„Veðráttan í helvíti“

Nú þegar veturinn er byrjaður að gera vart við sig mæli ég með að taka upp ljóðabókina Vellankatla eftir Þórð Sævar Jónsson. Slæmt veðurfar og náttúra Íslands eru fyrirferðamikil yrkisefni án þess þó að gera lesandann kvíðinn fyrir komandi vetri þar sem ávallt er stutt í húmorinn. Bókin er önnur ljóðabók Þórðar og kom út hjá Partusi fyrr á árinu. Áður hefur hann gefið út ljóðabókina Blágil, einnig hjá Partusi. Þetta einstaka nafn bókarinnar er dregið frá vík við Þingvallavatn.

Þessi bók kom mér skemmtilega á óvart. Ég bjóst ekki við því að skemmta mér nokkurn tímann svona vel yfir ljóðabók. Samlíkingarnar í ljóðunum eru einstaklega kómískar og óvæntar. Að ganga í mýrinni er „líkt og gengið / sé eftir risavöxnum appelsínugulum / svamppúða sem bakhliðum / frímerkja er dýft í“ (bls. 59). Dæmi um þetta er einnig í  ljóðinu „Gefst upp“ þar sem sólin er persónugerð. Hún lætur loksins sjá sig um miðjan vetur en þá er „engu líkara / en að hún hafi / slitið sig lausa / úr rosalega / langri / bóndabeygju“ (42). Þessar furðulegu samlíkingar ollu því að ég hló stundum upphátt við lesturinn. Hefur eitthvað ljóðskáld áður líkt bugðóttri á við símaleikinn Snake (sjá ljóðið „Í bústaðnum“ bls. 34)?

Þó nokkur myndljóð eru í bókinni þar sem höfundur leikur sér með orð og staðsetningu þeirra á blaðsíðunni. Eitt slíkt heitir „Rekaviðardrumbur á rúmsjó“ og er síðan auð fyrir utan bókstafinn „I“ – stakan staf í rúmsjó blaðsíðunnar. Stórfyndið í einfaldleika sínum. Myndljóð eru svo vandmeðfarin en mér fannst höfundi takast vel í þessari ljóðabók að skapa skemmtileg myndljóð sem brutu upp lesturinn á gamansaman hátt. Svona er hægt að leika sér með formið og tungumálið.

Ef þú lesandi góður hefur áhuga á hressandi ljóðabók til að undirbúa þig fyrir það sem koma skal í vetur, mæli ég með Vellankötlu. Sýnin á íslenskt veðurfar er því miður ekki falleg, þ.e. ljóðmælanda finnst að „einhvern veginn svona hljóti / veðráttan í helvíti / að vera“ (bls. 19), en kaldhæðnin kitlar hláturtaugarnar og enginn íslendingur getur efast um sannleiksgildi ljóðanna.

 

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...