Þessi færsla er tileinkuð öllum þeim sem eiga baðkör. Ef þú átt ekki baðkar þá veit ég ekki alveg hvað ég á að gera fyrir þig en það væri mögulega hægt að útfæra það sem á eftir kemur fyrir sturtur, fótaböð og klárlega heitapotta.
Þessi færsla er nefnilega tileinkuð baðbókinni. Hvað er baðbók? Heyri ég þig spyrja, hljóðlega en ákaft á meðan þú nýtur þess að eiga augnablik út af fyrir þig og vafra um á Lestrarklefanum (besta vafrið noda bene). Baðbók er einfaldlega bók sem lesin er einungis í baði. Eða svona nánast einungis. Staðalbúnaður sem þarf að hafa fyrir gott baðbókarmóment er þessi:
- Baðkar, heitur pottur, fótabað ef þú átt bara sturtu.
- nánari útfærsla fyrir sturtur verður fabúleruð neðar í færslunni.
- Baðkoddi
- Fæst í Bauhaus síðast þegar ég vissi og gerir baðbókaraugnablikið þeim mun meira næs. Festur á baðkarið með sogskálum. (Sjá mynd)
- Bók sem þú fílar eða langar að lesa
- Ró og næði
- Rauðvínsglas eða bjór. Má líka vera vatn (fer eftir vikudegi og öðru)
Ég byrjaði mína baðbókarvegferð fremur ung, nánar tiltekið sem smábarn, en þá var bókin lesin fyrir mig af Bessa Bjarnasyni á kasettu. Oftast voru þetta Grimmsævintýrin eða ýmis leikrit. Síðan þegar ég eltist og lærði að lesa þá fór ég að útfæra baðbókina nánar og í dag er hún ómissandi hluti af þeim tíma sem ég á út af fyrir mig. Nú veit ég, kæru lesendur, að tími sem foreldrar og fullorðnir eiga út af fyrir sig er oft ekki mikill en ég sem foreldri smábarns hef komist að því að besti tíminn fyrir baðbókarstund er einmitt þegar börnin eru sofnuð. Í staðinn fyrir að horfa á enn einn þáttinn þá læt ég renna í gott og heitt bað, smelli á mig hárspöng (kisueyruhárspöng sem ég keypti fyrir dóttur mína í H&M en nota svo sjálf dagsdaglega), laga baðkoddann að mínum þörfum og vel mér gaumgæfilega þá bók sem á að vera lesin í baðinu að þessu sinni.
Nú veit ég að margir hugsa:
Hvað er að þessari píu! Bók í baði! Fussum svei! Bókin blotnar og allt fer út um allt!
Við þetta fólk segi ég: Eins og með allt þá þarfnast þetta ferli þróunar og æfingar. Ég er búin að þróa með mér aðferð sem gerir það að verkum að baðbókin blotnar nánast ekkert. Stundum blotnar hún aðeins meira en ekkert en það er bara ef það er eitthvað svakalegt að gerast. Aðferðin sem ég nota er….. daddarararramm! ÞVOTTAPOKI. Ég hef alltaf góðan þvottapoka við höndina og þurrka á mér hendurnar ef þær blotna. Vissulega, ef ég á að vera hreinskilin, er aldrei hægt að komast algjörlega hjá því að bókin blotni en það er alls ekki það versta í stöðunni. Það er alltaf hægt að þurrka hana ef allt fer til fjandans.
Fyrir eigendur sturtu:
Mögulega væri hægt að gera þetta þannig að þú myndir sitja í sturtunni með bókina fyrir utan strauminn? Eða pakka henni inn í plastpoka. Veit samt ekki alveg með það. Best væri að búa til apparat þar sem gúmmíhanskar eru festir á plastkassa sem bókinni væri komið fyrir í. Þannig gætirðu lesið án þess að hafa áhyggjur. Svoleiðis er oft notað á rannsóknarstofum. Allavega samkvæmt þeim bíómyndum sem ég hef séð en annars er ég ekki mikið að hanga inn á rannsóknarstofum, sem betur fer.
Hins vegar held ég að besta lausnin væri einfaldlega bali og fótabað. Þá gætirðu setið í góðum stól, nostrað við fæturnar á þér með heitu vatni og lesið góða bók.
Mín baðbók þessa stundina er Allt hold er hey eftir Þorgrím Þráinsson, fjalla um hana síðar! Að lokum vil ég segja, njótið afskaplega vel í baðinu, pottinum, fótabaðinu nú eða sturtunni með góðu bókina ykkar! Baðbókarstund gefur nefnilega svo sannarlega bókagull í mund.