Já, hér dró ég á mörkin þegar ég var 12 ára forgelgja.

Fáir höfundar voru í jafn miklu uppáhaldi hjá mér á unglingsárunum og hin frábæra Isabel Allende, sem er best þekkt fyrir bækurnar Hús andanna og Eva Luna. Ég las allt sem ég komst í eftir hana á bókasafninu, fyrir utan eina undarlega matreiðslubók sem skartaði berbrjósta konu á kápunni. (Bæði hafði ég engan áhuga á matreiðslu, og svo var þetta á þeim tíma sem alvöru bókasafnsvörður tékkaði allar bækurnar út fyrir mann, og þetta fannst mér of vandræðaleg kápa.) En hvað um það, þetta voru frábærar bækur sem ég myndi mæla með við alla. En þær eru alveg sérlega hentugar fyrir lestrarhesta á unglingsaldri sem vilja lesa bókmenntalegar fullorðinsbækur, án þess að drepast úr leiðindum.

En síðan prófaði Allende að skrifa einmitt unglingabækur, upp úr aldamótunum 2000, og þar fataðist henni eitthvað flugið. Nú er svo komið að þessi mikli jöfur, sem áður var gestur á bókmenntahátíðum um heim allan, er gefinn út í ómerkilegum kiljum með kápumynd af Shutterstock myndabankanum. Höfundaferill Allende hófst snemma á níunda áratugnum og hún er enn að, komin hátt á áttræðisaldur. Það er að vissu leyti virðingarvert, en svo er líka spurning hvort það sé ekki líka aðdáunarvert að vita hvenær maður á að hætta? (Þó vil ég taka fram að ég var mjög hrifin af bók hennar sem kom út á íslensku 2011, Eyjan undir sjónum, og mæli heilshugar með henni.)

En nýjasta bók hennar Að vetrarlagi, sem kom út á spænsku 2017 og á íslensku ári síðar, er sumsé ólesandi drasl. Ég reyndi held ég í þrígang að detta ofan í hana, öll af vilja gerð, en komst ekki lengra en á blaðsíðu 54 og hafði ekkert nema ergelsi og pirring upp úr krafsinu. Það er bara eins og höfundurinn sé að flýta sér allt of mikið. Í staðinn fyrir að lesandinn fái að kynnast persónunum eftir því sem sögunni vindur áfram, þá er hann mataður með skeið í fyrstu köflunum. Það er ekki merki um góða persónusköpun og leiðir oftar en ekki til mótsagna, endurtekninga og almenns ruglings og sú er einmitt raunin í Að vetrarlagi. Á endanum bara gafst ég upp, og ákvað að þessi fengi 1 stjörnu. Ég veit að það er ekki mjög sanngjarnt þar sem ég hef ekki einu sinni lesið helminginn af bókinni, en tilhugsunin um að lesa lengra í þessari bók var íþyngjandi, eins og heimalærdómur. Það eru til svo margar frábærar bækur, af hverju að eyða tímanum í þessa?

Shutterstock-rómantíkin svífur yfir vötnum.

Þó vil ég nú segja eitt, mínu gamla átrúnaðargoði til varnar: Ég held að þessi bók sé ekki vel þýdd. Ég kíkti í ensku þýðinguna (sjá má sýnishorn á vefsíðu amazon) og þar rann sagan miklu betur. Ég nennti ekki að leggjast í miklar samanburðarrannsóknir á því hverju þetta sætti, en þýðandinn hefði klárlega mátt nota miklu, miklu fleiri punkta. Ég fann fljótt nokkur dæmi þess að þeir væru hreinlega færri en í ensku þýðingunni, og þó eru yfirleitt hafðar styttri setningar í íslensku ritmáli heldur en ensku. Samt var það sami þýðandi, Sigrún Á. Eiríksdóttir, sem þýddi Eyjuna undir sjónum, og sú þýðing truflaði mig ekki neitt.

Ég get alveg skilið af hverju þýðandinn nennti ekki að nostra mikið við bók sem til að byrja með er ekki nógu góð, en lokaniðurstaðan í íslensku útgáfunni er bara allt annað en glæsileg. Ég gef hér dæmi um það sem fékk mig til að reyta hár mitt: (þar er lýst broti af tungumálakunnáttu einnar aðalpersónu)

„Fyrsta ástin hans, hann var nítján ára, var frönsk kona, átta árum eldri en hann, þau kynntust á bar í New York og hann elti hana til Parísar. Ástríðan kólnaði fljótt, en af hagkvæmnisástæðum bjuggu þau saman í risíbúð í Latínuhverfinu nógu lengi til þess að hann öðlaðist undirstöðuþekkingu í lystisemdum holdsins og franskri tungu, sem hann talaði með skelfilegum hreim. Spænskuna hafði hann lært af bókum og úti á götu, innflytjendur frá Rómönsku-Ameríku voru alls staðar í New York, en þeir skildu sjaldan framburðinn sem hann hafði lært í Berlitz-málaskólanum. Hann átti einnig erfitt með að skilja þá fram yfir það sem hann þurfti til að geta pantað mat á veitingahúsum.“

Hvaða ruglsúpa er þetta eiginlega! Fyrir utan hvað þetta er allt í belg og biðu, þá bara gengur þetta ekki upp. Það er sko ekki hægt að bæði læra spænsku af fólki úti á götu, og geta varla gert sig skiljanlegan við fólk úti á götu, eftir nám í málaskóla. Í einni og sömu málsgreininni! Ég held svei mér að þessi fari bara út í tunnu. Ein stjarna, og hana nú.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...