Sigrún Elíasdóttir sendir frá sér sína fyrstu barnabók núna fyrir jólin, Ferðin á heimsenda – Leitin að vorinu. Bókin er hreinræktuð furðusaga (e. fantasy) um félagana Húgó og Alex frá Norðurheimi, sem Sigmundur Breiðfjörð, myndhöfundur, mynskreytir. Eitt árið bólar ekkert á vorinu svo félagarnir eru fengnir til þess að stefna í hættuför til þess að leita að vorinu. Sigrún skapar heilan fjórskiptan heim og mjög líklega fá lesendur að kynnast heiminum frekar í væntanlegum framhaldsbókum.

Hvaðan spratt hugmyndin að bókinni?

„Hugmyndin varð til fyrir nokkrum árum þegar ég var að læra ritlist í Háskóla Íslands. Þá var ég í námskeiði hjá Kristínu Helgu, mömmu Fíu Sólar, sem hét Fjölskyldubókmenntir því við vorum að einbeita okkur að því að lesa og skrifa efni sem gæti höfðað til allrar fjölskyldunnar. Þá byrjaði ég að skrifa söguna um Húgó og Alex og ég kláraði hana síðan sem lokaverkefni í skólanum. Þaðan fór hún svo til Forlagsins og er nú loks komin á prent, þannig að já, hún er búin að vera nokkur ár í vinnslu.“

Hvaða persóna í bókinni er þér sérstaklega hjartfólgin?

Öldungurinn í túlkun Sigmundar Breiðfjörð, myndhöfunds.

„Það er erfitt að gera upp á milli persónanna sinna en mér þykir mjög vænt um bæði Alex og Húgó. Öldungurinn finnst mér líka sérstaklega skemmtileg týpa og myndin sem Sigmundur teiknaði af honum gerði hann bara ennþá betri.“

Hvaða atburðarás fannst þér skemmtilegast að skrifa?

„Mér finnst eiginlega allir eltingaleikir og bardagar ótrúlega skemmtileg. Eins finnst mér gaman að búa til og lýsa skrímslum og furðuskepnum. Sumar eru til í þjóðsögum en aðrar eru tilbúningur frá mér eða sonum mínum. Sá eldri, sem nú er 13 ára, var sérstaklega duglegur að hjálpa mér við skrímslahönnun og fjallaskrímslin, ísdrekinn og glirnurnar eru til dæmis öll frá honum komin.“

Hvers vegna velurðu að skrifa furðusögu (e. Fantasy)?

„Ég hef bara alltaf elskað vísindaskáldskap, ævintýri og furðusögur, bæði í bókum og kvikmyndum. Svo á ég líka tvo stráka sem elska skrímsli og spennandi sögur og okkur fannst eins og það vantaði meira af þannig bókum á íslensku.“

Eiga lesendur von á fleiri bókum um Húgó og Alex?

„Já, það verður að sjá til þess að þau klári allt ferðalagið, til Vesturs, Suðurs og Austurs, því það eru fleiri heimar í vanda. Ég er um þessar mundir að leggja lokahönd á handrit að bók númer tvö sem kemur út fyrir jólin 2020.“

 

Hér er textabrot sem lýsir bardaganum við sæpúkana á forsíðu bókarinnar.

Húgó og Alex stukku í áttina að dýrinu og veltu nærri því bátnum með hamaganginum.

„Hvað er það að gera?“ æpti Húgó og leitaði að einhverju til að berja kvikindið með. En eins og venjulega var Alex einu skrefi á undan honum og skaut ör í gegnum hausinn á dýrinu svo það lyppaðist niður. Áður en Húgó gat hrósað henni birtust fjórir hausar í viðbót sem tóku líka til við að naga borðstokkinn. Um leið og þeir höfðu verið skotnir til bana líka birtust bara enn fleiri.

„Heldurðu að þeir geti sökkt bátnum?“ kallaði Húgó sem hafði náð sér í litla pottinn, sem þau elduðu í á ferðalögum sínum ofan í bakpokann og sló nú villt og galið á hausa og hendur eins og trommuleikari.

„Já örugglega. Öldungurinn sagði bara að illhveli og óveður gætu ekki sökkt honum.“

„Og hvað er þetta þá?“

„Ætli þetta séu ekki sæpúkarnir sem hann varaði okkur við? Ég er ekki viss um að ég eigi örvar handa þeim öllum, sjáðu.“ Púkarnir tróðust hver um annan þveran að borðstokknum. Húgó hafði mestar áhyggjur af þeim sem ekki sáust. Hvað ef einhverjir þeirra væru undir bátnum að naga gat á hann? Þá fékk hann hugmynd.

„Herra bátur, vilduð þér vera svo vænn að fara hraðar?“ kallaði hann virðulega út í loftið án þess að hafa hugmynd um hvernig talað væri við báta. Kannski var það virðuleikinn, kannski kurteisi ömmu gömlu, en báturinn jók allavega snögglega hraðann.

„Vinstri, takk! Og svo hægri, takk!“ Báturinn sikksakkaði frá hægri til vinstri á ógnarhraða. Við þessar æfingar misstu margir sæpúkanna takið á bátnum og þá sem enn héngu fastir gat Alex lamið frá borði svo að lokum voru þeir allir horfnir. Skipverjar ráku upp húrrahróp. Báturinn virtist óskemmdur þótt hann væri vissulega töluvert nagaður og rispaður.

Alex og Húgó voru nýsest til að kasta mæðinni eftir viðureignina þegar skvamphljóð heyrðist í nokkurri fjarlægð, eins og þegar eitthvað stórt skellur á vatni.

„Hvað var þetta?“ hvíslaði Alex.

„Illhveli að stökkva?“ Rödd Húgós titraði.

„Þú ert með illhveli á heilanum, þau öskra þegar þau stökkva. Þetta er eitthvað annað.“

Annað skvamp heyrðist, hinum megin við bátinn.

Hits: 413