Rauði þráðurinn er mikilvægi vináttunnar

Bergrún Íris Sævarsdóttir er höfundur bókanna um Eyju og Rögnvald. Bækurnar sem í daglegu tali eru varla kallaðar annað en Langelstur-bækurnar. Bergrún er afkastamikill myndhöfundur og hefur myndskreytt fjölda barnabóka og teikningar hennar eru orðnar nokkuð áberandi á íslenskum barnabókamarkaði. Hún fékk svo barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í vor fyrir bókina Kennarinn sem hvarf. Fyrir þessi jól sendir hún frá sér lokahnykkinn í því sem nú er orðið þríleikur um Eyju og Rögnvald, Langelstur að eilífu.

Eins og tryggir lesendur Langelstur-bókanna vita er Rögnvaldur orðinn háaldraður, 97 ára gamall og nýbúinn með fyrsta bekk. Vinátta Eyju og Rögnvaldar er falleg, en það er spurning um hve lengi Eyja fær að hafa Rögnvald hjá sér. „Það var bæði gott og dálítið erfitt að skrifa þessa bók. Í lokin er hann saddur lífdaga og fær að kveðja á fallegan hátt. Ég vildi fylgja Eyju gegnum allan tilfinningarússíbanann og tala um dauðann á opinskáan en einlægan hátt,“ segir Bergrún og bætir við að börn eigi það skilið að talað sé á heiðarlegan hátt við þau um erfiða hluti. „Enda vill maður hlífa þeim við sársauka sem lengst. Bókin er því frábært tæki og veitir foreldrum aðstoð til að opna á umræðuna. Þegar það kemur að því að barn missir einhvern nákominn sér er hægt að vitna í bókina og nota hana til að greina tilfinningarnar sínar. Á sama tíma er hún full af fyndnum atriðum og mér skilst að lesendur hlæji meira en þeir gráta, sem er vel.“

Hvaðan spratt hugmyndin að bókunum um Eyju og Rögnvald og var alltaf ætlunin að skapa seríu?

„Hugmyndin kviknaði fyrir mörgum árum þegar ég sótti son minn í frístundaheimilið. Ég settist við hlið hans á meðan hann kláraði að perla en stóllinn var mjög lágur, enda ætlaður börnum. Það fór strax mjög illa um mig og ég fékk smá sting í bakið. Þá fer ég að hugsa hvernig það væri ef ég væri enn í grunnskóla þrítug, eða hversu fyndið það væri ef ég væri enn eldri, jafnvel alveg á grafarbakkanum. Þegar ég kom heim fór ég strax að teikna, gamlan mann á vegasalti, í rólu og sitjandi við skólaborð í barnastærð. Ég segi því oft að hugmyndin hafi fæðst sem bakverkur.“

Eyja og Rögnvaldur hafa gengið í gegnum nokkuð margt saman. Munu þau halda áfram að lenda í ævintýrum í þessari bók?

„Í bókinni Langelstur að eilífu er sem Rögnvaldur skynji að hann eigi stutt eftir ólifað. Hann er hinsvegar nýbúinn að læra að lesa og læra á klukku, og ótal margt sem hann á eftir að prófa í lífinu. Þau Eyja búa því til lokalista sem hann þarf að klára áður en yfir lýkur. Á listanum eru atriði eins og fara í karókí, hoppa á trampólíni, smakka sushi, fara í fallhlífastökk, renna sér í vatnsrennibraut og fleira. Þau lenda því í ótal skemmtilegum og bráðfyndnum ævintýrum í bókinni.“

Er einhver boðskapur í bókinni?

„Ég reyni að þvinga aldrei neinn boðskap upp á lesendur en auðvitað eru mörg undirliggjandi skilaboð. Það tekur hver það úr bókinni sem hann/hún/hán vill. Eflaust er rauði þráðurinn mikilvægi vináttunnar, og það að við erum aldrei of gömul til að upplifa nýja hluti, aldrei of sein til að snúa við blaðinu, og að allar aðstæður eiga sér bjartar og dökkar hliðar. Það hvernig við tökumst á við erfiðleikana skiptir mestu máli.“

Hvaða persóna í bókinni er þér sérstaklega hjartfólgin?

„Mér þykir að sjálfsögðu vænst um Eyju og Rögnvald. En mamma hennar Eyju er manneskja sem ég tengi mjög mikið við. Hún er sítengdur vinnuþjarkur sem forgangsraðar oft þannig að vinnan trompar einkalífið. Ég hafði fylgt henni gegnum tvær bækur af stressi og vildi finna leið til að kenna henni að slaka á. Það tókst, sem betur fer. Nú þarf ég bara að kenna sjálfri mér það sama.“

Verða fleiri bækur um dúóið Eyju og Rögnvald?

„Ég er nokkuð viss um að þetta sé síðasta bókin um Eyju og Rögnvald, enda erfitt að skrifa bók eftir að aðalsöguhetjan deyr! En það er ekki ómögulegt, og ég á fína hugmynd að fjórðu bók, en líklega leyfi ég kallinum að hvíla í friði.“

 

Hér að neðan er hægt að lesa örlítið úr bókinni:

Í einu horni trampólíngarðsins er fámennt ungbarnahorn. Einstaka bleyjubarn skríður yfir mjúka hoppudýnu á meðan foreldarnir taka myndir í gríð og erg.
„Já, hér er okkur óhætt,“ segir Rögnvaldur, leggur frá sér stafinn og andar djúpt áður en hann heldur hikandi út á trampólínið. Fyrst um sinn dúar gamli maðurinn varlega með hendurnar útréttar til hliðanna. Hann hnyklar brýnnar og reynir að átta sig á eðli gormanna. Eftir töluvert brölt nær Rögnvaldur loks tökum á hoppinu.
Eyja hefur sjaldan séð Rögnvald jafn kátan og hoppar hlæjandi í átt til hans. Hlátur Eyju blandast háværri tónlistinni sem glymur úr skærbleikum hátalara í loftinu. Hún reynir að hoppa í takt við tónlistina en það er erfitt að hafa stjórn á stökkvunum. Eyja er töluvert léttari en Rögnvaldur og í hvert sinn sem hann lendir kastast hún hærra upp í loft. Óörugg reynir hún að ná takti á ný með því að lenda jafnfætis af miklum krafti.
Því hefði hún betur sleppt því nú riðar Rögnvaldur til falls! Hann hefur misst jafnvægið og hrukkótt gleðibrosið breytist í skelfingargrettu. Áður en Eyja nær að stoppa dettur Rögnvaldur kylliflatur á rassinn. Um leið flýgur Eyja hátt upp í loft og lendir með skelli ofan á vinstri handlegg gamla mannsins.
Nokkrum tárum síðar er ljóst að öll bein eru heil og enginn alvarlega slasaður. „Get ég þá strikað trampólínhopp út af listanum?“ spyr Rögnvaldur og snýtir sér í skræpóttan klút.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.