé mjög mikilvægt að krakkar lesi, þau eigi jafnvel sjálf eftir að eignast börn og þurfi þá að geta haldið bókum að sínum börnum. Hann vill líka beina þeim tilmælum til foreldra að hætta ekki að lesa upphátt fyrir börnin sín, þó að börnin séu sjálf orðin læs. Það sé alltaf gaman að láta lesa fyrir sig, þó maður sé alveg að verða níu ára.

 

 

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...