Ian McEwan hlaut bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness

Penni: Katrín Lilja

Ian McEwan er þekktastur fyrir skáldverkin Childrens act og Atonement, eða Friðþægingu.

Í dag voru bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness afhent í fyrsta sinn. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tilkynnti að Ian McEwan hlyti verðlaunin í ár, en athöfnin var hluti af Bókmenntahátíð í Reykjavík sem stendur til og með 27. apríl. Verðlaunin voru afhent í Veröld, húsi Vigdísar að viðstöddu margmenni. Forsætisráðuneytið, mennta- og menningarmálarráðuneytið, Íslandsstofa, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Forlagið, sem er útgefandi verka Halldórs Laxness, og Gljúfrasteinn standa að hinum alþjóðlegu bókmenntaverðlaunum.

„Það er ánægja og heiður að fá að tilkynna um þessi verðlaun í fyrsta sinn. Valnefnd ákvað að Ian McEwan skyldi hljóta verðlaunin en hann hefur á 45 ára ferli sett mark sitt á bókmenntaheiminn með skáldsögum þar sem fengist er við erfið viðfangsefni og nýju ljósi varpað á mannlegt eðli, minni og minningar. Þá er ekki síður mikilvægt að kenna þessi verðlaun við Halldór Laxness sem haft hefur ómæld áhrif á íslenskan skáldskap allt frá útgáfu fyrstu skáldsögu sinnar, Barn náttúrunnar,” sagði Katrín Jakobsdóttir við tilefnið.

Tilefni þessara nýju bókmennta er ekki síst það að hundrað ár eru nú liðin frá því að Halldór Laxness gaf út sína fyrstu skáldsögu, Barn náttúrunnar. Verðlaunin eru veitt virtum erlendum rithöfundi fyrir endurnýjun sagnalistar og afhent á Bókmenntahátíð í Reykjavík, nú fyrst í apríl 2019 en síðan annað hvert ár eða árin 2021, 2023, 2025 og 2027.

Lestu meira

Í ástarsorg í Víetnam

Í ástarsorg í Víetnam

Það má með sanni segja að heimurinn hafi minnkað töluvert í pestarástandinu sem ríkir í heiminum. Ferðalög á milli landa liggja niðri að mestu og sjálf hef ég ekki ferðast út fyrir Íslandsstrendur síðan 2019, eins og eflaust flestir landsmenn. Það því dýrmætt að geta...