Topp tíu hlutir sem harðstjórar geta gert til að halda völdum (sjáið myndirnar!)

Prinsinn (ít. Il Principe), eða Furstinn  eins og hún heitir á íslensku, er verk eftir Niccoló Machiavelli. Verkið kom út árið 1532, fimm árum eftir dauða höfundar þess en talið er Machiavelli hafi skrifað þetta sem nokkurs konar umsóknarbréf til stöðu ráðgjafa hjá Medici-ættinni en hún réði lögum og lofum í Flórens á þessu tímabili. Til að setja hluti í samhengi þá er landið Ítalía sem við þekkjum í dag ekki til í byrjun 16. aldar. Landsvæðið er það sama en ekki undir einni stjórn heldur skipt í mörg mismunandi borgríki og var Flórens eitt slíkt. Verkið er ekki skáldsaga og heldur ekki heimildarverk eða sagnfræðirit. Það er heimspekilegs eðlis frekar en nokkuð annað og sjálfur hef ég aldrei lesið neitt svipað af efnistökum og stíl. Ég las bókina á ensku í þýðingu Harvey C. Mansfield.

 

Fjársjóðskista fyrir söguperra

Öll bókin fjallar um hvernig Prinsinn gæti hegðað sér í hinum ýmsu málum. Öll bókin er skrifuð í þeim stíl að talað er um Prins í þriðju persónu og góðar og slæmar ákvarðanir sem hann gæti tekið í ýmsum efnum. Sumt snýr að diplómasíu en annað að herkænsku en oft blandast þetta saman. Stór hluti verksins er upptalning á sögulegum orrustum eða pólitískum ákvörðunum sem eru nálægt samtíma Machiavellis nema hvað að hann sjálfur telur upp hvaða ákvarðanir hinir og þessir stórhöfðingjar tóku og bætir svo við hvað þeir hefðu átt að gera til þess að ná betri árangri. Þannig verða sumir kaflar alveg ótrúlega sértækir og fyrir mann eins og mig sem ekki er sérfræðingur í 15. aldar smáorrustum og pólitík í Suður-Evrópu getur lesningin stundum orðið nokkuð leiðigjörn. Ég er þó viss um að þetta sé stórgóð skemmtun og hárnákvæm greining á málunum fyrir fólk sem betur er að sér í þessum efnum en ég.

Margir kaflar eru þó ekki jafn sértækir og eru nokkuð almenns eðlis, ekki bundnir við eina sérstaka orrustu eða vandamál eins ákveðins lénsherra árið 1462. Margir kaflar bera yfirskriftir eins og „Hvað skal gera ef borgarbúar í nýhertekinni borg eru með uppsteyt“ eða eitthvað slíkt og þar eru veitt góð ráð og öll eiga þau það sameiginlegt að tilgangurinn helgar meðalið. Það er ekkert sem er heilagt í stríði og stjórnmálum samkvæmt Machiavelli og aðeins hinir miskunnarlausu sem lifa af. Og þaðan kemur hugtakið Machiavellískt (e. Machiavellian) sem gjarnan er notað í poppmenningu um sérstaklega óforskammaða einstaklinga sem ætla að ná frama með hvaða ráðum sem er.

 

Blóðþyrsti rustinn og hinn góði herra

Bókin rennur ágætlega áfram þrátt fyrir að fjalla um það sem margir myndu kalla nokkuð þurrt efni, her- og stjórnkænsku. Margar lausnir höfundar á hinum ýmsu vandamálum höfðingja eru fremur frumlegar og yfirleitt úthugsaðar og því mjög áhugaverður lestur. Ein slík er lausn Machivellis á vandamálinu sem ég nefndi að ofan, „borgarbúar í nýhertekinni borg eru með uppsteyt“, en hún hljóðar þannig að fyrst á að senda blóðþyrstan rusta til borgarinnar til að halda uppi lögum og reglum, setja á útgöngubann og refsa íbúunum með limlestingu eða dauða. Þetta gangi þó ekki til lengdar og Machiavelli segir að betra sé að almúganum sé nokkuð vel við þig og því megi eftir nokkra mánuði eða svo, þegar blóðþyrsti rustinn er búinn að drepa nógu marga til að koma á lögum og reglu, henda téðum rusta fyrir lýðinn til að rífa í sig og setja vinsælan og góðlegan mann í embætti hans. Þannig komir þú út sem maðurinn sem frelsaði lýðinn frá harðstjórninni þó svo að þú hafir upphaflega sett harðstjórann í embætttið. Sniðugt.

Verkið er uppfullt af ráðum í þessum dúr og sum þeirra eru svo ótrúlega undirförul og bíræfin að þau eru næstum því fyndin. Þar er til dæmis eitt ráðabrugg sem svipar ótrúlega mikið til Rauða brúðkaupsins í Game of Thrones og er ég viss um að ef Machiavelli hefði verið uppi í dag hefði hann verið mikill Tywin Lannister maður. Bókin er ekki löng miðað við hefðbundna skáldsögu en hún er þó í lengri kantinum finnst mér miðað við hversu ótrúlega úthugsað efnið er. Bókin rennur merkilega vel áfram miðað við efni og er bæði uppfull af fróðleik og skemmtun. Ég er hrifinn af þessari bók því hún er nokkuð einstök hvað varðar efnistök en einnig af því að hún er umfram allt áhugaverð, snjöll og algjörlega siðlaus.

 

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.