Nú á árinu kom út í íslenskri þýðingu önnur bókin um Gamlingjann eftir Jonas Jonasson. Ég las þá fyrri af mikilli áfergju á sínum tíma svo ég var spenntur að sjá hvaða ævintýri Jonas Jonasson gæti mögulega prjónað aftan við gríðarlega viðburðaríku ævi Allans Karlssonar. Rétt er að benda þeim sem ekki hafa lesið fyrri bókina um Gamlingjann að nema hér staðar því ég mun fjalla nokkuð um söguþráð hennar og eitthvað verður um spennuspilla.
Fyrri bókin um Allan kom út árið 2011 og byrjar á að fjalla um uppvöxt hans í sænskum smábæ í byrjun tuttugustu aldar. Hinn ungi Allan fær fljótlega mikinn áhuga á sprengjum og algjört óþol á tali um stjórnmál. Eftir að foreldrar hans deyja erfir hann hús þeirra og sprengir það upp, er handtekinn og eftir stutta yfirheyrslu vistaður á geðveikrahæli. Þar er Allan „tekinn úr sambandi“, en til allrar óhamingju var ekki búið að finna upp mannréttindi fyrir andlega veikt fólk þetta snemma á tuttugustu öldinni. Allan yfirgefur hælið sem frjáls maður eftir nokkurra ára vist og heldur stað í leit að einhverju spennandi. Hann bætir upp fyrir kynlífsleysið með því að fá sér oft og mikið neðan í því og sú iðja hans í bland við sprengjuáhugann, ævintýraþrá og almenna munnræpu verður þess valdandi að Allan ferðast vítt og breitt um heiminn, hittir þar stærstu nöfnin í stjórnmálasögu tuttugustu aldarinnar og endar hundrað ára á Balí með skjalatösku fulla af illa fengnu fé og góðan vin sinn Julius til að deila því með. Þar endar fyrri bókin og sú síðari tekur við.
Sænskur Svejk ferðast um heiminn
Allan Karlsson er mögnuð persóna. Gáfaður, sprengjuglaður, drykkfelldur og almennt indæll maður sem lætur sér standa alveg á sama um pólitík. Nú þegar ég las síðari bókina um Allan hugsaði ég með mér að Allan Karlsson væri nokkuð svipuð týpa og hinn frægi dáti Svejk sem Jaroslav Hašek skrifaði um. Báðir eru þeir með óstöðvandi munnræpu og tala alla samferðarmenn sína í kaf ásamt því að vera sjúklega drykkfelldir og ferðast frá einu ævintýri til annars á einhverjum óendanlegum fyllerístúr. Stærsti munurinn er þó líklega gáfnafar þeirra en Svejk átti alltaf að vera óttalegur vanviti á meðan Allan er bráðgáfaður.
Að því sögðu verð ég að viðurkenna að ég var nokkuð óviss um að Allan yrði jafn skemmtilegur nú og hann var í fyrri bókinni. Í henni var fjallað um allt hans líf og stórviðburði síðustu aldar en í þessari síðari bók er nútíminn í brennidepli. Og Jonas Jonasson spennir bogann ansi hátt þegar hann tæklar alþjóðastjórnmál nútímans í öllu sínu veldi. Sagan er að miklu leyti lík fyrri bókinni um Allan en þó með þeirri stóru undartekningu að nú er því sleppt algjörlega að flakka fram og aftur í tíma til að rifja upp gömul ævintýri hans. Í staðinn eru fyrstu persónu frásagnir helstu stjórnmálaleiðtoga heims notuð til að brjóta upp frásögnina. Trump, Kim Jong-un, Pútín, Merkel og fleiri koma við sögu og það er virkilega ferskt að fá innsýn inn í hugarheim þeirra. Sagan hefst þar sem fyrri bókin endaði og eins og venjulega flækist Allan inn í einhverja milliríkjadeilu og Julius vinur hans eltir.
Ég ætla ekki að fara neitt frekar í söguþráð bókarinnar en sagan er grípandi og atburðarásin er hröð og vel uppbyggð. Þýðing Nönnu B. Þórsdóttur er virkilega góð og kemur húmornum vel til skila. Ég verð þó að segja að þrátt fyrir að vera mikil skemmtun og prýðisgóð afþreying nær þessi síðari bók um Gamlingjann ekki sömu hæðum og sú fyrri. En ef þú ert að leita að bók sem er gott að hafa í bústaðinn gætiru gert margt vitlausara en að velja þessa. Bókin er nokkuð hraðlesin, sniðug og afspyrnu fyndin og ég get jafnvel mælt með því að fá sér drykk með lestrinum, Allani Karlssyni til samlætis.