Óþolandi að eiga morðkvendi fyrir systur

My Sister the Serial Killer eftir Oyinkan Braithwaite kom út fyrr á þessu ári og hefur hlotið fínustu viðtökur og var meðal annars tilnefnd til Women’s Prize for Fiction. Ég rak augun í bókina í hverfisbókabúðinni minni í London og var spennt að lesa verk eftir nígerískan höfund, en þetta er einungis önnur nígeríska bókin sem ég les á ævinni.

Skilgreindur raðmorðingi

Eins og titillinn gefur til kynna fjallar bókin um unga hjúkrunarfræðinginn Korede sem á systur sem er raðmorðingi. Bókin byrjar á mjög grípandi hátt þar sem Ayolee litla systir Korede biður hana að koma á glæpavettvang að hjálpa henni að hreinsa til eftir að hún hefur myrt þriðja kærastann í röð. Þetta gerir hana að nafninu til að raðmorðingja en samkvæmt skilgreiningu þarf einstaklingur að drepa að minnsta kosti þrjá aðila á mismunandi tíma til þess. Systir hennar sýnir litla iðrun og virðist Korede þurfa að lifa með því að Ayolee sé glæpakvendi sem truflar tilvist hennar ekkert allt og mikið þar til Ayolee fer að sýna Tade lækni sem vinnur með Korede áhuga. Korede er lengi búin að bera sterkar tilfinningar til Tade og nú eru allar líkur á að hann verði fjórða fórnarlamb Ayoolee, eitthvað sem Korede vill gera sitt besta til að koma í veg fyrir. En að bjarga honum felur í sér að svíkja systurina og þá eru góð ráð dýr!

Það er ferskur blær í bókinni sem snýst að mestu leyti um systurnar tvær sem báðar eru á sinn ólíka hátt sterkar kvenpersónur. Karlarnir eru algjörlega í bakgrunninum þó að þeir spili óneitanlega mikilvæg hlutverk í sögunni. Kolsvarti húmorinn er líka kærkominn. Það var gaman að kynnast aðeins nígeríska samfélagi við lesturinn; bókin var aðgengileg fyrir lesendur sem þekkja ekki til í Nígeríu og er höfundurinn dugleg að setja hlutina í samhengi sem auðveldar lesturinn.

Mér fannst þó eitthvað vanta upp á söguþráðinn sjálfan. Bókin var ekki löng eða einungis rúmar 200 blaðsíður og byrjaði rosalega vel en náði ekki að mínu mati því flugi sem hún hefði getað. Aðal persónurnar tvær eru ágætlega skapaðar og er systra sambandið sem einkennist af mikilli tryggð en jafnframt togstreitu ansi trúverðugt. Hins vegar fannst mér vanta meiri dýpt í hvað dreif persónurnar áfram: hvers vegna er Ayolee svona ofbeldishneigð og hvers vegna hefur Korede ekki tekið við stýrinu í eigin lífi?

Heilt yfir er þetta fínasta fyrsta bók höfundar og ansi góður efniviður sem hefði bara mátt þróa aðeins meira. Ég hlakka því bara strax til að lesa næstu bók Braithwaite þegar hún kemur út.

 

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...