Morð í fríi & Poirot leiklesinn af afa

Reyndar ekkert sérstaklega skemmtileg bókakápa en samt lýsandi fyrir stemminguna.

Stundum á föstudögum þá lít ég á sjónvarpsdagskrána. Það er alltaf þetta klassíska; Vikan með Gísla og svo stundum ein skemmtileg mynd. Ég verð sjaldan jafn glöð eins og þegar ég sé að Hercule Poirot, vinur minn, er á dagskránni; búinn að plana enn eitt fríið sitt sem myndi ekki vera frí enda er iðulega einhver drepinn í návist hans. Ég sko elska Poirot myndinar út af lífinu. Það er fátt betra að mínu mati en David Suchet að leika hinn óttalega kjagandi og spjátrúngslega belgíumann sem ber höfuð og herðar yfir aðra Jón spæjó.

Það var því gleði þegar ég sá að það var komin hljóðbók í lestri Arnar Árnasonar á fyrstu bók Agöthu Christie, Myrkraverk á Styles-setri. Ég skemmti mér konunglega yfir þessar bók og ég get ekki ímyndað mér nokkurn mann betri til að ljá Poirot rödd sína en einmitt Örn sjálfan, afa, Árnason. Hann tekur þetta alla leið. Fransk-belgíski hreimurinn er svo svakalegur að ég heyrði hann spíta á mígrafóninn. Algjörlega brillíant að mínu mati.

Magnað plott

David Suchet sést hér sem Hercule Poirot

Sagan er í anda Agöthu Christie en þessi er jafnramt talin vera ein af hennar bestu. Sagan hverfist um Cavendish / Inglethorp fjölskylduna sem býr að Styles-setri en þar er gestkomandi Hr. Hastings, sem jafnframt er góðvinur Poirot. Morð er síðan framið og Poirot er strax kallaður til enda er hann í fríi í sama bæ. Ég veit ekki með ykkur, en ég myndi klárlega hoppa upp í næstu lest ef ég myndir frétta af Poirot á næsta bæ – fólk drepst í unnvörpumí kringum hann, karlangann.

Ég ætla ekki að fara nánar ofan í framvindu sögunnar en ég get þó sagt að hinn afar frægi lokafundur Poirot með hóp hinna grunuðu og fjölskylduvina á sér að sjálfsögðu stað í lok bókar þar sem hann opinberar snilli sína og segir frá hver morðinginn er. Yfirleitt er plottið stórkostlegt og það voru engir vankanntar hér á ferð- ég skil hreinlega ekki hvernig Christie datt þetta plott í hug. En jú, jú blessuninni tókst að skrifa eina heljarinnar spennubók sem var þar að auki full af furðulegum erkitýpum og skemmtilegum samtölum.

 

Lestu þetta næst