Kjarval: Málarinn sem fór sínar eigin leiðir er þriðja fræðibók fyrir börn og unglinga úr smiðju Margrétar Tryggvadóttur. Áður hefur Margrét gefið út Íslandsbók barnanna og Skoðum myndlist. Bókin um Kjarval kom út í haust og er ekki síður ætluð eldri lesendum sem vilja vita meira um Jóhannes S. Kjarval og íslenska myndlist, en börnum og unglingum.
Hvaðan spratt hugmyndin að bókinni?
„Árið 2006 gaf ég út bók með Önnu C. Leplar teiknara sem heitir Skoðum myndlist og fjallar um myndlist fyrir krakka. Þá var stór bók um Kjarval nýkomin út og Silja Aðalsteinsdóttir hafði skrifa kafla um okkar mann þar. Hún velti því upp við mig hvort það gæti verið sniðugt að skrifa barnabók um Kjarval og í fyrstu leist mér nú ekkert á það en hugmyndin skaut rótum og eftir að ég hætti á þingi 2013 fór ég að velta henni alvarlega fyrir mér. Þegar ég var í útlöndum leitaði ég uppi ævisögur fyrir börn, bæði um listamenn og annað merkilegt fólk, bara svona til að sjá hvað þetta form byði upp á. Margar svona bækur fyrir börn eru mjög einfaldar og í litlu broti en það var leið sem ég sá strax að ég vildi ekki fara í þessu tilfelli. Ég sá líka að þegar þetta var vel gert þá gæti 100 síðna bók gefið langflestum lesendum fullnægjandi svipmynd af persónu, sérstaklega þegar myndefnið leikur stórt hlutverk því það er hægt að segja svo margt með myndum og dýpka skilning og tilfinninguna fyrir viðfangsefninu. Á okkar örmarkaði þurfa líka eiginlega allar bækur að vera fyrir alla því hver markhópur er svo lítill. Og ég vildi hafa bókina í stóru broti svo stórfenglegustu myndir Kjarvals myndu njóta sín vel. Margar þeirra eru stórar og þurfa töluvert pláss í bók til að njóta sín almennilega. Ég þurfi aðeins að leyfa útgefandanum mínum að venjast hugmyndinni og það er líka þannig að þessa bók hefði aldrei verið hægt að gefa út nema af því við fengum ágæta styrki til þess.“
Hvaða erindi getur Kjarval átt til ungmenna í dag?
„Hann Jóhannes, eins og ég kýs að kalla hann, á mikið erindi finnst mér. Hann var frumkvöðull á svo mörgum sviðum, ekki bara í myndlist heldur einnig t.d. í umhverfismálum þar sem hann talaði og hugsaði öðruvísi en langflestir samtímamenn hans. Þegar hann var ungur maður var sjálfstæðisbaráttan í hávegi og hann lagði mikla áherslu á að Íslendingar þyrftu ekki bara sjálfstæði frá Dönum heldur menningarlegt sjálfstæði. Það finnst mér hugsun sem á alveg jafnvel við í dag og þá. Við sjálf þurfum að hlúa að okkar menningararfi en ekki síður samtímamenningunni okkar. Við erum þau einu sem geta sagt sögurnar um okkur. Það er enginn að fara að gera það fyrir okkur.“
Hvað viltu að lesendur taki með sér úr bókinni?
„Ég vona að þau sem lesa átti sig á hvað Jóhannes var stórkostlegur listamaður og læri að meta verkin hans en ekkert síður að sérstaklega ungir lesendur átti sig á hve miklu skiptir að gefast ekki upp og fylgja hjartanu. Jóhannes fæddist í allt að því myndlausu landi árið 1885 og ólst upp í afskekktri byggð en samt hafði hann þessa djúpstæðu þrá eftir að skapa myndlist. Hvaðan kom hún? Ég vil líka reyna að færa hann nær lesendum hann hefur verið á stalli en mér finnst alveg kominn tími til að dusta af honum rykið og kynna hann nýjum kynslóðum. Meðal annars þess vegna kalla ég hann Jóhannes en ekki Kjarval. Í bókinni birtum við mikið af munum úr hans eigu sem barnabarn hans Kolbrún Kjarval hélt til haga og kom svo á Minjasafn Austurlands. Þeir gera bókina enn persónulegri og það er von mín að lesendum finnist þeir kynnast honum betur með þessum hætti.“
Var eitthvað sem kom þér á óvart við vinnslu bókarinnar? Hvað fannst þér skemmtilegast að skrifa?
„Mér fannst skemmtilegast að velja myndefnið í bókina. Ég hef starfað töluvert sem myndritstjóri og þar er ég á heimavelli þótt mér finnist líka mjög gaman að skrifa. Ég hugsaði hverja opnu sem heild þar sem ég ýmist hafði ákveðið myndefni í huga eða fann það seinna. Ég valdi líka að gera verkunum hans hátt undir höfði og sýna þeim virðingu með því að hafa þau afmörkuð frá textanum þar sem umbrotið er órólegra. Öll heimildavinnan var líka skemmtileg enda hefur töluvert verið skrifað um Kjarval og margt frábærlega gert. Allra skemmtilegast var þó að fylgjast með bókinni færast á síður. Alexandra Buhl hönnuður náði einhvern veginn að kjarna allar mínar hugmyndir og koma þeim dásamlega fallega frá sér. Ég fékk þetta í slumpum og það var eins og jólin væru komin í hvert sinn sem ég fékk sendar síður.“
Hvers vegna velurðu að skrifa fræðibók fyrir börn og unglinga?
„Það er nú það. Þetta er þriðja bókin mín sem má flokka þannig þótt þær séu allar ólíkar og sú fjórða er í vinnslu. Ég er sjálf mikið nörd og ef ég fæ áhuga á einhverju þarf ég að lesa allt um það og skilja til fulls. Í mínum störfum, bæði í myndritstjórn en ekki síður í stjórnmálunum, þarf maður oft að rannsaka eitthvað vel og það finnst mér alveg fáránlega skemmtilegt. Svo á ég syni og þegar þeir voru börn þá sóttu þeir mikið í fræðibækur fyrir börn. Það var lítið til á íslensku svo við enduðum oft á að kaupa bækur á erlendum málum líka sem þeir skoðuðu og lásu eftir því sem þeir gátu. Nú hafa börn aðgang að miklum fróðleik á netinu en á Wikipediu, eins frábær og hún nú er, er ekki lagt upp úr stíl eða orðfæri og mjög mikið af því sem íslensk börn lesa þar og annars staðar á netinu er á ensku. Krakkar, sem hafa brenndandi áhuga á ýmsum fyrirbærum og þekkja vel til þeirra, kunna oft ekki að tala um þau á íslensku því þau þekkja einfaldlega ekki íslensku orðin. Það finnst mér algjörlega ótækt og afskaplega sorglegt.“
Margrét vill nota tækifærið og hvetja alla sem þetta lesa til að gefa börnum bækur. „Íslenskar barnabækur eru í miklum blóma núna og margir nýir og verulega góðir höfundar í bland við þá reyndari eru með bók í ár. Kjarval var umhugað um hið menningarlega sjálfstæði og þar skipta barnabækur óskaplega miklu máli. Ef við gefum börnum og unglingum ekki kost á sögum sem endurspegla samtíma þeirra og uppruna erum við að gefa þau skilaboð að líf þeirra sé ekki nógu merkilegt í sögu,“ segir Margrét að lokum.
Hér er textabrot úr upphafi bókarinnar.
MAÐURINN Í HRAUNINU
Í hrauninu miðju stendur maður við trönur og málar eins og hann eigi lífið að leysa. Þarna er hann búinn að standa síðan snemma í morgun þótt kalt sé úti og stöku snjókorn flögri um og lendi á trönunum hans. Það er langt liðið á haustið, sumir myndu jafnvel segja að það væri vetur. Þarna hefur hann fest niður striga og málar nú allt sem fyrir augu ber og meira til. Hann málar ekki bara fjallið í fjarskanum heldur líka klettinn, hólana og hæðirnar fram undan, himininn, hraunið við fætur sér, snævi þakinn mosann og smásteina sem liggja um allan móann. Og í hrauninu á striganum leynast, ef vel er að gáð, alls konar skrítnar verur sem standa vörð um landið og gætu reynst harðar í horn að taka.
Til að skýla sér fyrir kuldanum er maðurinn með ræfilslegan hatt á höfðinu og í slitnum og götóttum frakka með loðkraga. Um sig miðjan hefur hann bundið snærisspotta svo að frakkinn fjúki ekki til og frá. Tölurnar slitnuðu nefnilega af og eru löngu týndar. Í mosanum í kringum hann liggja kassar með penslum og litum, dós með þynni og fleira dót sem hann notar þegar hann málar.
Maðurinn heitir Jóhannes Sveinsson Kjarval og nú finnur hann allt í einu að hann er orðinn svangur. Þorvaldur bílstjóri skutlaði honum hingað í Gálgahraun eldsnemma í morgun, áður en birti, og eina ferðina enn steingleymdi hann að taka með sér nesti. En Þorvaldur þekkir hann vel og hafði fært honum heitt kaffi á brúsa til að ylja sér á. Það bjargaði honum alveg. Annað hafði hann ekki fengið í dag en sem betur fer leynist poki með sveskjum í frakkavasanum og þær seðja sárasta hungrið.
Enn er svolítið eftir af deginum og Jóhannes keppist við að mála áður en myrkrið skellur á. Hann hafði beðið Þorvald að sækja sig í rökkrinu. Áfram skal haldið. Hann má engan tíma missa.