Christie og besta glæpasaga allra tíma

Ég elska Agöthu Christie. Ég segi þetta ekki um margar manneskjur sem ég hef ekki komist persónulega í kynni við. En varðandi frú Christie er kannski bara einfaldara að spyrja af hverju maður myndi ekki elska hana? Það er ekki að ástæðulausu að hún er kölluð drottning glæpabókmennta, hún gaf út tugi æsispennandi glæpasagna með fjölbreyttum söguhetjum á lífsleiðinni, en Hercule Poirot og Miss Marple eru óneitanlega þær frægustu. Hún var metsöluhöfundur á tímum þar sem karlar voru í miklum meirihluta starfandi rithöfunda. Einnig var hún sinnar eiginn gæfusmiður: eftir að fyrsti eiginmaður hennar skildi við hana tók hún saman við fornleifafræðinginn Sir Max Mallowan og ferðaðist út um allt í austurlöndum nær og staðsetti margar af sínum frægustu glæpasögum þar.

Ég man það mjög vel hvenær ég komst fyrst almennilega í kynni við verk Christie. Ég hafði örugglega séð bækur hennar liggja á flestum heimilum og séð út undan mér leikna þætti gerða eftir sögum hennar. Það var ekki fyrr en eitt kvöld í menntaskóla sem ég kynntist Christie almennilega. Ég var í mat heima hjá ömmu og eftir aðalréttinn duttum við inn í útfærslu á Miss Marple bókinni A Murder is Announced sem var sýnd á DR. Þá uppgötvaði ég almennilega þennan höfund. Við vorum báðar niðursokknar þarna saman í þættinum, enda hefur amma alltaf haft mjög gaman af Agöthu Christie, og eftir það vissi ég að ég þyrfti að fara að kynna mér verk frú Christie betur.

66 verk í boði

Það er ekki amalegt að uppgötva það að rithöfundur sem maður er spenntur fyrir að lesa hafi skilið eftir sig hvorki meira né minna en 66 glæpasögur, auk 14 smásagnasafna. Ég byrjaði að velja einhverjar frægar bækur af handahófi og rakst þannig á mína klassík The Murder of Roger Ackroyd. Bókin sem kom út árið 1926 hefur bara elst ansi vel. Hún er ein af fyrstu bókunum sem hinn dásamlegi belgíski rannsóknarlögreglumaður Hercule Poirot kemur fyrir í (en meira um hann og dálæti mitt á honum síðar í þessum pistli). Poirot er sestur í helgan stein í rólegu þorpi og reynir að einbeita sér að grænmetisræktun. Það líður þó ekki að löngu áður en vinur hans iðnfrömuðurinn Roger Ackroyd er myrtur og Poirot er fenginn inn til að leysa málið.

Kosin besta glæpasaga allra tíma

Bókin er að mörgu leyti eins og hefðbundin Christie saga: það koma margar persónur fyrir, morðið á sér stað í rólegu þorpi og hálfur íbúafjöldinn kemur til greina sem morðingi, en Poirot tekst þó með “gráu heilasellunum” sínum að lokum að leysa málið. Það sem gerir hana frábrugðna öðrum bókum Christie er óvæntur endir sem (líklega) enginn lesandi sá fyrir, sem var á þeim tíma nýstárlegt fyrirbæri í bókmenntum. Því er ekki annað en hægt að mæla með þessari sígildu sögu. En ég er ekki ein um að mæla með henni – hún var árið 2013 kosin besta glæpasaga allra tíma af 600 meðlimum rithöfundasambandsins Crime Writers’ Association. The Murder of Roger Ackroyd er einnig talin hafa haft mikil áhrif á þróun glæpasagnaformsins.

Fyrir þá sem vilja kynna sér Agöthu Christie má hiklaust mæla með The Murder of Roger Ackroyd auk fjölda annarra stórkostlegra bóka eftir hana eins og Murder on the Orient Express, And Then There Were None, The Murder at the Vicarage, Hercule Poirot’s Christmas og Three Act Tragedy svo einhverjar séu nefndar. Bækurnar hennar eru misskemmtilegar og kemur mismikið á óvart hver morðinginn er að hverju sinni, en ég get nánast fullyrt að engar þeirra eru leiðinlegar.

Poirot bækurnar eru í sérlegu uppáhaldi hjá flestum aðdáendum Christie og get ég mælt með flestum þeirra sem og einstaklega vönduðum þáttum BBC/ITV með David Suchet í hlutverki Poirot sem hafa verið sýndir á RÚV. Undir þetta taka fleiri úr áhöfn Lestrarklefans, meðal annars Erna Agnes sem segist sjálf elska þessa þætti út af lífinu. Ég verð þó að taka fram að útfærslan á The Murder of Roger Ackroyd var meðal þeirra sístu sem ég hef séð af þáttunum. Allt það sem gerir bókina svo sérstaka, sér í lagi óvænti endirinn, nær því miður ekki að komast jafn vel til skila til sjónvarpsáhorfenda eins og lesenda. Því ráðlegg ég þeim sem vilja kynna sér þessa klassísku glæpasögu að fara beint í upprunalega textann.

 

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...