Það sem aldrei er fjallað um

 „Þegar ég loks horfðist í augu við mín eig­in gen í föðurætt tók við at­b­urðarás sem var eins og stjórn­laus hvirfil­byl­ur, byl­ur sem gekk yfir til­finn­inga­lífið og þurrkaði út all­ar skil­grein­ing­ar á réttu og röngu. Freist­andi er að láta sem ekk­ert hafi gerst því eng­inn vill vera dæmd­ur fyr­ir þá synd sem karl­menn hafa verið háls­höggn­ir fyrir en kon­um drekkt.“

Þetta segir á bókakápunni Hornauga eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur sem kom út fyrir síðustu jól og vakti mikla athygli þá og var því ekki seinna vænna en að lesa hana í aðdraganda jólabókaflóðsins í ár.

Hornauga er önnur bók Ásdísar Höllu um fjölskyldusögu sína. Sú fyrri, Tvísaga, kom út árið 2016 og hlaut mikið lof. Systir mín og móðir höfðu lesið báðar bækurnar og mæltu með þeim við mig og ég var því spennt að hefja lestur þegar ég fékk loksins Hornauga í hendur. Sem fyrr segir vakti sagan mikla athygli en meðan Tvísaga fjallar um móðurfjölskyldu Ásdísar Höllu, fjallar Hornauga um kynni hennar við blóðföður sinn og hálfbróður eftir að kemur í ljós þegar hún er komin á fullorðinsaldur að hún var rangfeðruð. Það sem ég hafði helst heyrt um bókina áður en ég hóf lestur var um upplifun Ásdísar Höllu að kynnast hálfbróður sínum á fimmtugsaldri og að þau skyldu fella hugi saman. Það sem kom mér þó skemmtilega á óvart við lesturinn er að Hornauga fjallar um svo margt annað en kynni þeirra hálfsystkina, en jafn stór hluti bókarinnar snýr að hinni merkilega sögu Ingibjargar, langömmu Ásdísar Höllu. Ég hef ekki lesið Tvísaga, en taldi það ekki nauðsynlegt til þess að njóta þessarar bókar.

Það fyrsta sem blasti við mér við lestur bókarinnar er hvað Ásdís Halla er afbragðs góður penni, hún náði mér alveg á fyrstu síðunum þegar hún var að lýsa því hvað hún hefði verið ólík fjölskyldunni sinni alla tíð, hvort sem það var ljósbrúna hárið eða metnaðurinn í námi. Málfarið er vandað og frásögnin einlæg og skipting bókarinnar í kafla sem fjalla annars vegar um vegferð Ásdísar Höllu að kynnast föðurfólki sínu og hins vegar sögu Ingibjargar sem kemur að mestu leyti fram í sviðsetningu ferðar hennar til Íslands um miðbik síðustu aldar, skapaði frumlega bók.

Í samtali við Morgunblaðið um bókina sagði Ásdís Halla að hún byrjaði bókina á að skrifa um föðurfjölskyldu sína, sérstaklega formæður hennar, en endaði með aðra bók en hún ætlaði sér. Þegar hún sat fyrir framan tölvuna fór hún að skrifa um það sem hún gat ekki talað um en varð að reyna að skilja. Það þarf mikið hugrekki til að skrifa um svona mál sem gætu þótt mjög hneykslanleg. En mér fannst Ásdís Halla vanda mjög til verka við það, hún fer ekki mikið í óþægilegar lýsingar á samskiptum þeirra hálfsystkina heldur er hún meira að lýsa tilfininingum sínum og þeirri aðstoð sem hún sótti sér til að komast í gegnum þetta. Mér fannst maður geta tengt við atburðarrásina á vissan hátt, til dæmis að Ásdís Halla fór að lesa sér til um “genaást” til að reyna að skilja þessa hrifningu og hvort þetta hefði komið fyrir einhverja aðra.

Í raun spegla sögur þessara tveggja sterku kvenna Ingibjargar og Ásdísar Höllu hvor aðra, Ingibjörg eignaðist barn utan hjónabands og var þannig litin “hornauga” og ákvað í kjölfarið að flýja land. Ásdís Halla tók hins vegar hinn pólinn og opinberaði upplifun sína í bók frekar en að flýja aðstæður. Mörgum gæti þótt undarlegt að hún skyldi vilja tjá sig svona um þetta. Í viðtalinu við Morgunblaðið sagðist hún hins vegar hafa verið sannfærð um að þessi saga gæti hálpað öðrum sem hefðu lent í sambærilegu að eiga eftir að kynnast fjölskyldu á fullorðnsárum. Þess vegna fannst henni það skylda sín að opinbera þessa reynslu.

Heilt yfir er bókin mjög vönduð og koma fram í henni tvær mjög áhugaverðar sögur. Ég tek þó að einhverju leyti undir gagnrýni Kiljunnar að efnið sé fullteygt og -togað. Ég sat eftir forvitin í lok bókarinnar um hvort Ásdís Halla hefði komist í kynni við fleiri skyldmenni sín og hvernig sú upplifun hefði verið. Hún á fjölmörg önnur hálfsystkini, kynntist hún þeim? Einnig blundaði í mér spurningin um hvort kona blóðföður hennar hefði komist aftur til Íslands eftir að hafa verið send heim til Víetnam. Ef eitthvað er hefði ég viljað sjá meiri fókus á nútímann en fortíðina, en þótti þó lífsaga Inigbjargar mjög áhugaverð.

Hornauga er einstök bók sem mun umfjöllunarefnisins vegna líklega ekki höfða til allra, persónulega mætti ég henni með opnu hugarfari og skilaði það sér í yndislestri.

 

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....