The Flatshare kom út í Bretlandi í vor og naut strax mikilla vinsælda. Ég ákvað þó að lesa hana í þessum mánuði eftir að RÚV fjallaði um útgáfu bókarinnar í þýðingu Höllu Sverrisdóttir þar sem blaðamaður kallaði hana “fullkomna bók fyrir sumarleyfið”.  Ég tek undir með gagnrýnanda RÚV að þetta sé mjög góð sumarleyfisbók en það kom mér helst á óvart hve miklu meiri dýpt var í henni en ég átti von á.

The Flatshare, sem ég las í upprunalegu útgáfunni, er fyrsta bók Beth O’Leary. Hún segir frá Tiffy og Leon og er skrifuð frá sjónarhorni þeirra beggja. Tiffy er nýskilin við kærastann sinn og þarf að flytja út úr íbúðinni hans en á lítinn pening til að verja í leigu. Leon er hins vegar að leita að auka pening og dettur í hug að leigja út íbúðina sína hálfan sólarhringinn þar sem hann vinnur næturvaktir. Því liggja leiðir þeirra saman þegar Tiffy sér auglýsingu fyrir íbúð Leon og líst vel á að leigja hana fyrir 350 pund á mánuði gegn því að vera ekki í henni milli 9 og 18 virka daga þegar Leon leggur sig eftir næturvaktirnar. Þau gera því með sér leigusamning* og hittast ekkert í persónu svo mánuðum skiptum (um helgar er Leon hjá kærustunni sinni) en skiptast í staðinn á skilaboðum í gegnum post-it miða sem þau líma út um alla íbúðina. Hægt og rólega byrja þau að kynnast hvort öðru og innra lífi hvers annars í gegnum þessi semskipti, einn daginn hittast þau svo í persónu og eins og glöggir lesendur geta giskað á hrífast þau hvort af öðru og hefst ástarævintýri þeirra á milli. Ástarsambandið gengur þó ekki áfallalaust fyrir sig og mörg gamansöm atvik eiga sér stað í gegnum bókina.

Dulið ofbeldi

Sem fyrr segir er þetta fyrsta bók Beth O’Leary, en ótrúlegt en satt tókst henni búsettri í London að skrifa hana á lestarferð sinni til og frá vinnu yfir sex mánaða tímabil**. Þetta er engu að síður vel skrifuð saga sem er full af húmor. Bókina mætti auðveldlega flokka sem “chick lit” eða “skvískubókmenntir” en það er þó meiri dýpt í henni en týpískum slíkum ástarsögum sér í lagi vegna opinskárra og raunsærra lýsinga á andlegu ofbeldi sem Tiffy var beitt af Justin fyrrverandi kærasta sínum. Hægt og rólega áttar Tiffy sig á að hún hafi verið fórnarlamb “gaslighting” eða “gaslýsingar” þar sem kærastinn hennar braut hana niður og náði að sannfæra hana um að hún væri sífellt að gera mistök í daglegu lífi. Bókin er því ekki síður um það hvernig Tiffy nær að byggja sig aftur upp eftir þessa reynslu en um ástarsamband þeirra Leon.

Heilt yfir er bókin afbragðsgóð, O’Leary nær að dansa vel á línunni milli húmors og alvarleika og er hún ansi góður penni; sjónarhorn Tiffy er skrifað á mjög týpískan hátt og nær lesandinn því strax að tengja við hana, sjónarhorn Leon er hins vegar skrifað í stíl sem minnir á Dagbók Bridget Jones og er mun fyndnara. Þessi blanda gerir bókina auðlesanlega en á tímabili átti ég einfaldlega erfitt með að leggja hana frá mér.

Anna Margrét fjallaði í vor um bókina í pistli sínum um „konur í klípu“ og ég tek undir með henni að rétt eins og aðrar hefðbundnar rómantískar gamanbækur dettur The Flatshare í ákveðnar klisjur, til að mynda að Tiffy tognar á ökkla úti á sjó til þess að Leon geti haldið á henni upp á hótel rétt eins og í hefðbundinni rómantískri gamanmynd. Engu að síður fannst mér hún mun betri en meðalástarsaga; persónusköpunin er góð og á það ekki síður við um auka persónur í bókinni, bestu vini Tiffy, Mo og Gerty, og bróður Leon, Richie, sem situr saklaus í fangelsi. Ástarsagan er í brennidepli í bókinni en aðrir hliðarsögur í bókinni – barátta til að koma Richie úr fangelsi, og leit Leon að gömlum kærasta stríðshetju sem hann er að annast á líknardeild – eru ekki síður áhugaverðar og skapa mjög skemmtileg atvik.

Ég mæli með að fólk lesi þessa frumraun O’Leary hvort sem á sumri eða annarri árstíð, en manni hlýnar einfaldlega um hjartarætur við lok lesturs. Ég tek undir með gagnrýnanda RÚV að það hefði e.t.v. mátt stytta söguna og sérstaklega tel ég að hefði mátt sleppa lokakaflanum, en hann er engu að síður í takt við því sem við má búast í ástarsögum.

 

*Sem íbúi í London get ég staðfest að mjög margir myndu samþykkja þennan samning sem myndi lækka leiguverð hefðbundins íbúa um ca helming.

**Á síðustu sex mánuðum hefur mér tekist að nýta lestrarferðir mínar til og frá vinnu í London til að endurhorfa á klassíska þætti eins og Ljóta Betty og Monk.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...