Bernsku Ævars vísindamanns lauk í þessari fimmtu og síðustu bók um bernskubrek Ævars. Bókin tengist fimmta og síðasta lestrarátaki Ævars, líkt og hinar fjórar bækurnar um bernskubrekin. Börn, foreldrar og skólar voru dregnir út við hátíðlega athöfn í mars og fengu hlutverk í bókinni sem hefur verið lýst sem Avengers-bók bernskubrekanna, sem sagt þar sem allir þræðir fyrri bóka koma saman í einni allsherjar hasarbók.

Ævar Þór byrjar bókina á því að kynna fyrri bækur fyrir lesendur, sem er ágætis upprifjun. Svo taka við nokkrir formálar sem eru þó engu að síður mjög mikilvægir (fyrir þá sem sleppa formálunum stundum, ekki sleppa þeim í þessari bók). Bókin byrjar því með svakalegum hvelli og strax á fyrstu síðum er afhjúpað að Einherjinn, eitt versta illmenni bókanna og hliðarsjálf Ævars úr Ofurhetjuvíddinni, lifði af og ætlar að koma fram hefndum á Ævari hinum unga. Allar fyrri bækur koma við sögu í bókinni, en söguþráðurinn er hraður, stíllinn hnyttinn og skemmtilegur og spennan magnast frá kafla til kafla. Ævar þarf að kljást við risaeðlur, gervigreind sem þráir heimsyfirráð og illan Einherja en endurnýjar líka kynnin við Mána geimveru og fjölskylduna hans. Sem var ánægjulegt.

Söguþræðinum vindur mjög hratt áfram. Það gengur ekkert upp hjá Ævari, allt gengur á afturfótunum og allt stefnir í ægileg endalok. Endalokin verða mjög óvænt!

Rán Flygenring hefur séð um að myndskreyta bækurnar um bernskubrek Ævars vísindamanns. Teikningarnar eru kaótískar og skemmtilegar svarthvítar teikningar. Rán fylgir texta og lýsingum Ævars og útkoman verður frábærar og sprenghlægilegar myndir sem gera bókina svo mun ríkari.

Fjölmargar persónur

Í síðasta útdrætti af miðum úr lestrarátakinu voru fjórir skólar sem höfðu lesið hlutfallslega mest valdir og fengu hlutverk í bókinni. Ég get ekki ímyndað mér að það sé auðvelt að setja skóla sem eru staðsettir í sitthvorum landshlutanum inn í samhangandi söguþráð, þar sem sögupersónan þarf að glíma við risaeðlur og allt hitt. Ævari Þór tekst það þó en mér fannst sumt verða ansi langsótt stundum (en bækur Ævars eru svo sem ekki þekktar fyrir að láta raunveruleikann mikið hefta sig). Nöfn barna sem dregin voru út í síðasta lestrarátakinu voru einnig fleiri en venjulega eða sex (og í þetta sinn voru það eingöngu stelpur!). Þannig fékk hvert nafn, eða persóna, minni hluta af bókinni í heild. Í staðin fyrir að vera hjálparhella Ævars í gegnum bókina alla eða hafa stærra hlutverk, þá gengu persónur inn og út úr sögunni. Það var ögn ruglandi, en Ævar vísindamaður hinn ungi er mannblendinn maður og hann virtist ekki eiga í vandræðum með að kynnast nýjum vinum við hvert fótstig. Mér fannst þær hins vegar of tætingslegar og held að söguþráðurinn hefði notið sín betur hefðu persónur verið ögn færri.

Aðdáendur Ævars Þórs geta þó lesið bókina áhyggjulausir (eða, þið vitið nokkuð áhyggjulausir… ég hef aldrei séð Ævar lenda í eins miklum hrakförum og í þessari bók!), því bókin sjálf er æðisgengin, spennandi, rosalega fyndin og með mjög óvænt endalok.

 

 

 

Að lokum er gaman að velta fyrir sér hvað Ævar vísindamaður geri á unglingsárum sínum, orðinn þrettán ára í lok þessarar bókar. Bernsku hans er lokið! Kannski lendir hann næst í unglingaævintýrum?

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...