Benný Sif Ísleifsdóttir er þjóðfræðingur að mennt og nýtir sér menntun sína til að skapa bráðskemmtilegar sögur fyrir börn, innblásnar af gömlum þjóðsögum. Álfarannsóknin er hennar þriðja bók en fyrri bækur eru Jólasveinarannsóknin og Gríma. Jólasveinarannsóknin er undanfari Álfarannsóknarinnar. Í fyrri bók tekur Baldur, aðalsöguhetjan, sér fyrir hendur að rannsaka jólasveinana. Hver er það eiginlega sem gefur í skóinn? Niðurstaðan kemur töluvert á óvart!
Í þessari bók tekur Baldur sér fyrir hendur nýja rannsókn, Álfarannsókn! Það tekur hann þó nokkurn tíma að finna nákvæmlega út hvað það er sem hann er að fara að rannsaka, rétt eins og það er með alvöru rannsóknir. Baldur fer austur á land með móðurafa sínum og pabba að sumri til. Þar gerast undarlegir hlutir. Smiðir slasast við byggingu viðbyggingar á húsi afa, vélar bila og allt gengur á afturfótunum. Þetta er allt mjög undarlegt og Baldur ákveður að komast til botns í málunum með hjálp frá tveimur vinum (annar er töluvert loðinn).
Álfasteinn í flúkti við pallinn
Líkt og í fyrri bók nýtir Benný Sif sér þekkingu sína á þjóðsögum og þjóðfræði til að skapa söguna. Að auki hefur hún dásamlegan orðaforða sem kemst skemmtilega til skila til lesenda, eins og orðið flúkt! Áreynslulaust og án prédikana kemur Benný skemmtilegum orðum að í bókinni og nær að útskýra þau á sama tíma fyrir lesendum, sem verður að teljast nokkuð vel gert. Það var töluvert meira af orðum sem voru útskýrð í þessari bók, miðað við Jólasveinarannsóknina. Stundum fannst mér það of mikið af því góða.
Hlýjar persónur – hlýjar myndir
Persónur Bennýjar eru ljóslifandi og skemmtilegar. Hin argi afi er persóna sem örugglega allir kannast við. Svo er það hinn meyri og ljúfi Baldur, áhyggjufulla mamman og hin sjálfsörugga Katla Katrín. Benný skrifar persónurnar af öryggi og innsæi og fyrir vikið verða þær hlýjar og innilegar.
Myndhöfundur bókanna er Elín Elísabet, sem nær að fanga algjörlega hlýleikann í persónum Bennýjar í myndum sínum, en þó skín húmorinn vel í gegn. Við lesturinn kom ekki til greina að ímynda sér Baldur og Kötlu Katrínu á nokkurn annan hátt en Elín Elísabet hafði teiknað hann.
Söguþráðurinn er hægur og taktviss. Það er hægfara framvinda, dularfullir atburðir, húmor en fyrst og fremst endaus hlýja. Bókin er ekki hasarbók, en ætti að rata í hendur allra barna (og kannski fullorðinna?) sem þurfa hlýju, ráðgátu, Austfirði og íslenska náttúru í líf sitt.