“Stundum er ég spurður af hverju ég hafi farið til Parísar í nám. Ég er alltaf jafn fjarri því að geta svarað því afdráttarlaust með einni eða tveimur skýrum ástæðum eins og blaðamenn vilja.

Svo mætti alltaf spyrja þá sem alltaf vilja ótvírætt svar: hver er ekki heillaður af áru Parísar, ímynd Parísar? Ég bara spyr: Er ekki bara eðlilegt að fara þangað? Mig langar stundum að spyrja spyrjandann á móti: Hefði ég átt að fara eitthvert annað?”

Svona tekur Sigurður Pálsson til orða í bók sinni Minnisbók sem ber að geyma æviminningar um tíma hans sem ungur maður í Frakklandi, mest af í París. Bókin kom út árið 2007 og varð svokölluð instant klassík; bókin hlaut mjög góðar viðtökur gagnrýnenda og lesenda og var henni hampað sem einhverri bestu endurminningabók sem hefur komið út á Íslandi. Auk þess hefur hún verið endurprentuð og leitt af sér tvær aðrar endurminningabækur Táningabók og Bernskubók.

Sigurður Pálsson var eitt fremsta ljóðskáld Íslendinga og skildi eftir sig þegar hann lést árið 2017 alveg ótrúlegt magn af ljóðabókum, leikritum og þýðingum svo eitthvað sé nefnt. Minnisbók hlaut Íslensku Bókmenntaverðlaunin 2007, og er eitt vinsælasta verk hans. Ég hafði lengi vitað af þessari bók sem var mjög vinsæl meðal Frakklandsunnenda í fjölskyldu minni og lét loksins af því verða að lesa hana á dögunum.

Vissi ekki hvers vegna hann Valdi Frakkland

Bókin hefst með ferðalagi nýstúdentsins Sigurðar Pálssonar haustið 1967 þegar hann var 19 ára gamall frá Íslandi til Toulouse í Frakklandi með stuttu stoppi í París. Hann ætlaði til Toulouse í frönskunám en vissi eiginlega ekki hvers vegna, né hví Toulouse varð fyrir valinu sem staðurinn til að læra frönsku. Örlögin virtust þarna ráða för en hann kom til með að verða mikilvægur þýðandi franskra bóka og meðal fróðustu Íslendinga um franska menningu. Minnisbók spannar tæplega tvo áratugi og við lok hennar er Sigurður búinn að ljúka námi í leikhúsfræðum í París og er á leið heim til frambúðar.

Mér fannst bókin fara smá hægt af stað, en áður en ég vissi af var ég djúpt sokkin, komin á fremsta bekk í veröld Sigurðar sem ungur námsmaður á tíma stúdentamótmæla og Bítlaæðis í einhverri mest spennandi borg heimsins. Bókin kom út þegar Sigurður var sextugur að aldri og það er ótrúlegt hvernig honum tekst að líta til baka með reynslu síðari ára en samt varpa fram einlægri mynd af ungum manni sem á margt eftir ólært og á einmitt eftir að “verða eitthvað.” Hann gaf út sína fyrstu ljóðabók árið 1975 en þá var hann einmitt fluttur heim frá fyrstu dvöl sinni í Frakklandi. Hver kafli er stuttur eins og Sigurður sé að hleypa manni inn í minni sitt í sekúndubrot. Hver og einn segir frá einhverju atviki, allt frá þungum og erfiðum atburðum til sprenghlægilegra sagna.

Í innsta hring Frakka

Sigurður var heimsborgari og virðist samkvæmt frásögninni hafa verið það í eðli sínu því þrátt fyrir að mæta til Frakklands sem nýstúdent, blautur á bakvið eyrun, virtist hann finna sig hratt og var komin með penna í hönd á frægum kaffihúsum áður en langt var um liðið. Endurminningar hans eru einstakar því hann lifði og hrærðist í sama umhverfi og heimamennirnir. Hann endaði á að búa í tvö ár á alfrönskum stúdentagörðum og vera mest á þeim tíma í kringum Frakka í þeirra innsta hring. Enda segir hann sjáfur frá:

Aldrei datt mér í hug að láta það henda, sem margir höfðu ítrekað í mín eyru áður en ég fór fyrst til Frakklands, að ég skyldi út á land og alls ekki til Parísar, þar myndi maður ekki kynnast neinum Frökkum, ekkert nema Íslendingum og enskumælandi útlendingum og til sönnunar voru manni sagðar sögur af einhverjum sem hefðu komið heim ágætir í ensku eftir Parísardvöl.

Sigurður dvaldi tvisvar til lengdar í Frakkland á árunum 1967 til 1982 en dvalir hans fylgdu honum út ævina eins og hann orðar það sjálfur: “Hér var ég útlendingur og heimamaður í senn…Þegar ég kom aftur heim til Íslands frá Frakklandi, þá var ég kominn með gestsaugu, var enn og aftur utanaðkomandi. Hef hvergi verið algjörlega heimamaður, verð það ekki úr þessu. Myndi ekki vilja það, jafnvel þótt það væri í boði.”

Bókin mun örugglega ná sérstaklega vel til samtímafólks Sigurður. Hann flutti til Parísar rétt fyrir stúdentamótmælin 1968 og lita þau og sá tími mikið frásögnina. Parísarunnendur munu ekki síður hafa gaman af bókinni sem geymir heilmikinn fróðleik um borgina og hugrenningar um þróun hennar í gegnum tíðina. Það er svo bara dásamlegt fyrir alla að lesa endurminningar eftir ljóðskáld, því fáir velja jafn falleg og viðeigandi orð til að lýsa persónuvexti sínum.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.