Kona í klípu og aðrar klisjur: Meðleigjandinn og The Bride Test

“Ég er í kasti, og verð bara að deila þessu með ykkur,” skrifaði ég inn á lokuðu síðuna sem Lestrarklefinn notar til skrafs og ráðagerða.

Ég var hálfnuð með að lesa Meðleigjandann, hjartnæma ástarsögu sem fjallar um óhefðbundið fyrirkomulag tveggja meðleigjenda. Þrátt fyrir að ég þyrfti aðeins að venjast knöppum ritstíl sem rithöfundur notar til að túlka aðra söguhetjuna, þá byrjaði bókin vel og ég var strax farin að tengja við aðalsögupersónurnar. Um miðbik bókar var söguþráðurinn hins vegar farinn að reiða sig of mikið á ákveðna tegund af klisju sem mér fellur ekki vel; Kona-í-klípu klisjuna. Ég er meðvituð um að ef maður les mikið, sér í lagi innan sömu greina, er tæpast hægt að ætlast til þess að maður fái alltaf eitthvað nýtt og spennandi í hendurnar. Klisjur eru klisjur af ástæðu og það er vel hægt að njóta bókar þrátt fyrir klisjurnar, eins og ég benti á í síðustu færslu um sakbitna sælu.

“Steininn tók samt eiginlega úr þegar kvenkyns aðalsögupersónan óð sjó upp á mið læri, tognaði á ökkla og drukknaði næstum því, allt til þess eins að karlkyns aðalsögupersónan (sem er hjúkrunarfræðingur) gæti haldið á henni upp á hótel og hjúkrað henni.”

Þetta var allt saman fremur ótrúverðugt og fór raunar svo mikið í taugarnar á mér að ég ákvað að gefa henni smá frí og fann mér aðra bók að lesa. Bókin sem varð fyrir valinu heitir The Bride Test og ég valdi hana fyrst og fremst út frá káputextanum. The Bride Test fjallar um konu sem þiggur boð frá auðugri ættmóður um að flytja til Bandaríkjanna eitt sumar og gera heiðarlega tilraun til að táldraga son hennar. Hvílíkur söguþráður! Ég vissi svo sem, miðað við söguþráðinn, að ég ætti einhvern kjánahroll í vændum, en mér leist ágætlega á fyrstu kaflana. Eftir því sem leið á bókina fór mér þó að líða nákvæmlega eins og með Meðleigjandann. “Kona-í-klípu” og á köflum ótrúverðugar lýsingar. Og svo gerðist hið óhjákvæmilega.

 

“Ég er um það bil hálfnuð með The Bride Test og hvað gerist?! Tognar aðalsögupersónan ekki á fjandans ökklanum svo að karlhetjan geti haldið á henni inn til læknisins…”

Í þessum skrifuðu orðum leit ég á sambýlismann minn, sem lá hinum megin á sófanum og gleypti í sig spennandi vísindaskáldsögu. “Ég er að uppgötva það að við misstum af frekar mikilvægu skrefi í tilhugalífi okkar,” sagði ég. “Nú?” svaraði hann. “Já, samkvæmt þessum tveimur bókum sem ég er búin að vera að lesa, þá ættir þú að vera löngu búinn að halda á mér inn til læknisins. Út af tognaða ökklanum, þú skilur. Hvernig átt þú annars að vita að þú elskir mig?” Hann virtist koma af fjöllum. Við komumst að þeirri niðurstöðu að það væri líklega óþarfi að fara í slíkar aðgerðir úr þessu.

Við hjá Lestrarklefanum sammæltumst þó um að þetta væru upplýsingar sem mikilvægt væri að koma á framfæri. “Því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum.” Lýðurinn verandi allir sem eru einhleypir. Fögnuðurinn verandi að það er loksins hægt að leggja niður Tinder.

Að öllu gamni slepptu, þá þjónuðu báðar bækurnar sínum tilgangi og skemmtu mér.  Í báðum bókunum var lögð áhersla á þau mikilvægu skilaboð að taka aðilanum sem maður á í ástarsambandi við eins og hann er. Þá fjölluðu báðar bækurnar að einhverju marki um mikilvægi þess að standa með sjálfum sér. Ef ég ætti að mæla með annarri bókinni umfram hina þá fannst mér Meðleigjandinn betur skrifuð, mér þótti samtöl flæða eðlilega og mér fannst höfundur hafa lagt mikla natni í persónusköpun. The Bride Test sker sig úr í því að hún fjallar um upplifun fyrstu og annarar kynslóðar innflytjenda og ameríska drauminn og byggir lauslega á reynslu móður höfundar.

Eitt verð ég samt að krefja rithöfunda ástarsagna um upplýsingar varðandi og það er af hverju þeir halda margir hverjir að það sé jarðarberjabragð af öllum konum. Ég hef svo margar spurningar. Hvað er svona kvenlegt við jarðarber? Er þetta jarðarberjabragð eins og þær hafi verið að borða jarðarber, eða jarðarberjabragð eins og þær hafi verið að bera á sig varasalva með jarðarberjabragði? Og ef konur jafngilda jarðarberjum, hvað væri þá sambærileg bragðtegund fyrir karlmenn? Bananar virðast hið augljósa val, en einhvern veginn held ég að jarðarberið sé valið út frá einhverjum öðrum breytum heldur en líffræðilegum. Hvað annað gæti verið klisjukennd karlmannleg bragðtegund? Grillkjöt?

“Hún eignaði sér varir hans, eignaði sér munn hans, eignaði sér logandi bálið þar inni sem bragðaðist eins og grillkjöt, bernes og karlmaður.”

Þetta er augljóslega ekki beinþýðing úr The Bride Test, því þessi setning er húrrandi kjánaleg. Sama setning kemur samt fyrir í bókinni, nema að það er hann sem er að kyssa hana og hún bragðast eins og vanilla og jarðarber og við einhvern veginn gúdderum það bara.

Svar óskast.

Lestu þetta næst

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...

Þú ert Blú!

Þú ert Blú!

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið.

Ljóðræn hrollvekja

Ljóðræn hrollvekja

Þegar bækur sitja í huga manns lengi eftir lestur þá hefur maður dottið niður á góða bók, það er...