Harry Potter nostalgía og nýtt efni

Harry Potter kom fyrst út á íslensku í þessari kápu.

Ég tilheyri kynslóð sem ber eitt afskaplega auðkennanlegt einkenni öðrum fremur. Áður en lengra er haldið er best að taka strax fram að þetta er ekki ljúfsár pistill um veruleika konu sem tilheyrir hinni alræmdu aldamótakynslóð, þótt það væri vissulega efni í góðan pistil. Kannski þegar ég verð loksins búin að lesa Kids These Days: The Making of Millenials, sem bíður glóðvolg eftir mér á Kyndlinum. En nei, ég er að tala um annars konar auðkenni, nefnilega það sem gæti útfærst sem Harry Potter kynslóðin. Heila kynslóð mugga sem bíða enn eftir uglunni sem mun koma færandi hendi (væng, strangt til tekið) með bréfið sem býður þeim inngöngu í Hogwarts skólann. Kynslóðina sem flokkast í fernt, eftir heimavistunum fjórum; Gryffindor, Ravenclaw, Hufflepuff og Slytherin.

Nostalgía og notalegheit

Fyrsta Harry Potter bókin kom út árið 1997 (1999 í íslenskri þýðingu) og vakti strax stormandi lukku hjá börnum og ungmennum. Það hafði þó ekki gengið þrautalaust hjá rithöfundinum, J. K. Rowling, að koma bókinni út, en bókinni hafði verið hafnað af alls átta útgáfufyrirtækjum áður en Bloomsbury buðu henni útgáfusamning. Líklega hefðu fáir geta getið sér til um í hvað stefndi þegar fyrsta bókin kom út, en í dag hafa selst yfir 500 milljón eintök af bókunum, auk þess sem Harry Potter er risastórt vörumerki, undir hvers galdrahatti má finna bíómyndir, skemmtigarða, alls kyns varning, matvöru og margt fleira.

Ég var að detta í tvítugsaldurinn þegar síðasta bókin kom út, og stóð ásamt vinkonum mínum í röð fyrir utan Eymundsson á miðnæturopnun, til að tryggja mér bókina eins snemma og hægt væri. Síðan vörðum við nóttinni í heljarinnar náttfatagleðskap þar sem við lágum á dýnum á víð og dreif um stofuna og lásum hver sitt eintakið af bókinni. Komandi kynslóðir eru heppnar að eiga Harry Potter ævintýrið eftir, þótt þær fái ekki að upplifa spenninginn sem fylgdi því að bíða í röð eftir bókunum og lesa þær fram undir morgun, en ég ljóma öll af nostalgíu þegar ég hugsa um miðnæturopnanirnar.

Mikilvægt framlag til bókmenntasögunnar

Oft er litið á ævintýrabækur sem auðmeltanlegan veruleikaflótta, en það eru einmitt ævintýrin sem matreiða stórar hugmyndir um heiminn á viðráðanlegan hátt og gera börnum og unglingum auðveldara að meðtaka þær. Ást, hatur, dauði, ódauðleiki, stríð, friður, siðferði og siðleysi og allt það sem fellur á gráu svæðin þar á milli. Eitt af stærstu þemunum í Harry Potter er dauðinn, en það sem drífur aðal skúrkinn í bókaseríunni, Voldemort, til voðaverka er fyrst og fremst hræðsla hans við dauðann og þrá hans eftir ódauðleika. Í gegnum söguna alla spegla Harry Potter og Voldemort hvorn annan, en þegar á hólminn er komið er það fórnfýsi Harry Potter og hugrekki hans frammi fyrir dauðanum sem bjargar heiminum undan ofríki Voldemorts og aðskilur hann þannig frá Voldemort.

Ástin er annað mikilvægt þema í Harry Potter bókunum, en fyrst um sinn nýtur Harry sérstakrar verndar frá móður sinni, nánar tiltekið vegna þess að hún fórnaði lífi sínu til að hann fengi lifað. Ástin birtist lesandanum í frú Weasley, þegar hennar helsta martröð er tilhugsunin um að börnin hennar lifi átökin ekki af, og þegar lesandinn kemst að því að Harry birtist henni á meðal barnanna hennar. Ástin birtist í Dumbledore alltaf þegar hann ráðleggur Harry eitthvað. Ástin birtist í ástríðu Hagrid fyrir öllum dýrum og í baráttu Hermione fyrir velferð húsálfanna. Ástin er fólgin í einu litlu orði á blaðsíðu 687 í sjöundu bókinni (þið vitið hvað ég er að tala um…).

Að endingu er mikilvægt og viðeigandi að nefna þá áherslu sem J. K. Rowling leggur á víðsýni og fordómaleysi í Harry Potter bókunum. Í samfélagi sem verður sífellt fjölmenningarlegra, og í heimi sem virðist verða þröngsýnni með hverjum deginum, eru þetta mikilvæg þemu, hvort heldur sem er fyrir nýja kynslóð ungra lesenda eða okkur sem eldri erum.

Nýtt efni

Ég gæti talað endalaust um Harry Potter bækurnar og gagnsemi þeirra, en að endingu langar mig til að vekja athygli ykkar á því að í dag, 27. júní 2019, verða gefnar út tvær nýjar e-bækur sem gerast í Harry Potter heiminum, en samtals munu fjórar nýjar bækur koma út á þessu ári. Að sögn J. K. Rowling munu bækurnar ekki innihalda nýjar persónur eða nýjar sögur, heldur verða þær stútfullar af alls konar upplýsingum um galdrasöguna og þjóðsögum úr galdraheiminum. Bækurnar fara í sölu á heimasíðunni pottermore.com og Lestrarklefinn hvetur gallharða aðdáendur galdrasnáðans og vina hans til að láta þessar bækur ekki framhjá sér fara.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.