Kaldrifjuð morð í Kaupmannahöfn

Fyrir þá sem elska hráslagalegar, kaldar, blóðugar, grimmar og óhugnanlegari glæpasögur með dassi af kynferðislegri brenglun, þá er Kastaníumaðurinn rétta bókin. Bókin er jafnframt vel spunnin og fléttan til fyrirmyndar og þetta er stór saga. En þar sem hún er svona blaut og köld var ég ansi efins um að bókin næði yfir höfuð að fanga áhuga minn þegar ég byrjaði. Ég þurfti reyndar að byrja tvisvar sinnum á bókinni, því hún byrjar í svo miklu blóðbaði að mig óaði fyrir framhaldinu. Þar fyrir utan byrjar bókin mjög hægt. Hver kaflinn eftir annan byrjaði á lýsingum eins og: “Það er rigningarúði og flúorljósin við hjólaskýlin lýsa upp annan endann á körfuboltavellinum” eða “haustvindurinn rífur og slítur illúðlega í flaksandi yfirbreiðslunar á vinnupöllunum…” Framvinda glæparannsóknarinnar var hæg og stundum fannst mér nóg af niðurdrepandi lýsingum af rigningu og vindi. (Er nokkuð meira niðurdrepandi en flúorljós í rigningu?)

Það var ekki fyrr en að loknum einum þriðja bókarinnar sem mér fannst eitthvað fútt komast í söguþráðinn. Þá varð líka erfitt að hemja lesturinn. Kvöldmaturinn brann við nokkur kvöld, vatnið sauð upp úr pottum og það gleymdist að leggja á borð (ég les oftast um leið og ég elda kvöldmatinn). Ég tók eftir því að þýðandinn, Ragna Sigurðardóttir, og prófarkalesari bókarinnar voru álíka annars hugar og ég, því þegar leið á bókina kom það oftar fyrir að það vantaði eitt og eitt orð í setningarnar. Eða stöfum var víxlað. En ég fyrirgef það, því skiljanlega hefur prófarkalesarinn lesið hratt, enda spennandi bók.

Hvað er kastaníumaður?

En! Að efni bókarinnar. Rannsóknarlögreglumennirnir Naia Thulin og Mark Hess fá það verkefni að rannsaka tvö morð, þar sem konum hefur verið misþyrmt og þær svo aflimaðar. Undirskrift gerandans er lítill kastaníumaður sem hefur verið skilinn eftir á morðstaðnum. Það kemur svo í ljós að kastaníumennirnir eru með fingrafari Kristine Hartung, dóttur félagsmálaráðherra sem rænt var fyrir ári síðan og talin löngu látin. Það mál var talið upplýst og brotamaðurinn á bak við lás og slá.

Ég velti því fyrir mér hvort tengingin við kastaníumenn hefði einhver óhugnanlegri áhrif á lesendur í Danmörku, þar sem til er menningarleg tenging við kastaníumenn. Sveistrup tekur barnaleikfang eða barnalistaverk og tengir við hryllileg morð. Kastanímenn eru litlar fígúrur sem börn föndra að hausti, þegar kastaníur falla af trjánum. Þær eru því tengdar æsku og fallegu hausti í Danmörku. Í mínum huga verða svona fígúrur að eilífu tengdar blóðugum morðum hér eftir.

Klisjan um þunglyndu lögguna

Thulin og Hess eru hinir klassísku rannsóknarlögreglumenn. Thulin er eitilhörð einstæð móðir sem notar karla bara til að fullnægja sjálfri sér. Við kynnumst henni reyndar fyrst þar sem hún er að nauðga kærastanum sínum (þótt kærastinn sé látinn fíla það í bókinni. En, kommon! Karlar eiga að samþykkja kynlíf líka og þegar maður er sofandi þá getur maður ekki veitt samþykki). Ég velti því stundum fyrir mér af hverju Sveistrup hafði fyrir því að gera Thulin að móður, en svo kemur í ljós að það hefur úrslitaáhrif á framvindu sögunnar og að lausn glæpsins. Hess er svo hinn þunglyndi, drykkfelldi lögreglumaður sem augljóslega á sér myrka fortíð. Annars virðast Hess og Thulin ekki eiga sér neitt líf fyrir utan vinnuna. Eins og reglur segja til um dragast Hess og Thulin hvort að öðru, þótt við fáum í raun lítið að vita um persónur þeirra og persónulegar aðstæður.

Frábær flétta

Það var mikil haustrigning, kuldi og myrkur í bókinni.

Það kemur í ljós að glæpurinn er mikið flóknari en manni hefði nokkru sinni órað fyrir. Thulin og Hess afhjúpa miklu meira en þau hafði grunað þegar þau byrjuðu að rannsaka morðmálin. Fléttan er góð og kom virkilega á óvart, þótt manni hafi verið farið að renna í grun hver misyndismaðurinn væri þegar um einn fjórði bókarinnar var ólesinn. Það voru þó alltaf nokkrir í sigtinu.

Sveistrup er höfundur þáttanna Forbrydelsen sem nutu mikilla vinsælda fyrir nokkrum árum. Ég velti því fyrir mér hvort að ritstjóri Sveistrup hafi slakað á taumunum vegna þessa, því mér fannst bókin óþarflega löng. Sumum lýsingum hefði alveg mátt sleppa, samtöl hefði mátt stytta og margt fleira í þeim dúr. Stundum fannst mér hægja óþarflega mikið á söguþræðinum vegna þessara lýsinga.

Maður á ekki að dæma bók af kápunni, en þó verð ég að hrósa hönnun kápunnar. Hún virkilega segir allt sem segja þarf um bókina.

Kastaníumaðurinn er mjög spennandi bók og kjörin fyrir þá sem elska óhugnanlegar glæpasögur sem gerast í haustrigningu. Þrátt fyrir að ég hafi tekið hana upp með því fyrirframgefna hugarfari að hún væri of ofbeldisfull fyrir mig þá féll ég að lokum inn í kuldann og rigninguna og átti erfitt með að slíta mig frá danskri haustrigningu aftur í íslenskt vorrok og rigningu. Ég vík þó ekki frá þeirri skoðun að ritstjórn hefði mátt vera harðari og bókin hefði getað verið styttri.

Lestu þetta næst