Mjög svo viðeigandi nafn fyrir afskaplega lágstemmda bók

Falleg kápa prýðir söguna. Horft er yfir hafið og beðið eftir gestum.

Jæja, ég las Hin ósýnilegu eftir Roy Jacobsen, sem fengið hefur lofsamlega dóma hvaðanæva að; heilar sex stjörnur þar sem talað er um bókina sem fagurbókmenntir eins og þær gerast bestar og ég veit ekki hvað og hvað.

Ég veit ekki með ykkur en ég elska fallegar og vel skrifaðar bækur þar sem orðsnilld, lýsingar og list höfundar nær að skína í gegn, bækur Auðar Övu, Ólafar Jóhanns, Jane Austen og fleiri koma upp í hugann. Hér þarf söguþráðurinn oft ekki að vera aðalatriðið og ég legg ekki áherslu á að sagan þurfi að vera með miklum hápunktum og deilum í gríð og erg en ég verð samt að segja að Hin ósýnilegu er lágstemmd fyrir allan peninginn og meira til.

Fallega skrifuð en drepleiðinleg

Bókin er afbragðs fallega skrifuð og guðdómlega þýdd af Jóni St. Kristjánsson en Guð minn góður hvað ég geispaði þegar ég las hana. Sagan segir frá Barrey fjölskyldunni sem býr á Barrey eyju í byrjun 20. aldar. Þetta er einangraður heimur þar sem eitt og annað mjög svo lágstemmt gerist (nema þegar ein persónan fær nóg og rær á haf út í leit að einhverju meiru og BOMM blikk blikk ), bryggja er byggð, lappað er upp á hús, gerðir eru samningar, fólk verður gamalt og deyr. Hér er ástin á landinu og heimahögunum allan tímann í brennidepli.

Eins og ég segi þá legg ég ekki mikla áherslu á „action plot“ eða þess háttar en mér þykir samt sem áður fínt að hafa smá ris í sögunni. Jú risið kom vissulega, loksins sagði ég þá óþarflega upphátt, en heldur seint að mínu mati eða vel eftir bls. 150 ef mig minnir rétt (ég myndi glugga í bókina en ég týndi henni stuttu eftir að ég kláraði. Hún varð bókstaflega ósýnileg í þeim 47 fermetrum sem ég bý í.) Eftir rúmlega hálfa bók fannst mér ástandið skána og ég naut mín aðeins betur við lesturinn.

Allavega, þó svo söguþráðurinn hafi í raun verið fallegur í kjarnann þá leiddist mér óþarflega mikið við lesturinn. Gæti líka verið að ég hafi ekki verið í réttu hugarástandi þegar ég las bókina og kannski mun ég lesa hana aftur síðar meir og þá elska hana. Hvur veit!

En staðan er svona núna: Ég gef bókinni þrjár stjörnur fyrir vikið.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...