Narnía, nostalgían og efasemdirnar.

Kápan: ómótstæðileg.
Titillinn: Frábær.
Ljósmyndin mín: Frekar slæm.

Um daginn varð ég vitni að því þegar það birtist fyrirspurn í hinum vinsæla Fb-hópi Bókagull, þar sem kona bað um meðmæli að skemmtilegum bókum fyrir 12 ára son sinn. Öll elskum við að segja öðru fólki frá uppáhaldsbókunum okkar, og bækur sem við lásum og elskuðum sem börn eru oftar en ekki í aðeins öðruvísi (og meira) uppáhaldi en aðrar. Ég lét freistast til að mæla með bókunum Nikkobóbínusi og Konungi þjófanna og fylgdist svo með þræðinum springa, í næstum því bókstaflegri merkingu þessa orðs. Síðast þegar ég nennti að kíkja voru komnar yfir 400 athugasemdir og fæstir létu sér nægja að mæla bara með einni bók.

En meðalaldurinn í hópnum Bókagull er alveg örugglega ansi langt frá 12 ára, og mikið af uppástungunum voru bækur sem eru jafnvel ekki lengur aðgengilegar á bókasöfnum. (Ég veit það, af því að stundum kaupi ég afskrifuðu eintökin á 50 kall upp á einhverja nostalgíu, en ég hafði aðgang að þessum forngripum heima hjá ömmu minni. Einn daginn ætla ég að rifja upp kynni mín við barnabókina Bombí Bitt, og athuga til dæmis hvernig kaflinn þar sem strákarnir hlusta hugfangnir á strokufangann í sveitinni segja frá því hvernig hann fékk inngöngu í Ku Klux Klan kemur mér fyrir sjónir núna. Ég myndi hins vegar ekki mæla með þessari bók við móður 12 ára drengs sem ég þekki ekki neitt, en það er nú önnur saga.) Mikið af þessum stórskrítnu uppástungum að eldgömlum barnabókum kveiktu á örhugmynd að bloggi í hausnum á mér. (Mér dettur hins vegar ekki í hug að eyða meira en orði á alla karlfauskana sem birtust þarna til að koma því á framfæri að strákurinn ætti að lesa Laxness eða Íslendingasögurnar. Auðvitað geta 12 ára börn alveg lesið þessi verk og haft gaman af þeim, en þau verða að fá að fikra sig yfir í fullorðinsbækur að eigin frumkvæði. Mér finnst svona uppástungur alltaf virka mjög hrokafullar, þær fela í sér lítilsvirðingu gagnvart barnabókum og smekk barna á lesefni.)

Ein af uppástungunum sem birtust þarna á tíu kommenta fresti voru Narníubækurnar. Þetta tók ég sérstaklega til mín, því fyrr um daginn hafði ég einmitt fest kaup á Hestinum og drengnum hans í Kolaportinu. Ég er nefnilega í mjög hægu söfnunarátaki og stefni á að eiga alla seríuna í litla brotinu sem kom út á níunda áratugnum. Serían kom út aftur nokkrum árum síðar í stærra broti, sem ég vil ekki sjá. (Eftir að ég byrjaði að bókablogga hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ég sé haldin einhverju bókarkápufetishi. Og það er eitthvað alveg sérstakt við þetta litla brot í ljót-fallegu eitíslitunum.) Ég las þessar bækur á sínum tíma á bókasafninu en svo kom síðasta bókin, Lokaorrustan, út árið 1997. Ég var níu ára og ég fékk hana að gjöf og á hana enn. Ég man eftir að hafa staðið dáleidd á skólalóðinni í miðjum boltaleik eða eitthvað, með nefið límt við bókina. Ég hafði vissulega haft mjög gaman af þessum bókum, en það var ekkert í líkingu við síðustu bókina. Þegar lestrinum lauk gekk ég um í leiðslu sem í minningunni varði í eitthvað eins og tvo daga. Af hverju þurfti ég að snúa aftur til þessa glataða veruleika? Af hverju gat ég ekki farið með söguhetjunum í heiminn handan Narníu, heiminn sem var svo stórkostlegur að jafnvel Narnía bliknaði í samanburðinum? Ekkert annað komst að í huga mínum, þar til ég kveikti loksins á perunni. Þessi stórkostlegi staður var auðvitað himnaríki, og ég kæmist þangað á endanum. Þyrfti bara að bíða róleg. Gat snúið mér aftur að því að vera níu ára stelpa í þessum guðsvolaða en þó tímabundna heimi, þar sem maturinn var eins og hey í munni mér, litir voru ekki nema skugginn af sjálfum sér og blómin ilmuðu ekki í raun og veru, osfrv. 

Ég man enn hvað það tók mig langan tíma að kveikja á því hvað væri óvenjulegt við þennan titil. C.S. Lewis kunni að búa til bókartitla.

Það var nefnilega ekki fyrr en þarna sem ég áttaði mig að einhverju leyti á því að Narníubækurnar eru kristin allegoría. Þessi staðreynd, sem ætti að vera hverjum fullorðnum lesanda (og mörgum skarpskyggnari börnum er mér) temmilega augljós, er oft nefnd sem helsti galli bókanna. Ég trúði staðfastlega á tilvist Guðs, Jesú og himnaríkis þegar ég var níu ára og var því býsna móttækileg. Í dag er ég aftur á móti sannfærður trúleysingi og hef, án eftirsjár, gefið upp vonina um að komast nokkurn tímann í ríki Aslans. Ég hef ekki lesið bókaflokkinn í heild sinni frá því að ég varð fyrir þessari djúpstæðu viðhorfsbreytingu. Auk Lokaorrustunnar á ég bara Frænda töframannsins, og svo núna Hestinn og drenginn hans upp í hillu. (Blikk, blikk, elsku vinir, ef þið ætlið að gefa mér afmælisgjöf. Og ég árétta: litla brotið í eitíslitunum). Ég er almennt séð svona frekar herskár trúleysingi og trúað fólk fer oft í taugarnar á mér þegar á reynir. Þess vegna hefur það komið mér á óvart að ég er bara sátt við allt kristna stöffið í Narníubókunum. Mér finnst þetta lipurlega gert hjá höfundinum, og ef eitthvað er, þá finnst mér kristin trú nokkuð flott og heilsteypt sem fantasíuskáldsaga, ég á auðveldara með hana í því formi. Höfundurinn var haldinn sterkri sannfæringu og það skilar sér í mikilli dýpt í bókunum, sem er eitt af því sem gerir þær svona góðar. Sterk sannfæring kallar alltaf á andsvar, og stóra andsvarið við Narníubókunum er þríleikurinn um Gyllta áttavitann eftir Philip Pullman. Tvö frábær bókmenntaverk í óbeinu samtali um eina stærstu spurningu mannkyns? Ég segi bara já takk.

Það hefur verið ánægjulegt að endurlesa þessar tvær Narníubækur. Bækurnar eru svo hugmyndafræðilega hlaðnar að ég gat uppgötvað óendanlega margt nýtt sem fullorðinn lesandi. Til að mynda þungar áhyggjur höfundarins af heimsendi kjarnorkusprengjunnar í Frænda töframannsins sem beinlínis æpti á mig þegar ég las hana aftur. Hin átta ára gamla ég hafði jafnvel ekki heyrt á kjarnorkusprengjur minnst, en núna þegar ég sá talað um ógnarorðið og skelfilegan eyðingarmátt þess, þá fletti ég strax fremst í bókina og fékk grun minn staðfestan. Upprunalega útgáfuárið var 1955 og Jadís drottning eyddi borg sinni, þegnum og ríki með hliðstæðu kjarnorkusprengjunnar. Annað sem kom mér óþægilega/undarlega á óvart við endurlestur bókarinnar var hversu mikið ég hafði í raun og veru stolið frá C.S. Lewis þegar ég skrifaði mína eigin bók, Koparborgina. Almennt séð taldi ég mig mjög vel meðvitaða um alla mína fjölmörgu áhrifavalda (til dæmis Nikkóbóbínus og Konung þjófanna). En þarna birtist bara svart á hvítu eins og þruma úr heiðskíru lofti mannlausa, glæsilega borgin og drambláta og miskunnarlausa drottningin, sem greinilega höfðu grafið djúpt um sig í hugarflugi mínu þegar ég var átta ára, og aldrei farið.

Ég varð fyrir jafnvel óþægilegri uppgötvun núna þegar ég las Hestinn og drenginn hans. Tarkínan Lasaralín, sem Aravís hittir í Tassban, og leiðir hana í gegnum leynileið í höll tísrokksins, gegndi óneitanlega hliðstæðu hlutverki við karakterinn Laetitíu í bókinni minni. Ég meina, nöfnin þeirra byrja meira að segja á sama staf! Og senan á bls. 112, þar sem Aravís og Lasaralín leita skjóls á bak við sófa í höllinni, en Lasaralín ýtir á Aravís svo hausinn á henni stendur dálítið framundan sófanum og hún sér því greinilega allt sem fram fer? Aaaaaa! Ég hafði bókstaflega endurskrifað þessa senu, nema hjá mér gerist hún í uppþornuðum gosbrunni. 15 árum eftir að hafa lesið þessa bók, þá endurskrifaði ég þetta atriði. Ég lofa, það var alveg óvart! Sorrí, C.S. Lewis. Eða takk? Hvað á maður svo sem að segja?

Upprunalegu myndskreytingarnar eftir Pauline Baynes eru líka í miklu uppáhaldi hjá mér, þó þær séu ekki í lit í íslensku útgáfunni.

Narníubækurnar eru frábær ævintýri og hugmyndafræði höfundarins ljær þeim að mínu mati bara aukinn þunga, hvort sem maður er sammála henni eða ekki. C.S. Lewis hafði eitthvað að segja, og þá ósjálfrátt hlustar maður betur. Kristinfræðikennslan hans truflar mig ekki, og áróður hans gegn kjarnorkuvopnum kom mér bara skemmtilega á óvart. En. Eitt stórt en. Það getur engin fullorðin manneskja lesið Hestinn og drenginn hans, þá frábæru bók, án þess að taka eftir því hvað hún er rosalega rasísk.  Eða réttara sagt óríentalísk. Kalormen, ríki tísrokksins og átrúenda Tass, er augljóslega Ottómanaveldið og fyrirlitning C.S. Lewis á múslimum leynir sér ekki. Hvað finnst ykkur til að mynda um þessa lýsingu af bls. 62?

Þetta var fólk ólíkt öllum öðrum sem þau höfðu séð fara um göturnar þennan dag. Kallarinn sem á undan fór var eini Kalormeninn í hópnum. Og engir burðarstólar voru þarna a ferð, allir voru fótgangandi. Þarna voru víst einir sex menn, og Sjasta hafði aldrei séð þeirra líka fyrr. Þeir voru allir ljósir yfirlitum eins og hann sjálfur og flestir ljóshærðir. Og þeir klæddust ekki eins og Kalormenar. Flestir voru berleggjaðir. Kyrtlar þeirra voru í skærum, fallegum litum – grasgrænum, ljósgulum eða himinbláum. Á höfði báru þeir ekki vefjarhetti heldur stál- eða silfurhjálma, sumir voru settir gimsteinum og á einum voru ofurlitlir vængir. Einhverjir voru berhöfðaðir. Sverð þeirra voru löng og bein, ekki bjúgsverð eins og Kalormenar báru. Og þessir menn voru ekki leyndardómsfullir og alvörugefnir á svip eins og flestir Kalormenar, heldur gengu þeir frjálslega og sveifluðu örmunum og hlógu og gerðu að gamni sínu. Einn blístraði. Þeir voru auðsjáanlega reiðubúnir að vingast við hvern sem sýndi þeim vinarhug, en kærðu sig kollótta um álit annarra. Sjasta fannst hann aldrei hafa séð dýrlegri sýn á ævi sinni.

Eða þá þessa hér af bls. 117, sem lýsir heimsvaldastefnu Kalormena:

…. Narnía er ekki fjórðungur af minnsta skattlandi þínu að stærð. Hún er smánarblettur á útjaðri heimsveldisins.“

Vissulega,“ mælti tísrokkurinn. „Þessar villimannlegu smáþjóðir sem kalla sig frjálsar, sem þýðir í raun iðjulausar, agalausar og óarðbærar, eru guðunum andstyggð og öllum réttsýnum mönnum.“

Narnía aftur á móti, land hinna frjálsu og djörfu, er augljóslega byggð á upphafinni hugmynd um breska sveitasælu, þar sem það eru egg og beikon í morgunmat á hverjum degi. C.S. Lewis var fæddur á ÍRLANDI árið 1898. Hafði hann einhvern tíma heyrt um breska heimsveldið? Hvað var eiginlega í gangi, hvernig gat hann skrifað svona? 

C.S. Lewis. 20. aldar Írinn sem hafði óbeit á ottómanska heimsveldinu. Af því að það var nærtækast. Skammstöfunin stendur fyrir Clive Staples, og skyldi engan undra að hann skuli hafa notast við upphafsstafina.

 

Það er heldur ekki eins og múslimahatur sé eitthvað fjarlægt og óraunverulegt frá sjötta áratug 20. aldar, eitthvað sem Vesturlönd hafi vaxið upp úr áfallalaust eins og kjarnorkuváin. Ég var einmitt að lesa bókina þegar fréttir bárust af fjöldamorðinu í Christchurch. Það er fólk á Íslandi, og í öllum nágrannalöndum okkar, sem er tilbúið til að segja það fullum fetum að það sé í lagi að drepa fólk af íslamstrú. Líkurnar á því að einhver þeirra muni gera einmitt það einn daginn eru alltof, alltof miklar. Svo hvað á ég þá að gera við Hestinn og drenginn hans, sem hefur veitt mér svo ótrúlega mikla lestrargleði? Mig langar til að segja að það sé hægt að lesa hana, og aðskilja sig frá einmitt þessum hlutum hennar. Að börn í dag ættu líka að geta notið hennar án þess að drekka þessi viðhorf í sig, því ekki lít ég á sjálfa mig sem rasista í dag. En myndi ég einhverntíma bjóða hörundsdökku barni upp á að lesa bls. 62? Líklega ekki. Af hverju finndist mér þá í lagi að bjóða hvítu barni upp á sömu lesningu? Og þar sem ég er nýbúin að uppgötva að ég hreinlega endurskrifaði heila senu úr þessari bók algjörlega ósjálfrátt, án þess að hafa minnstu hugmynd um það, þá bara veit ég ekki alveg hvort ég hef efni á yfirlýsingum um hvað það sé auðvelt að verða ekki fyrir áhrifum frá hinu ritaða orði.

En samt er ég að safna þessum bókum. Ég vil hafa þær uppi í hillu hjá mér. Af hverju þarf fortíðin að gera okkur lífið svona erfitt?

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...