Bókamarkaður í boði leshópsins

Lilja Magnúsdóttir, úr áhöfn Lestrarklefans og bókaunnandi.

Lína Hrönn Þorkelsdóttir, ein af stofnendum leshópsins Köttur út í mýri

Síðustu daga hafa streymt mörg kíló af bókum í kassavís í Grundarfjörð á Snæfellsnesi. Tilefnið er bókamarkaður, sem þó er ekki gerður út af gróðafíkn heldur af einskærri ást og hugsjón fyrir bókum. Að baki markaðnum standa konur í lesópnum Köttur út í mýri. Leshópurinn Köttur út í mýri samanstendur af fimmtán konum sem hafa ástríðu fyrir bókmenntum og lestri. Konurnar munu standa vaktir á markaðnum til skiptis, en allt er unnið í sjálfboðastarfi. „Það er nefnilega svo dásamlegt með þetta sveitarfélag Grundarfjörð. Hér er hægt að fá hugmyndir og framkvæma þær,“ segir Lilja Magnúsdóttir, úr áhöfn Lestrarklefans og jafnframt einn af forsprökkum bókamarkaðarins. Köttur út í mýri hefur staðið á bak við fleiri hugmyndir og lestrarhvetjandi verkefnum. „Við gáfum til dæmis grunnskólanum lestrargrip, svona farandgrip sem er afhentur við skólaslit þeim bekk sem er bestur í lestri á liðnum vetri. Við ætlum að gerast bókaálfar í sumar og dreifa bókum um hvippinn og hvappinn. Síðan verður eitthvað um upplestur hjá okkur, bæði á bókamarkaðnum sem og á bæjarhátíðinni okkar í lok júlí. Bókalestur er okkur hjartans mál og við erum alltaf að láta okkur detta eitthvað í hug til að trana fram bókum og lestri.“

Býr að reynslunni

Barnabækur frá Bókabeitunni verður hægt að finna á markaðinum ásamt fjölmörgum öðrum bókaútgáfum.

Markaðurinn opnar föstudaginn 28. júní í Grundarfirði á Snæfellsnesi. Það er því tilvalið að hoppa inn á markaðinn til að krækja sér í eina eða tvær bækur til lesturs í útilegunni eða sumarbústaðnum. En hvaðan kemur hugmyndin að svona bókamarkaði og er ekki gríðarleg vinna á bak við hann? „Ég fékk þessa hugmynd, að vera með bókamarkað hér í Grundarfirði og bar hana upp á fundi leshópsins. Konurnar í hópnum tóku vel í þessa hugmynd og við ætlum að hjálpast að,“ segir Lilja. Lilja hefur áður unnið að skipulagninu bókamarkaðar af þessu tagi, en hún starfaði áður á Bókakaffinu á Selfossi. „Þar fékk ég að taka þátt í að vera með svona markað tvö sumur í vinnu hjá þeim.“

Eldri bækur verða líka til sölu, leitið bara í fornbókadeild markaðarins.

Það er í mörg horn að líta þegar koma á heilum bókamarkaði af stað. „Það þarf velvilja bæjarbúa, nokkrar duglegar hendur og löngun til að gera þetta án þess að sjá þetta sem gróðatækifæri.“ Líkt og annað sem tengist bókum þá er bókamarkaðurinn unninn í hugsjónavinnu. „Það verður enginn ríkur af því að selja bækur á Íslandi.“ Lilja segir þó að mjög vel hafi verið tekið í hugmyndina, bæði af bæjarbúum og af bókaforlögum sem selja bækur á markaðnum. „Þetta eru um tíu forlög sem senda bækur og þvílíkt skemmtilegt.” Síðusta vikan hefur farið í að taka upp bækur frá forlögunum. Þar kennir ýmissa grasa og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Meira að segja fornbækur eru komnar í hillu og bíða eftir því að komast á rétt heimili. „Konan sem vinnur í póstinum hér í Grundarfirði sagðist hafa haldið að það væru komin jól þegar bókakassar fóru að berast í töluverðu magni til póstsins hér,“ segir Lilja og hlær.

Fyrri reynsla hennar af vinnu við bókamarkað Bókakaffisins á Selfossi hefur þó reynst henni vel. „Þegar ég sendi skeyti á bókaforlögin þá kom ég því að í póstinum að ég hefði unnið á bókamarkaði sem Bókakaffið á Selfossi var aðili að. Kannski hjálpaði það mér við að fá forlögin til að taka mark á þessu. Síðan er Bjarni [Bjarni Harðarson] á Bókakaffinu búinn að vera mér mjög mikið innan handar, hann tók afar vel í það að senda mér fornbækur til að hægt væri að hafa almennilegt fornbókarhorn og við fengum frá honum 400 titla af dásamlegum fornbókum, elsta bókin er frá 1839.“

Vonast til að koma út á núlli

Lilja er hæfilega bjartsýn á roksölu á markaðnum. Þær lessystur róa ögn blint í sjóinn með markaðinn. Til að trekkja fólk að verða nokkrir viðburðir á markaðnum. „Hún Harpa sem er fyrirliði Bókabæjanna austanfjalls verður með fyrirlestur eitt kvöld og svo verða tónleikar og alls konar,“ segir Lilja. Þá verður einnig upplestur fyrir börn og krakkadagskrá á laugardeginum þar sem grundfirskir höfundar, Alma Dís og Ingi Hans, segja frá sínum barnabókum. Alma Dís skrifaði bók síðasta vetur í ritröðinni um Herramenn og Ungfrúr og Ingi Hans er höfundur barnabókanna um Tjúlla. Þau Ingi og Alma Dís ætla að lesa upp úr þessum verkum sínum en einnig ætlar Lilja að lesa kafla úr uppáhalds barnabókinni sinni, Kattasamsærinu.

Takmark bókamarkaðsins er ekki að maka krók þeirra sem standa að baki honum. „Við ætlum að láta gott af okkur leiða,“ segir Lilja. Öll vinna sé sjálfboðavinna en greiða þarf fyrir aðstöðu og annað. „Ef svo skyldi verða að einhverjar krónur verði afgangs þá látum við gott af okkur leiða, kaupum bækur og gefum kannski leikskólanum, dvalarheimilinu hér á staðnum eða eitthvað í þeim dúr.“

Bækur í tísku

Það er fjögur ár síðan Lilja fluttist búferlum á Snæfellsnesið frá vöggu Bókabæjanna austanfjalls, Selfossi. Hún segir að það sé rík menning á Snæfellsnesi og bókmenning sé rísandi. „Ég upplifi að bækur séu að komast í tísku, eða alla vega vona ég það og það er gríðarleg orka á þessum stað. Enda Snæfellsjökull og Kirkjufellið verndaröfl okkar sem hér búa,“ segir Lilja brosandi. „Hins vegar þarf ég iðulega að bíta í tunguna á mér þegar fólk – meira að segja fólk sem les mikið – segir „ég er alveg hætt að kaupa bækur, fæ þær bara lánaðar“. Hvað ef allir hugsuðu svona? Hvað ef allir myndu hætta að kaupa bækur? Þá yrðu engar bækur gefnar út. Af hverju er það alltaf annarra að sjá um að bækur séu keyptar og útgáfunni þar með viðhaldið?“ segir Lilja. Hún segist skilja vel að ekki sé hægt að safna bókum endalaust „en það er hægt að deila þeim áfram”.

Bókamarkaðurinn á Snæfellsnesi samanstendur mest af bókum beint frá bókaforlögunum og svo auðvitað fornbókahornið góða . „Nei, það verða nýjar bækur sem ilma og iða af spenningi yfir að verða lesnar og keyptar og svo gefnar áfram og það er ekkert eins dásamlegt eins að opna stóran pappakassa fullan af nýútkomnum bókum. Ilmurinn af þeim er betri en jólin liggur við,“ segir Lilja sem einmitt þessa dagana er að rífa upp hvern bókakassann á eftir öðrum og því líklega í alsæluástandi. Lilja segir að hún sé spennt að sjá hvernig bókamarkaðurinn eigi eftir að pluma sig í sumar og neitar því ekki að möguleiki sé á því að gera markaðinn að árlegum viðburði á Snæfellsnesinu.

Hérna er markaðurinn.

Lestu þetta næst

Íslenska kakóköltið

Íslenska kakóköltið

Guðrún Brjánsdóttir kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2020 þegar hún vann handritasamkeppni...

Of flöt frásögn

Of flöt frásögn

Violeta er nýjasta skáldsaga Isabel Allende sem kom út á síðasta ári og stuttu síðar í íslenskri...

Blæðir þér?

Blæðir þér?

Í kvöld heiti ég Sara. Pabbi minn, sem kom með mér í leikhús, heitir líka Sara. Sama gildir um...

Er hægt að vera svona?

Er hægt að vera svona?

Nú í mars mánuði kom út hjá bókaútgáfunni Björt bókin Verity eftir Colleen Hoover í íslenskri...